Guinea íbúarnir,
Flag of Guinea


GUINEA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Fulanifólkið (fulbe, fula eða peul) í Fouta Djallon bjó í 75-95 íbúa smáþorpum (hinir lægra settu í dölunum) áður en stóru þéttbýlin fóru að myndast og fólkið fór að flykkjast þangað úr sveitunum.  Uppi á hálendinu var þétt net þorpa með nokkurra kílómetra millibili en austurhluti landsins var strjálbýlli.  Í neðri Gíneu stóðu þorpin þétt saman við rætur hæða, á flatlendi eða í dölum.  Þar var samstaða og samhygð meira áberandi en á hálendinu og 100-200 manns bjuggu í hverju þeirra.

Flest maliknefólkið í efri Gíneu bjó í hæfilega stórum þorpum (1000 íbúar) við varanleg vatnsból og nýtti nærsvæðin til ræktunar.  Þorpin stóðu tiltölulega þétt saman og vítt og breitt mill ræktarsvæðanna voru runnar og órækt.

Á skógarsvæðinu hafa merki búsetunnar orðið æ meira áberandi allt frá miðri 20. öldinni.  Kissifólkið við landamæri Sierra Leone og Líberíu ræktaði hrísgrjón upp um flestar hlíðar og á fenjasvæðum.  Þorpin voru fremur smá, sjaldnast fleiri en 150 íbúar.  Þau kúrðu oft í lundum kola-, mango- og kaffitráa.  Austar, þar sem loma- og kpellefólkið býr, var skógurinn brenndur til landnýtingar (hrísgrjón og grænmeti).  Stærri þorp voru víðast á afskekktum hæðastöllum, umkringd endurvöxnum skógi.

Stærsta borg landsins er Conakry.  Gamla borgin á Tumboeyju hefur yfirbragð nýlendubæjar en Camayenne (Kaloum) á skaganum, sem hefur byggzt frá sjötta áratugi 20. aldar, státar af fáum húsum frá nýlendutímanum.  Fremst á skaganum er iðnaðarsvæði.

Næststærsta borgin er Kankan í efri Gíneu.  Hún byggist á verzlun, menntastofnunum, stjórnsýslu og trúarmiðstöð múslima.  Labé er inni á Fouta Djallon-svæðinu.  Hún er markaðsborg og miðstöð menntunar og stjórnsýslu.  Nzérékoré á skógarsvæðinu hefur svipuðu hlutverki að gegna.  Aðrar mikilvægar borgir eru Kindia og Mamou (verzlun) og Boké, Fria og Kamsar (iðnaður).

Þjóðflokkar.  Landfræðileg skipting Gíneu í fjögur svæði nær einnig til hinna fjögurra tungumálahópa landsins.  Í neðri Gíneu hefur susutungan tekið við af fjölda annarra tungumála innfæddra og er aðaltunga fólksins á ströndinni.  Á Fouta Djallon-svæðinu er aðaltungan pular (mállýzka af fulfulde-stofni, sem er tunga fulanifólksins), en í efri Gíneu er malinketungan útbreiddust.  Á skógarsvæðinu eru talaðar þrjár höfuðtungur, kpelle (austast), loma (miðsvæðis) og kissi (vestast).

Eftir árið 1984 fór útlendingum búsettum í landinu að fjölga fram yfir hina hefðbundnu diplómata, kennara og rækniráðgjafa.  Þar er aðallega um að ræða líbanska og sýrlenzka kaupmenn og franska landbúnaðar-, viðskipta- og tækniráðunauta.

Næstum 75% þjóðarinnar eru múslimar.  Kristnir eru nokkuð fjölmennir, aðallega katólskir.  Nokkuð stór minnihlutahópur aðhyllist enn þá trú og siði forfeðranna.

Lífslíkur hafa smám saman batnað (39 ár meðal karla og 42 ár meðal kvenna) en eru þó enn þá meðal hinna lökustu í Afríku sunnan Sahara.  Innflytjendum fjölgaði lítillega eftir 1984 og brottflutningur, sem var mikill á áttunda áratugnum, dvínaði á hinum níunda.  Þegar mest bar á brottflutningi (aðallega frá Fouta Djallon og efri Gíneu), fluttust tæplega 17% vinnufærra karla af landi brott, þannig að ójafnvægi varð í aldursdreifingu og kynskiptingu.  Flestir fluttust til nágrannalandanna en nokkrir til Evrópu og Norður-Ameríku.  Mestu þéttbýlissvæði landsins eru Fouta Djallon, Conakry, Camyenne-skagi og iðnaðarsvæðin Boké, Fria og Kamsar, sem búa við stöðugt aðstreymi fólks úr dreifbýlinu.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM