Ghana sagan,
Flag of Ghana


GHANA
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Forsögulegur tími.  Á ísaldarskeiðinu urðu loftslagssveiflur í Ghana eins og annars staðar í Afríku.  Með aukinni úrkomu færðust skógasvæði norðar og íbúar fluttust nær Sahara og á þurrkaskeiðum bjuggu þeir jafnvel á skógasvæðum sunnar.  Elztu merki um steinaldarmenningu í formi verkfæra úr völusteinum fundust í suðausturhlutanum.  Þegar þurrkar jukust kom fólk aftur inn á svæðið.  Það settist að meðfram Togo-fjallgarðinum frá Nigerfljóti.  Mikið er um leifar í Transvolta og í kringum Accra og alla leið til Kumasi.  Vesturhlutinn var vaxinn skógi og því lítið byggður.  Merki um Lupenban-menninguna finnast grunnt í ármöl í dölum, sem höfðu verið að myndast.  Í Mið-Ghana eru verkfærin haglega gerð en formlaus og grófgerð við ströndina.  Slípaðar axir og grófir leirmunir frá síðari hluta steinaldar hafa fundizt í kringum Kintampo og á Akkra-sléttunum og skrautmunir og leirhús voru meðal þess, sem fannst við Abetifi.

Engin merki hafa fundizt um járngerð.  Slípaður steinn var notaður allt fram á 16. öld, einkum í skógunum, og grænsteinn (díabas/díórít) var notaður til að greiða fyrir axir.  Hlújárn úr grænsteini var algengt í Transvolta og vesturhlutanum.  Ekki hefur tekizt að koma menningunni í rímaröð fram á 17. öld.  Skreyttir leirmunir og perlur frá Nsuta gætu verið frá snemm-miðöldum.  Sekondi-þorp og grafreitir og haglega gerðir leirmunir, steinaxir og skrautmunir úr kvarts og skeljaperlur tíðkuðust fram á daga Portúgala.  Ríkulega skreyttir leirmunir fundust í norðurhlutanum auk rústa leirhúsa.  Engin merki um innflutta muni frá Evrópu finnast fyrr en frá 17. öld.

Fornar hefðir.  Nútímaríkið Ghana heitir sama nafni og fornt keisaraveldi, sem dafnaði fram á 13. öld nærri Sahara í Vestur-Súdan.  Aðalmiðstöð hins forna Ghana var u.þ.b. 800 km norðvestan núverandi ríkis og allgóð vissa er fyrir því, að það náði ekki inn í Ghana nútímans, og ekki hefur verið hægt að tengja núverandi íbúa landsins við fornveldið.  Skráðar heimildir ná aðeins yfir söguna eftir komu Evrópumanna á 15. öld og samskipti fornveldisins við múslima á öldum frá 800 til 1300.  Margir nútímaættbálka Ghana halda í velvarðveittar hefðir.  Margar þeirra má vafalítið rekja til 14. aldar, en séu þær tákn um hið forna Ghana, er oftast erfitt að túlka þær.  Enn þá hefur lítið miðað í tengingu fornleifa við hinar gömlu hefðir.

Verzlunarleiðir múslima.  Frekari forleifarannsóknir og fundir járnaldarminja munu vafalítið svara mörgum spurningum um forsögu Ghana.  Gamlir siðir og hefðir benda til þess, að þjóðflokkar hafi flutzt til landsins úr öllum áttum í sex aldir áður en Bretar komu við sögu.  Líklega var núverandi Ghana mótstaður tveggja mikilvægra póla í sögu Afríku, sem byggðust á tveimur meginleiðum yfir Sahara, hinni vestari, sem tengdist aðalvatnakerfi Niger og Senegal-ánna til Marokkó og miðleið, sem tengdist Niger-bugðunni og Chad-vatni til Túnis og Trípólí.  Við enda vestari leiðarinnar þróuðust öflug Mande-ríki, þ.m.t. Forn-Ghana og Malí, en austar Songhai, Hausa-ríki og Bornu.  Merki hafa fundizt um ferðir mande-kaupmanna norðan skóga nútíma Ghana í leit að gullsandi á 14. öld og Hausa-kaupmanna í leit að kólahnetum á 16. öld.  Þannig hafa íbúar Ghana kynnzt ríkidæmi og nýjum hugmyndum frá voldugum ríkjum í Vestur-Súdan í kjölfar útbreiðslu islam í Norður-Afríku.

Fólksflutningar.  Það verður að líta á uppruna ríkisins Ghana í ljósi þess, sem á undan er komið.  Flest bendir til þess, að fyrstu ríki akan-mælandi ættbálka, sem búa nú á flestum skóga- og strandssvæðum, hafi verið stofnuð á 13. öld eftir að svæðin norðan skóganna voru byggð fólki, sem kom frá Mande.  Ráðandi ríki í Norður-Ghana, Dagomba, Mamprussi og leppríki þeirra, voru þegar stofnuð í kringum 1500, þegar árásarmenn komu frá Hausa-svæðunum.  Litlu síðar komu stofnendur ríkjanna Ga og Ewe í suðausturhlutanum frá núverandi Nígeríu eða svæðum enn sunnar.  Mande-menn stofnuðu Gonja-ríkið í miðju landinu í upphafi 17. aldar.

Sögusagnir herma, að heilu þjóðirnar hafi verið á faraldsfæti.  Í nokkrum tilvikum, s.s. í tengslum við Dagomba, Mamprussi og Gonja, er hægt að sýna fram á, að tiltölulega fámennir hópar herkænna innrásarmanna náðu áhrifum lengra til norðurs, þar sem voru þegar menningarsamfélög, sem byggðust meira á skyldleika en hollustu við stjórnmálalega leiðtoga.  Líklega voru fyrstu Akan-ríkin (Bono og Banda) norðan skógabeltisins eða minni ríkin á ströndinni stofnuð á þennan hátt.  Síðar lögðu akan-menn undir sig skógasvæðin, sem voru líklega strjálbýl.  Talið er, að landnám ga- og ewe-manna í suðausturhlutanum hafi verið mun stærri og íbúarnir, sem voru þar fyrir, hafi blandazt þeim.

Evrópumenn og áhrif þeirra.  Einhver mesta bylting í sögu Ghana fólst í viðskiptum við Evrópumenn í kjölfar komu portúgalskra sæfara árið 1471.  Upphaflega girntust Evrópumenn gullið, sem nóg var af á strandsvæðunum, í skiptum fyrir dúk, járn, perlur, málma, áfengi, vopn og skotfæri.  Þessi viðskipti leiddu til nafngiftar Gullstrandarinnar, sem hét því nafni til 1957.  Portúgalar reyndu að vernda einokunaraðstöðu sína með byggingu varnarvirkja (Elminakastali var hið fyrsta, byggt 1482) á ströndinni með leyfi innfæddra.  Á 17. öld urðu Portúgalar að láta undan síga, þegar Hollendingar, Englendingar, Danir, Svíar og Prússar, sem voru mótmælendur og andsnúnir yfirráðastefnu ríkjanna á Íberíuskaga, uppgötvuðu gullviðskiptin og þá ekki sízt möguleikana á arðbærum viðskiptum með þræla vegna vaxandi eftirspurnar vestanhafs.  Um miðja 18. öld stóðu u.þ.b. 40 virki undir stjórn Hollendinga, Englendinga eða Dana á ströndinni.

