Fílabeinsströndin íbúarnir,
Flag of Cote d'Ivoire


FÍLABEINSSTRÖNDIN
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Í suðausturfjórðungi landsins búa flestir í þorpum og bæjum.  Húsin eru ferhyrnd úr sefi, staurum og þurrkuðum leir með stráþökum eða bárujárnsþökum.  Útimarkaðir eru haldnir fjórða hvern dag og þá verður líflegt í bæjunum.  Konur annast sölu alls konar afurða, s.s. kartaflna (yams), maís, kassava (maníok), jarðhnetur, olíupálmahnetur og grænmeti.  Fiskimennirnir á lóninu selja vöru sína annars staðar og eru með eigin markaði.  Landinu er skipt í smáríki með konungum, ráðherrum þeirra og hallarstarfsfólki með hástemmda titla.

Krufólkið og aðrir þjóðflokkar, sem búa á suðvestur skógarsvæðinu, byggja bæði hringlaga og ferhyrnd hús fremur eftir búsetu en þjóðflokkum.  Alls staðar standa bústaðirnir umhverfis opið miðsvæði, þótt markaðir séu einungis haldnir í nokkrum útvöldum bæjum.  Annars staðar er miðtorgið mótstaður þorpsbúa á kvöldin og öldunga þorpsins til að ráða ráðum sínum.  Konur eiga heiðurinn af flestum störfum, bæði heima og á ökrunum, þar sem þær rækta hrísgrjón, kassava, banana, kartöflur (yams) og maís.  Hrísgrjón eru tiltölulega ný viðbót, sem margir hafa ekki vanizt enn þá.  Karlarnir einbeita sér að veiðum, söfnun kolahnetna og strandveiði.

Malinkefólkið í norðvesturhlutanum er kvísl af Mandeþjóðflokknum.  Það erfði menningu, sem reis hæst á 13.-16. öld í Malikeisaradæminu.  Löngu áður stóð Mandiþjóðflokkurinn að byltingu í landbúnaði með uppgötvun gildis hirsis, sem er undirstöðufæða hans, og síðar fóðurgrass (sorghum) og maís.  Það hafði ræktað baðmull öldum saman.  Allar fjölskyldur eiga nautgripi, að mestu til að sýna stöðu sína í samfélaginu og til nota við hátíðleg tækifæri fremur en af efnahagslegum ástæðum, því að lítillar mjólkur er neitt.  Karlarnir annast eldi búfénaðarins og ferðast langa vegu í viðskiptatilgangi.  Góðar varnir eru eitt einkenna Malinkefólksins eins og skíðisgarðar umhverfis þorp þeirra sína.  Fólkið býr og unir við tvíhliða stjórnskipan, annars vegar ættarhöfðingja og erfðahöfðingja, afkomanda frumbyggjanna hins vegar, og hirð hans.  Sumir eru fæddir til ákveðinna starfa, s.s. tónlistarmenn og ljóðasöngvarar.   

Aðrir hlutar steppnanna eru hluti byggðasvæðis voltafólksins, sem býr líka í Burkina Faso.  Meðal þess er Senufofólkið, sem býr skammt austan Mande og hefur tileinkað sér marga siði þess.  Líf þess í tiltölulega stórum byggðum og arfleifð hefur vafalaust skapað marga hágæða listamenn, sem stunda tréskurð og listvefnað.  Allar aðrar byggðir Voltafólksins eru dreifðar.  Í norðausturhorninu eru sum hús sérstakrar gerðar, sem er hægt er að finna alla leið til Norður-Benin.  Þau eru ferhyrnd leir- eða múrsteinshús, sem líkjast ævintýraköstulum.  Allar fjölskyldur rækta nautgripi.  Fulanifólkið gætir nautgripa þeirra fjölskyldna, sem neyta mjólkur.  Voltafólkið er viðskiptalega sinnað.  Kvenfólk Dyulaættkvíslarinnar, sem er af Mandeþjóðflokknum, stundar markaðsviðskipti á heimaslóðum.  Höfðingjanum, sem er af göfugustu ættinni með lengstu forsöguna, er ætlað að stunda íhugun og hugleiðslu til að leysa úr vandamálum og koma í veg fyrir blóðug átök milli manna. 

Abidjan, ein margra viðskiptahafna landsins, sem Evrópumenn byggðu, hefur sín eigin sérkenni.  Meðal þeirra er staðsetningin við lónið fremur en á ströndinni sjálfri.  Vík inn úr lóninu, sem skerst inn í Abidjanhásléttuna, skiptir henni í tvennt.  Fyrsta evrópska byggðin var norðan hennar og Treichville, fyrsta afríska byggðin, sunnan hennar.  Samgöngur milli þessara tveggja borgarhluta eru meðal aðalvandamála borgarbúa.

Skipulögð byggð hófst í Plateau 1898 en Evrópumenn settust ekki að þar fyrr en fimm árum síðar.  Treichville, sem er handan fiskiþorpsins Anoumabo, þróaðist vegna blómstrandi viðskipta í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar.  Borgin var smá í sniðum til ársins 1934, þegar nýlenduherrarnir fluttu sig um set frá Bingerville og gerðu hana að stórnsýslusetri. Trenchville var látin afrískum landnemum eftir og hefur enn þá yfirbragð hinna tiltölulega áhyggjulausu tíma.  Eftir 1950, þegar hinn 2,8 km langi Vridiskurður var opnaður til hafs, upphófst nýtt hagsældarskeið og mikils vaxtar borgarinnar.  Trenchville var tengd Plateau með brú og varð nokkurn veginn fullbyggð með viðbót 150 þúsund íbúa á einum áratug.  Borgin stækkaði til allra átta eftir 1960.  Staðsetning byggðarinnar milli fjölda víkna lónsins gerði nákvæmt skipulag ókleift.

Fyrsti skipulagði hluti borgarinnar var nýlenduherstöð norðan Plateau.  Þar og í Adjamé og Attiécoubé bauðst fjöldi lágleiguíbúða, sem voru ágætar í upphafi en entust illa og ekki byggðar í samræmi við hefðbundið fjölskyldulíf í landinu.  Handan víkurinnar austan Abidjan þróaðist Cocody í einangrun sem lúxuxhverfi, þ.m.t. forsetahöllin, með ferðamannamiðstöð og tveimur hótelum, sem buðu spilavíti og skautasvell.

Á Petit-Bassam-eyju, þar sem Treichville er, eru einnig hverfin Marcory og Koumassi og Port-Bouét myndaðist á ströndinni, 13 km suðaustan Plateau.  Handan víkurinnar í vestri komu fátæklingar sér fyrir í Yopougon-Attié og Abobo og árið 1986 var Stór-Abidjan skipt í 10 hverfi, sem höfðu eigin borgarstjóra og hverfisstjórn hvert um sig.

Þjóðflokkar eru 60 talsins.  eirr hafa verið sjálfstæðar einingar frá alda öðli, þótt og hinir stærri hafa verið leiðandi vegna menningarlegrar samstöðu.  Hver þessara hópa hefur tengsl við einhvern stærri þjóðflokk handan landamæra ríkisins.  Sem dæmi má nefna Baulefólki og aðra þjóðflokka, sem búa austan Bandamaárinnar, sem hefur samband við Akanfólkið í Ghana.  Veiðimennirnir við lónið sunnanvert eiga einnig margt sameiginlegt með þessu Akanfólki.  Skógarfólkið vestan Bandamaár tilheyrir sama flokki og Kru-bátafólkið í Líberíu.  Inni í landi skiptist Krufólkið í smáættkvíslir, sem dreifast á stór svæði í skóginum en tengist í leynifélögum

Hægt er að skipta steppufólkinu í tvær aðalgreinar.  Mandefólkið, sem er fjölmennt í Mali, þar sem það skiptist í Malinkebændur og Dyulakaupmenn.  Voltafólkið skiptist m.a. í Lobi- og Bobohópa, sem búa vítt og breitt í norðausturhlutanum og í nágrannaríkjunum.

Öll tungumál þjóðflokkanna og ættkvíslanna tilheyra einhvers þriggja undirflokka Niger-Kongó-málsins, sem kallast Dyula-Taboussi og er skylt Mande Bambara, sem eru talaðir um allt land í hópi múslimskra kaupmanna, og fran­­cais de Moussa er mjög vinsælt mál í Abidjan en opinbert tunga er franska

Helgisiðir ættkvíslanna eru ríkjandi í sveitunum en islam nær engu að síður til 25% íbúa landsins, aðallega í norðvesturhlutanum og Abidjan.  Viðgangur kristninnar er ekki eins mikill eftir að trúflokkar spámannsins hurfu en þriðjungur þjóðarinnar aðhyllist kristni (rómversk-katólskur eða meþódistar).

Fólksfjölgun er óvíða meiri í löndunum sunnan Sahara og í heiminum en á Fílabeinsströndinni.  Hún byggist á náttúruleg fjölgun og aðfluttu fólki frá fátækum löndum í norðri.  Innflytjendur eru u.þ.b. 25% íbúanna og vegna þess, hve margir þeirra eru karlar, kemur upp sú óvenjulega staða, að þeir eru fleiri en konurnar í landinu.  Næstum helmingur þjóðarinnar býr í þéttbýli og þar með teljast hópar Frakka, Líbana og Sýrlendinga.

 TIL BAKA      Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir             HEIM