Accra Ghana,
Flag of Ghana


ACCRA
GHANA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Accra, höfuðstaður Ghana og stærsta borg landsins, er við Gíneuflóa (Atlantshaf).  Hluti borgarinnar er á 8-12 m háu klettabelti og breiðir úr sér til norðurs yfir hæðóttar Accra-slétturnar.  Þarna valda jarðskorpuhreyfingar stundum jarðskjálftum.

Þegar Portúgalar komu sér fyrst fyrir á ströndinni árið 1482, voru nokkur þorp Gafólksins á núverandi borgarstæði.  Höfuðstaður þessa þjóðflokks var Avaso (Avawaso), u.þ.b. 24 km norðar.  Á árunum 1650-80 reistu Evrópumenn þrjú virkisverzlunarstaði, Fort James (enskt), Fort Crevecoeur (hollenzkt) og Christianborgkastala (danskt), meðfram ströndinni.  Á byggingartíma þessara virkja var Avasobærinn lagður í eyði í þjóðflokkastríði og eftirlifandi íbúar hans og annarra Gaþorpa fluttust til strandar í von um hagkvæm viðskipti við Evrópumenn.  Af þessum sökum mynduðust bæirnir Osu (Christiansborg), Hollenzka-Accra (Ussherborg) og James Town, sem voru upphaf nútímaborgarinnar Accra.  Nafnið Accra er afbökun orðsins nkran úr máli Akanfólksins, sem dregið er af svartmaurum, sem er urmull af á þessu svæði.

Accra varð að blómlegri verzlunarmiðstöð.  Danir og Hollendingar fluttust brott eftir 1850 og 1872 og árið 1877 varð Accra höfuðborg Gullstrandarnýlendu Breta.  Árið 1898 var stofnað borgarráð til að vinna að umbótum í borginni.  Á fjórða áratugi 20. aldar var unnið að kerfisbundnu skipulagi hennar.  Accra er miðstöð stjórnsýslu, efnahagsmála og menntunarmála landsins.  Þar er aðalaðsetur allra stórra fjármálastofnana og fyrirtækja, tryggingarfyrirtækja, orkuveitunnar, póstsins og borgarbókasafnsins.  Þarna eru stórir útimarkaðir, sem selja mestan hluta matvælanna, sem borgarbúar neyta.

Auk virkjanna má nefna nokkrar aðrar mikilvægar byggingar eins og Korle Bu-sjúkrahúsið, sem hýsir einnig læknaskólann, Heilagsandakirkjuna (rómversk-katólsk), Kirkju heilagrar þrenningar (biskupakirkjan) og kirkjur meþódista, Þjóðskjalasafnið og Þjóðminjasafnið.  Vísindaráðið og Rannsóknarstofnun iðnaðarins og Vísinda- og listaakademían eru einnig í borginni.  Ghanaháskóli (1948) er í Legon, norðan Accra.  Borgin státar líka af knattspyrnuvelli og skeiðvelli.  Torg svörtu stjörnunnar með sjálfstæðisboganum er notað til ýmiss konar hátíðahalda.

Gatnakerfi borgarinnar er með bundnu slitlagi og góðum almenningssamgöngum.  Borgin er miðstöð samgangna og tengd Kumasi inni í landi og hafnarborginni Tema með járnbrautum.  Tema er 27 km austar og hefur tekið við hafnarborgarhlutverki Accra.  Utan borgar er millilandaflugvöllurinn Kotoka.  Helztu framleiðsluvörur borgarbúa eru matvæli, timbur og vefnaðarvörur.  Áætlaður íbúafjöldi 1988 var rúmlega 949 þúsund (rúmlega 985 þúsund með útborgum).

 TIL BAKA      Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir             HEIM