Varanleg búseta Evrópumanna á ströndinni hafði víðtæk áhrif.  Nýir kaupstaðir voru mun aðgengilegri en markaðir í Súdan og sjóflutningar voru afkastameiri en flutningar á gömlu verzlunarleiðunum á landi.  Smám saman leiddu þessir viðskiptahættir til ójafnvægis í viðskiptunum.  Ríkidæmið, verkfærin og vopn, tækni og hugmyndir Evrópumanna ollu miklum breytingum á félagslegum, pólitískum og efnahagslegum aðstæðum.  Ríkjunum norðan skógarbeltisins, sem voru fyrrum hin voldugustu og ríkustu, hnignaði samtímis uppgangi annarra sunnar.  Í lok 17. aldar varð akan-ríkið Akwamu að stórveldi frá miðri Gullströndinni austur að Dahomey og reyndi að ná tökum á verzlunarleiðunum að allri austanverðri Gullströndinni.  Þetta ríki varð skammlíft en leiddi til bandalags asante-ríkjanna í skógabeltinu.  Það náði undirtökunum í akan-nágrannaríkjunum og teygiðst norður fyrir skógabeltið til Bono, Banda, Gonja og Dagomba.

Að lokum náði þetta bandalagsríki yfir allt svæðið, sem var uppspretta viðskiptanna á ströndinni, og athyglin fór að beinast að yfirráðum þar líka.  Daglegt líf varð æ evrópskara og á síðari hluta 18. aldar, þegar asante-herir hófu innrásir í strandríkin, leitaði fólkið þar til evrópsku kaupmannanna um forystu og vernd í virkjunum.  Á árunum 1804-14 hættu dönsku, ensku og hollenzku kaupmennirnir þrælaverzlun og viðskipti þeirra með gull voru þverrandi.  Óvissan í kjölfar innrása asante-manna dró úr þróun nýrra atvinnugreina og við þær aðstæður og gagnkvæma tortryggni voru Evrópumenn ekki tilbúnir að taka á sig pólitíska ábyrgð.  Á árunum 1830-44 fóru brezkir kaupmenn að taka að sér verndarhlutverk í Fanti-ríkjunum undir góðri forystu George Maclean, báðum aðilum til hagsbóta.  Í framhaldi af þessari þróun tóku brezku nýlenduyfirvöldin að sér virki brezku kaupmannanna og árið 1850 keyptu þau eignir Dana á ströndinni.  Viðskiptunum hrakaði undir nýrri stjórn vegna þess að hún skirrtist við að taka formlega við stjórn áhrifasvæða virkjanna.  Á sjöunda áratugi 19. aldar reyndu Fanti-ríkin að koma á fót ríkjabandalagi að evrópskri fyrirmynd.  Frekari árásir asante-manna og brottför Hollendinga (1872) olli straumhvörfum í stefnu Breta, sem sendu herlið (1874) til að berja á asante-mönnum.  Höfuðborg þeirra, Kumasi, var lögð í rústir og Gullströndin varð opinberlega að brezkri nýlendu.

Nýlendutíminn.  Frakkar og Þjóðverjar voru athafnasamir á nærliggjandi svæðum og brezk fyrirtæki, sem stunduðu námuvinnslu og verzlun kröfðust meiri verndar, þannig að áhrif þeirra jukust mjög á árunum 1895-1901.  Á þeim tíma tókst að sigra asante-menn og norðurhluti yfirráðasvæðis þeirra var gerður að brezku verndarsvæði.  Næstu 56 yfirráðaár Breta tókst þeim að mestu að sameina þrjú ólík landsvæði í eitt ríki (Gullströndina, Asante og verndarsvæðið Norðurhéraðanna) og eftir fyrri heimsstyrjöldina bættist hið fjórða við undir stjórn Þjóðabandalagsins, vesturhluta fyrrum Þýzka-Togolands.  Þessi þróun kom ekki til vegna markvissrar stefnu.  Fólkið á Gullströndinni hafði aðlagast evrópskum háttum, þannig að það var tilbúið til að fallast á evrópska stjórnarhætti eins og þing (1850) og hæstarétt (1853).  Asante og Norðurhéruðin voru ekki komin eins langt í þróuninni, þannig að þar sat landstjóri í mörg ár í viðbót og embættismenn hans voru hvattir til að starfa náið með yfirvöldum hvers svæðis.  Svipuðum aðferðum óbeinnar stjórnar var beitt á Gullströndinni með þeim árangri að þar þóaðist þjóðernisleg andstaða meðal menntamanna og fagstétta, þó einkum í hinum vaxandi borgum, og skrefin í átt að fullveldi voru stigin hægt og sígandi.

Samruni landsins fólst aðallega í hraðri efnahagsþróun, sem byggðist á síaukinni kakórækt í skógum landsins.  Í kringum 1920 náðu Gullstrendingar að rækta helming heimsframleiðslunnar af kakói og halda áfram að flytja út talsvert af gulli.  Timbur og magnesíum bættust síðan við útflutninginn.  Arðurinn af þessum útflutningi var nýttur til samgöngubóta, hafna, járnbrauta og vega og félagsmála, einkum á sviði menntunar (háskóli).  Efnahagsleg tengsl íbúanna komu smám saman í stað hinna fornu ættartengsla.

Sjálfstæði.  Stjórnmálaþróunin var alltaf skrefi á eftir þróuninni í efnahags- og félagsmálum, einkum í suðurhlutanum.  Norðurhéruðin voru aðallega uppspretta ódýrs vinnuafls á Gullströndinni og í Asante.  Síðari heimsstyrjöldin og eftirköst hennar gerðu bilið skarpara og árið 1948 urðu uppþot í hinum stærri borgum landsins.  Watson-rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu, að Burns-stjórnarskránin frá 1946, sem veitti Afríkumönnum meirihluta á þingi, hefði verið úrelt frá upphafi.  Nefnd, sem var eingöngu skipuð Afríkumönnum, undir stjórn Coussey dómara (síðar Sir Henley), var falið að semja nýja stjórnarskrá með ákvæðum um valdaframsal til afrískra ráðherra, sem bæru ábyrgð gagnvart þinginu.  Samtímis stofnaði róttækur stjórnmálamaður, Kwame Nkrumah, Þjóðarflokkinn (CPP), sem naut mikils fylgis og barðist fyrir sjálfstjórn með verkföllum og öðrum aðgerðum.  Árið 1951 vann hann næstum öll þingsæti í kosningum og Sir Charles Arden-Clarke, landstjóri, fól Kwame Nkrumah myndun stjórnar.  Landstjórinn og Nkrumah lynti vel og fljótlega fékk landstjórinn forsætisráðherranum og þinginu öll völd í hendur.

Árið 1956 stóðu Sameinuðu þjóðirnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu í Brezka-Togolandi og niðurstaðan varð sameining við Gullströndina.  Nkrumah og flokkur hans fengu rúmlega 70% sæta á þingi í kosningunum 1954 og 1956.  Næsta ár tókst honum að afla landinu viðurkenningar sem sjálfstæða og fullvalda ríkis Ghana í Brezka heimsveldinu og aðila að Sameinuðu þjóðunum.

Nkrumah leit á Ghana sem fyrirmynd að frelsun annarra Afríkuríkja undan nýlendustjórnum og sósíalískt sameingartákn allrar álfunnar undir hans stjórn.  Eftir stofnun lýðveldisins 1960 var aðeins einn stjórnmálaflokkur starfandi og Nkrumah var skipaður leiðtogi hans og forseti landsins til lífstíðar.  Því stærra, sem bandalag frjálsra og fullvalda Afríkuríkja varð, þeim mun meiri andstöðu mættu heimsveldisdraumar Nkrumah.  Árið 1966 hrundu draumar hans um sósíalíska Afríku vegna óstjórnar heimafyrir, gífurlegra erlendra skulda og hrakandi lífsgæðum í Ghana.  Í febrúar hrifsuðu lögreglan og herinn völdin, þegar hann var í heimsókn í Peking.  Þjóðrráð undir stjórn Joseph A. Ankrah, hershöfðingja, tók við af ríkisstjórninni.  Gagnger breyting var gerð á stjórn landsins og íhaldssamar ráðstafanir í fjármálum ríkisins voru kynntar.  Hershöfðinginn stóð ekki við gefin loforð um endurreisn þingbundins lýðræðis og varð að víkja fyrir ungum stórfylkisforingja, Akwasi Amankwaa Afrifa, sem var framarlega í flokki byltingarmanna.  Bráðabirgðaþing kynnti nýja stjórnarskrá fyrir annað lýðveldið og almennar kosningar voru haldnar í ágúst 1969.  Þá vann Framsóknarflokkurinn með Kofi Busia, háskólaprófessor og andstæðing Nkrumah, í fararbroddi afgerandi sigur.  Busia varð forsætisráðherra og ári síðar var fyrrum forseti hæstaréttar, Edward Akufo-Addo, kosinn forseti.

Nýja, borgaralega stjórnin þurfti að vinna á gífurlegri erlendri skuldabyrði og heimsmarkaðsverð kakóbauna hríðféll, þannig að ókleift var að standa við gefin loforð á skömmum tíma.  Í janúar 1972 skárust óþolinmóðir herforingjar aftur í leikinn og endurreisnarráð þjóðarinnar (NRC) undir stjórn Ignatius Kutu Acheampong, ofursta, tók völdin.  Þingið var leyst upp, fjöldafundir og stjórnmálaflokkar voru bannaðir og stjórnmálaleitogar voru hnepptir í fangelsi.  Í júlí 1972 voru gefin út afturvirk lög, sem gáfu herstjórninni leyfi til að beita dauðarefsingu fyrir margs konar brot, s.s. stjórnmálastarf, rán, þjófnað og skemmdarverka á eigum ríkisins og næsta ár bættust við áróður og gróðabrall.  Herstjórninni tókst ekki að halda uppi reglu og enn síður að koma á stöðugleika í efnahagslífinu.  Árið 1975 voru nokkrir borgarar skipaðir í endurreisnarráðið en æðstu völd voru í höndum yfirherráðsins.

Árið 1978 stakk Acheampong (þá orðinn hershöfðingi) upp á bandalagsstjórn án stjórnmálaflokka og herinn tæki þátt í henni með borgurum landsins.  Þjóðaratkvæðagreiðsla til að staðfesta þessa ráðstöfun gerði ekki annað en að sýna óvinsældir endurreisnarráðsins.  Frederick W. K. Akuffo, hershöfðingi tók við formannsstöðunni í herráðinu.  Hann stóð mun lakar að vígi en forveri hans og vissi ekki, hvernig skyldi bregðast við öllum vandanum.  Árið 1979 var veltu lægra settir foringjar í hernum herforingjastjórninni úr sessi.  Þeir voru undir stjórn liðsforingja í flughernum, Jerry Rawlings.  Acheampong og Akuffo voru líflátnir og undirbúningur undir lýðræðislega og þingbundna stjórn var þegar hafinn.  Hilla Limann, forseti, og ríkisstjórnin háðu vonlausa baráttu fyrir róttækum umbótum í stjórn- og efnahagsmálum.  Í árslok 1981 ákvað Rawlings, að hann og fylgismenn hans yrðu að taka við öllum stjórnartaumum.  Hann stofnaði bráðabirgðaherráð og stefndi að því, að allir íbúar landsins tækju þátt í enduruppbyggingunni.

Í upphafi ferils stjórnar hans efuðust eldri Ghanabúar um, að hann og fylginautar hans hugsuðu minna um eigin hag en gömlu herforingjarnir höfðu gert og ungir liðsforingjar reyndu tvisvar að gera árangurslausar byltingar 1982 og 1983.  Almenningur trúði á tilraunir Rawlings til að standa að nauðsynlegum endurbótum, jafnvel eftir að hann ákvað mjög íhaldssamar efnahagsaðgerðir til að tryggja stuðning Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og annarra erlendra aðila.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM