Mörkin milli hinna þriggja landfræðisvæða
Ghana, strandlengjunnar, skógasvæða og steppnanna í norðri, eru víðast
óljós.
Strandlengjan hefur verið byggð
fiskimönnum og smábændum frá örófi alda.
Þar voru fyrrum lítil konungsdæmi, sem komust fyrst í kynni
við Evrópumenn á 15. öld eða jafnvel fyrr.
Helztu þjóðflokkar þessa svæðis, taldir frá austri til
vesturs, eru ewe, adangme (adangbe), ga, efutu, fanti, ahanta og nzima. Verzlun og viðskipti ollu myndun þéttbýlisstaða eins og
Accra, Cape Coast og Sekondi-Takoradi og á þessu svæði eru fleiri
borgir og bæir en annars staðar í landinu.
Skógasvæðin taka við af strandlengjunni og ná
yfir u.þ.b. þriðjung landsins. Þau
eru góð til landbúnaðar og skiptast enn þá á hefðbundinn hátt.
Þar er einkum ræktað kakó.
Vestan Voltaárinnar búa aðallega ættkvíslir akanfólksins og
austan hennar ewefólkið. Auk
þess má nefna akwapim- og kwahufólkið í austri, akim í suðri,
Ashanti og brong um miðbikið og í norðri og wasaw og sefwi í vestri.
Flest þetta fólk á sér Langa búsetusögu en ashantimenn eru
einna voldugastir, því þeir stofnuðu til stórs ríkis í kringum
Kumasi, núverandi höfuðborg héraðsins, og veldi þeirra náði alla
leið til strandar og steppusvæðanna í norðri.
Mestur hluti timburs,
kakós og verðmætra jarðefna auk nokkurra tegunda nytjaplantna til útflutnings
eru ræktuð á þessu svæði og mestur hluti matvæla til neyzlu
innanlands á uppruna sinn þar. Skógarsvæðin
eru tiltölulega þéttbýl, einkum þar sem kakóbaunir eru ræktaðar.
Þéttbýliskjarnar eru fáir utan Kumasi, Ho, Koforidua og
Sunyani.
Norðursteppusvæðin, sem eru efnahagslega vanþróuðust, ná yfir
nálega tvo þriðjunga landsins. Stærstu
þjóðflokkarnir þar eru dagomba og guang (gonja), sem eru skyldir
mossifólkinu í Burkina Faso. Lífsskilyrði
þarna eru öðruvísi og sumpart erfiðari vegna skorts á úrkomu.
Suðurhlutinn, sem er næstur skógabeltinu, er hluti
miðbeltisins eða svokallaðs sjúkdómabeltis Vestur-Afríku, þar sem
verstu eiginleikar steppu- og skógasvæðanna sameinast og gera búsetu
mjög óaðlaðandi. Þarna
fór fram mikil þrælaverzlun áður fyrr.
Fjarlægð steppusvæðanna frá sjó og einangrun hafa dregið
úr þróun þeirra.
Meðal kosta nyrztu héraðanna, einkum hinna allranyrztu, sem eru laus
við tsetsefluguna, sem er banvæn fyrir nautgripi, eru geysivíðlend
beitilönd á steppunum fyrir kvikfé.
Þar er jarðvegur og úrkomuskilyrði einnig hagkvæm fyrir
ræktun korns og kartaflna (yams).
Bændur í þessum landshluta stunda einkum
sjálfsþurftarbúskap en áveitur og aukin vélvæðing opna nýja
möguleika. Voltavatnið,
sem teygist langt inn á þetta svæði, er tiltölulega auðveld og
ódýr samgönguleið og nýtist til vatnsveitna, áveitna og annarra
þarfa.
Síðla á níunda áratugi 20. aldar var áætlað, að u.þ.b.
þriðjungur landsmanna byggi í þéttbýli, en þá voru stöðugir
flutningar fólks úr sveitunum. Þrátt fyrir stöðuga útþenslu borga og bæja, eru
flestar borgir landsins smáar á heimsvísu.
Accra-Tema borgarkjarninn með á aðra miljón íbúa er
stærsta borg landsins og síðan koma Kumasi og Tamale.
Landbúnaðurinn er víðast talsverður og sveitaþorpin eru umkringd
nytjalandi. Hvatt er til
stöðugrar ræktunar en hún er mest og bezt stunduð í nyrzta hluta
landsins, þar sem bændur búa dreift fremur en í þorpum.
Annars staðar byggist landnýtingin á tveggja til þriggja ára
ræktun í senn og síðan eru akrarnir hvíldir í fjögur til sjö ár.
Þar sem kakóbaunir og aðrir trjáávextir eru ræktaðir er
ræktunin hvíldarlaus.
Mannfræðilega eru Ghanabúar fjölbreyttir og þeir skiptast í fjölda
ættkvísla. Samkvæmt
tungumálaflokkun má skipta þeim í 75 ættkvíslir, sem eru margar
hverjir fámennar og aðeins 10 þeirra eru allfjölmennar.
Hinar stærstu eru akan, mole-dagbani, ewe, ga-adangme (ga-adangbe)
og gurma. Þrátt fyrir þennan
fjölbreytileika, gætti ekki verulegs ósamkomulags, þegar landið fékk
sjálfstæði. Víða gætir
þjóðernishyggju meðal ættkvíslanna og stundum hefur soðið upp úr,
einkum í norðurhlutanum, þar sem blóðug átök hafa brotizt út og
mannfall orðið mikið. Mikil áherzla er lögð á að jafna ágreining milli ættkvíslanna
og liður í þessari stefnu stjórnvalda var að gera ensku að
opinberu tungumáli landsins. Næstum allar núverandi ættkvíslir
landsins eiga uppruna sinn í fólksflutningum úr norðri fyrir
700-1000 árum nema ewe- og ga-adangmefólkið í suðausturhlutanum,
sem kom úr austri og suðaustri.
Trúarbrögð.
Næstum tveir þriðjungar landsmanna eru kristnir, u.þ.b. sjöttungur
múslimar og þriðjungur fylgir hinum gömlu trúarbrögðum ættkvíslanna.
Þótt mörg trúarbrögð innfæddra eigi sér djúpar rætur,
eiga þau sér ekki sameiginlega siði.
Þau eru flest byggð á trú á æðri máttarvöld og fjölda
smærri guða, sem eru tengdir ýmis konar náttúrufyrirbærum.
Mikil áherzla er lögð á tengsl við gengna ættingja og forfeður,
sem eru ævinlega nærri, geta haft áhrif á atburðarrásina meðal
hinna lifandi og eru miðlar milli þeirra og guðanna.
Kristnin
hefur stöðugt eflzt á kostnað trúarbragða innfæddra.
Áhrif kristninnar eru mest áberandi í suðurhluta landsins en
islam í nyrztu landshlutunum og í stærstu borgunum, þar sem talsverður
fjöldi innflytjenda frá múslimaríkjum Vestur-Afríku hefur komið sér
fyrir.
Á síðari helmingi 20. aldar óx andatrúarkirkjum fiskur um
hrygg.
Engu að síður eru fylgjendur katólsku-, meþódista-,
presbytera- og annarra kristinna trúfélaga fjölmennastir.
Síðan 1970 hefur fólksfjölgunin
verið 3% að meðaltali á ári og konur eru lítið eitt fleiri ein
karlar. Rúmlega 60% Ghanabúa
eru undir 25 ára aldri, þannig að fólksfjölgunin heldur áfram um
nokkurn tíma. Lífslíkur
árið 1960 voru 46 ár og 55 ár síðla á níunda áratugnum.
Sveiflur í fólksfjölda vegna brottflutnings urðu áberandi í
alvarlegri efnahagskreppu seint á áttunda áratugnum.
Brottvísun u.þ.b. 1 miljónar Ghanamanna frá Nígeríu (flestir
ómenntaðir) árið 1983 bætti ekki úr ástandinu í landinu en olli
ekki miklum félagslegum truflunum vegna þess, hve vel Ghanamenn höfðu
staðið að uppbyggingu félagslega kerfisins. |