Ghana náttúran,
Flag of Ghana


GHANA
NÁTTÚRAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Flóran.  Jarðvegurinn og búseta eru veigamiklir þættir í fjölbreytni flórunnar en samt ræður úrkoman mestu um hana.  Flórunni má skipta í þrjá aðalþætti frá suðri til norðurs miðað við strandsteppuna, skógana og norðursteppuna.

Strandsteppan í suðausturhlutanum í kringum Accra er vaxin blöndu af runnagróðri og háu grasi (aðallega gíneugrasi).  Þarna eru risavaxnar mauraþúfur (3-4 m), sem valda þéttum þyrpingum gróðurs (Elaeophorbia, Adansonia digitata o.fl.).


Í skógabeltinu í suðurþriðjungi landsins og á svæðinu meðfram Akwapim-Togo-fjallgörðunum, þar sem meðalársúrkoman er rúmlega 1125 mm og enginn sérstakur þurrkatími, vex aðallega sígrænn skógur og hitabeltislaufskógur.  Þar eru há tré, sem mynda lokaða skógaþekju, og upp úr henni gnæfa risar skóganna eins og silkibaðmullartréð, wawa-tréð (harðviður) og afríska mahónítréð.  Sígræni skógurinn er allrasuðvestast, þar sem meðalársúrkoman er meirin en 1625 mm, og laufskógur lengra til norðurs.

Þéttvaxið skógabeltið náði yfir u.þ.b. 78 þúsund ferkílómetra en landbúnaður og skógarhögg hafa minnkað það um 58.000 km2.  Gripið var til þess ráðs, að hefja plöntun trjáa á eyddum svæðum og haga nýtingu í samræmi við endurnýjun skóganna.

Norðursteppurnar ná yfir tvo þriðjunga landsins, þar sem meðalársúrkoman (750-1125mm) fellur á ákveðnum árstíma og mikill þurrkatími fylgir.  Þar vex aðallega gíneugras með strjálum, lágvöxnum trjám (m.a. akasíur og baobab).  Meðfram norðurmörkum steppunnar er opnara graslendi, sem hefur að mestu þróazt vegna langrar nýtingar manna.

Fánan.  Dýralífið í Ghana er tiltölulega fjölbreytt, þótt veiðar og aukin byggð hafi haft mikil áhrif.  Meðal stórra spendýra má nefna ljón, hlébarða, hýenur, antilópur, fíla, buffala, villisvín, simpansa og fleiri apategundir.  Slöngutegundir eru margar (pýton, kóbra, adder og græn mamba).  Í ám og vötnum eru krókódílar, otrar og manatíhvalir, sem eru í útrýmingarhættu.  Flóðhestar eru í Voltaánni.  Tegundafjöldi eðlna, skjaldbakna og risasnigla er mikill.  Meðal algengra fuglategunda eru páfagaukar, hornnefir, kóngaveiðarar, ernir, hegrar, gleður, gaukar, nátthrafnar, sólfuglar, egret, gammar, snáka- og súrufuglar.

Fjöldi fiska- og annarra dýrategunda er í hafinu, ám og vötnum.  Stórar sardínugöngur eru árstíðabundnar á grunnsævi og makríll, flatfiskur, skata, mulli (Mugil cephalus), bónítómakríll, flugfiskur, lungnafiskur, fílafiskur, sjóbrími (Pagellus centrodontus) og hákarlar eru algengar tegundir.  Ætar skjaldbökur, barrakúda og gaddaskata eru fremur algengir fiskar.  Skelfiskur, krabbar, humar og rækjur finnast í minna magni.

Skordýrafánan er fjölbreytt, s.s. bjöllur, eldflugur, maurar, termítar, fiðrildi, kribbur og títlur.  Hættulegustu skordýrin eru moskító, tsetse og mý, sem bera malaríu, gulu, svefnsýki og augnsýki (onchocerciasis).

Mole-þjóðgarðurinn í vesturhluta Norðurhéraðs í grennd við Damongo er 4950 km2.  Önnur verndarsvæði hafa verið stofnuð sunnar og á nokkrum eyjum Voltavatns.

Jarðvegur.  Um landið allt hefur veðrun, greypni og myndun harðra, vatnsþéttra leirpanna (leirblandað járn- og áloxíð, með salti, sem vatn hefur flutt til yfirborðsins) fyrir áhrif uppgufunar.  Greypnin eða vatnsþétting er mest í suðurhlutanum en leirmyndunin er algeng í hinum þurrari norðurhluta.  Víðast hefur jarðvegur myndast úr grunnberginu fyrir langvinna veðrun og því er frjósemin takmörkuð.

Á skógasvæðunum er víðast leirjarðvegur, sem er annaðhvort tiltölulega frjósamur og súr (rauður, brúnn og gulbrúnn og nokkuð gropinn), þar sem úrkoma er hófleg eða súrari og ófrjósamari allrasuðvestast, þar sem meðalársúrkoman er rúmlega 1625 mm.  Okkurrauður jarðvegur er á nokkuð stórum svæðum við ströndina og á norðursteppunum.  Líkt og á skógasvæðunum er hann bezt fallinn til ræktunar.

Á strandsteppunni eru fjölmargar tegundir, s.s. svartur hitabeltis-, grár- og ísúr jarðvegur, og einungis hin fyrstnefnda er mikilvæg vegna ræktunar.  Hún nær yfir breitt belti á steppunni og nýtist vel með áveitum til vélvæddrar ræktunar, þótt hún sé þétt í sér og þung.  Vegna mikils skorts á næringarefnum eru flestar jarðvegstegundirnar mjög háðar raka gróðurþekjunnar.  Þarna ríkir því viðkvæmt jafnvægi milli gróðurs og frjósemi, sem er auðraskað með óvarfærinni nýtingu.

Loftslag.  Eins og víðast á svipuðum slóðum og Ghana ræðst lofstlagið aðallega af tveimur loftmössum, heitu og þurru meginlandslofti, sem myndast yfir Sahara og hlýju og röku úthafslofti, sem myndast yfir Suður-Atlantshafi.  Báðir færast þeir í átt að miðbaug með staðvindum og blandast við strendur Gíneu í nokkra mánuði á ári.  Meginlandsloftið hreyfist til suðurs með norðaustan-staðvindunum (harmattan) og úthafsloftið hreyfist til norðurs með suðvestur-staðvindunum.  Blöndunarsvæðið einkennist af árstíðabundnu úrhelli.  Það færist til norðurs og suðurs eftir stöðu sólar.  Nyrzta staða þess nær til 21°N í miðri Sahara í ágúst og hin syðsta til 7°N, í grennd við strönd Ghana í janúar.  Úrkoman ræðst af ríkjandi stöðu úthafsloftsins og þurrkar af meginlandsloftinu (harmattan).

Á steppunum norðan Kwahu-sléttunnar eru tvær árstíðir, þurra frá nóvember til marz með heitum dögum og svölum nóttum í heiðríkju og úrkomumesta í ágúst og september.  Meðalársúrkoman er 1145-1270 mm en vatnsskortur verður áberandi í kjölfarið vegna mikilla þurrka.  Á skógarsvæðunum í suðri, þar sem meðalársúrkoman frá norðri til suðurs er á milli 1270 og 2220 mm, eru tvö regntímabil, annað frá apríl til júlí og hitt (minna) frá september til nóvember.  Á harmattan-tímanum eru tvö aðalþurrkatímabil, frá desember til febrúar og í ágúst, sem er svalur og þokusamur við ströndina.  Á Accra-sléttunum er meðalúrkoman óregluleg (780-1020 mm), þannig að gróðurfarið líkist því, sem gerist á steppunum norðanlands.

Hitafar hinna mismunandi landshluta er í meira jafnvægi.  Með ströndinni er meðalhitinn 26°C-29°C og hitamunur dags og nætur 6°C-8°C (í norðurhlutanum 7°C-17°C).  Meðalloftraki er frá 100% í suðurhlutanum til 65% í norðurhlutanum, þótt harmattan færi hann niður í 12% í kringum Accra.  Hár, staðbundinn lofthiti og -raki hefðu lamandi áhrif, ef ekki nyti við hæðar yfir sjó og hafgolu með ströndinni.  Víðast um land eru febrúar og marz heitustu mánuðir ársins, rétt áður en regntíminn hefst.  Hiti er lægstur í janúar og í ágúst meðfram ströndinni.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM