Forsögulegir tímar
til Aksum-konungsdæmanna.
Fornminjar frá þessu tímabili eru beinabrot frá Hadar-tímanum í árdal
Awash. Þessi brot eru úr apamanni (Australopithecus afarensis), sem var
uppi fyrir u.þ.b. 4 miljónum ára og kann að hafa verið forfaðir
mannsins.
Einhvern tíma á tímabilinu 8000-6000 f.Kr. þróaðist
hirðingjalíf og ræktun í Norður-Afríku og Suðvestur-Asíu.
Þegar fólkinu fjölgaði, þróaðist forntunga, sem kvíslaðist í
tungumálastofna nútímans (fyrrum mál hamíta og semíta).
Innan þessara stofna eru kusitísk- og semísk mál, sem eru
töluð í Eþíópíu nú á dögum.
Á
annarri teinöld f.Kr. barst notkun plógs og kornrækt frá Súdan og
ge’ez-mælandi fólk varð ríkjandi á Tigray-hálendinu. Á 7. öld
f.Kr. stofnaði það konungsríkið Da’amat. Það réði yfir löndum í
vesturátt og seldi suðurarabískum kaupmönnum fílabein,
skjaldbökuskeljar, horn nashyrninga, gull, silfur og þræla.
Eftir árið 300 f.Kr.
hnignaði konungsríkinu vegna þess, að verzlunarleiðir færðust austar,
þar sem hafnirnar á ströndinni lágu betur við. Valdastríð leiddi til
sameiningar við innlandsríkið Aksum. Miðstöð þess var á
Tigray-hásléttunni, þar sem mikil viðskipti fóru fram með fílabein til
Súdan. Aðrar verzlunarleiðir inn í land til suðurs og til hafnarinnar
Adulis við Zula-flóa. Menning íbúa Aksum byggðist á ge’ez-tungunni, sem
var rituð með lítið breyttu, suðurarabísku starfrófi. Höggmyndir og
byggingarlist byggðust á suðurarabískum fyrirmyndum og aragrúa innlendra
og miðausturlenzkra guða. Þrátt fyrir þessi menningaráhrif, eru ekki
nægilega sterk rök fyrir hinu almenna áliti, að suðurarabískir
innflytjendur hafi stofnað Aksum, þótt margir þeirra heimsæktu ríkið og
settust þar jafnvel að. Þessi fornu menningartengsl urðu engu að síður
uppspretta þjóðsagnanna um Drottingunar af Saba og Námur Salómóns
konungs. Þjóðsagnirnar leiddu þau saman og Menilek I, forfaðir
eþíópísku konungsættarinnar, sagður af þeim kominn.
Á fimmtu öld réði
Aksum verzluninni við Rauðahaf og slógu mynt með myndum af keisurum
landsins. Í ferðabókinni Periplus Maris Erythraei (höfundur ókunnur;
frá 1. öld e.Kr.) er Adulis lýst sem opinni höfn og þar búi meðal
annarra grísk-rómverskir kaupmenn. Hin kristna eingyðistrú barst með
þessu fólki til Eþíópíu í keisaratíð Ezanas (303-350). Um miðja fimmtu
öldina voru munkar skírðir meðal agew-fólksins í austur- og suðurhlutum
landsins.
Þegar veldi Aksum
var sem mest, náðu áhrif þess inn í syðstu hluta Egyptalands, vestur til
konungsríkisins Meroe, suður að Omo-ánni og austur að kryddströndinni
við Adenflóa. Suðurarabíska konungsríkið Himyarites handan Rauðahafs,
þar sem Jemen er nú, var um hríð undir stjórn Aksum. Snemma á sjöttu
öld var Caleb keisari (Ella-Asbeha; 500-534) nógu öflugur til að vernda
þegna sína handan Rauðahafs gegn ofsóknum gyðingaprins nokkurs. Veldi
kristinna manna lauk í Suður-Arabíu eftir 572, þegar Persar gerðu innrás
og trufluðu verzlun og viðskipti. Arabar komu í kjölfar þeirra þremur
áratugum síðar og efldust á 7. og 8. öld, þannig að ekki varð úr frekari
viðskiptum milli Aksum og Miðjararhafslanda.
Zagwe- og
Salómónskonungsættirnar.
Þegar kristnir menn hættu að sigla um Rauðahaf, dofnaði yfir borgum
Aksum. Ríkið vann góð akuryrkjulönd í suðri. Munkaklaustrin voru flutt
enn lengra suður og m.a. var stórt klaustur stofnað við Hayk-stöðuvatnið
á 9. öld. Með tímanum lærðu agew-þegnarnir ge’ez-tunguna, létu skírast
til kristni og tóku upp siði kúgara sinna, þannig að prinsum agew-manna
tókst að flytja höfuðborgina til Lasta, svæðisins, sem þeir byggðu.
Þannig kom zagwe-konungsættin fram á sjónarsviðið í Eþíópíu. Síðar er
þess getið í kirkjuritum, að þessi ætt sé ekki af hreinum
Salómónsstofni, þótt zagwe-menn létu talsvert til sín taka í trúmálum.
Í höfuðborg þeirra, Roha, ríkti Lalibela keisari (1185-1225). Hann lét
höggva 11 kirkjur út úr klettaröðlum, gríðarmikil minnismerki
kristinnar. Hann og aðrir zagwe-menn ráku mikinn áróður fyrir
útbreiðslu menningar Eþíópíu í sveitum landsins.
Yfirstjórn
kirkjunnar hélt áfram að líta zagwe-menn hornauga og aðhylltist fremur
amhara-prinsa í Norður-Shewa, sem kröfðust réttar sins sem afkomendur
aksum-konungsættarinnar. Árið 1270 gerði Yekuno Arnlak konungur
uppreisn og naut stuðnings áhrifamikils hóps æðstu manna kirkjunnar.
Honum tókst að steypa Yitbarek keisara og taka sæti hans sem löglegur
afkomandi Salómóns. Ættfræði nýju Salómónkonungsættarinnar var gefin út
snemma á 14. öld undir nafninu Kebra Negast (Dýrð konunganna), sem var
samsafn þjóðsagna um fæðingu Menilek I. Hún tengdi einnig kristni
gyðinga við Eþíópíu, efldi þjóðernistilfinningu Eþíópíumanna, menningu
Shewan og arnhar-tunguna. Ríkisherinn var öflugur og reiðubúinn í átök
í austurhluta landsins, þar sem islam var að ryðja sér til rums.
Trúboðum hafði
tekizt vel upp við að snúa heiðingjum á jaðarsvæðum Eþíópíu til islam.
Síðla á 13. öld féllu mörg islömsk konungsríki á suðurmörkum Eþíópíu
undir veldi Ifat á Austur-Shewan-hásléttunni og í Awash-dalnum. Snemma
á valdaferli hans (1314-44) fór Arnda Tseyon keisari í herferð til
suðurs, þar sem hann kom upp herstöðvum og skipti svæðum milli
höfðingja, sem greiddu honum skatta. Skattarnir voru innheimtir í
gulli, fílabeini og þrælum, sem voru fluttir frá Ifat til Arabíu og
seldir þar. Skattpíningin var svo mikil, að margir islamskir konungar
gerðu uppreisnir. Arnda Tseyon og eftirmenn hans bældu þær
miskunnarlaust niður og náðu völdum í Awash-dalnum og í Zeila við
Adenflóa.
Landvinningar á
ókristnum svæðum leiddu til umbóta innanlands og sameiningu hins kristna
ríkis. Salómónsku konungarnir voru jafnframt æðstu menn kirkjunnar og
tóku virkan þátt í mótun trúarlegrar menningar og aga. Þeir létu reisa
fagrar kirkjur, hvöttu til ritunar guðfræðilegra rita og bönnuðu heiðna
siði. Þessi miklu tengs ríkis og kirkju ollu óhjákvæmilega árekstrum.
Mörg klaustranna, sem studdu dyggilega við bakið á
Salómónkonungsættinni, hafði verið launað með stórum landareignum.
Þessar eignir gerðu þeim kleift að skerast í leikinn, þegar upp komu
deilur um erfðaréttinn til krúnunnar eða jafnvel að berjast gegn
sitjandi konungi. Munkurinn Abba Ewostatewos (1273-1352) snérist gegn
veraldlegum gæðum og predikaði einangrun frá spillandi áhrifum ríkisins
og afturhvarfs til kenninga Biblíunnar, m.a. um að halda hvíldardaginn
hátíðlegan ekki síður en sunnudaginn, sem almenningur í sveitunum notaði
til kirkjusóknar. Hinn mikli keisari, Zara Yakob (1434-68), féllst á
hvíldardagshugnymdina árið 1450 á kirkjuráðsfundinum í Mitmak og hann
stóð að mikilli siðbót innan kirkjunnar, sem fór að refsa harðlega fyrir
litlar misgerðir og taka leiðtoga villutrúarhópa. Zara Yakob gerði
einnig út herleiðangur til að ganga milli bols og höfuðs á Beta-Ísrael
eða Falasha-hóp agew-manna, sem byggði trú sína ekki á Talmut, lögbók
gyðinga.
Zara Yakob lagði
mesta áherzlu á samhyggð þjóðarinnar og óttaðist islömsk áhrif. Árið
1445 vann hann svo afdrifaríkan sigur gegn Ifat, að völdin yfir
múslimaríkjunum voru fengin Adal í grennd vi Harer. Þar tók Ahmad ibn
Ibrahim al-Ghazi, islamskur siðbótarmaður, við völdum í kringum 1520 og
varð kunnastur undir nafninu Sahib al-Fath (Sigurvegarinn) meðal múslima
en Ahmad Grañ (Ahmad örvhenti) meðal kristinna. Ahmad þjálfaði menn
sína á sama hátt og Ottómanar gerðu og leiddi þá í heilagt stríð (jihad)
gegn Eþíópíumönnum og fór að ná löndum af þeim. Árið 1528 beið Lebna
Denegel keisari ósigur í orrustunni við Shimbra Kure og múslimar héldu
norðvestur til miðhálendisins. Þeir eyddu þorpum, kirkjum og klaustrum
á leiðinni. Árið 1541 sendu Portúgalar, sem áttu hagsmuni að verja við
Rauðahafa, 400 skyttur til að þjálfa eþíópska herinn á evrópskan hátt.
Galawdewos keisari (1540-59) beitti skærluliðaaðferðum og kom þannig
Ahman að óvörum 21. febrúar 1543 á opnu svæði við Tanavatn, þar sem hann
féll. Her hans hörfaði úr landi.
Öld prinsanna.
Hirðingjum af oromo-kynþætti fjölgaði verulega í efri ár dal Genale
(Jubba) árinnar, þar sem nú er Suður-Eþíópía og Norður-Kenja. Hefðir
oromo-fólksins stóðu á gömlum grunni (gada). Meðal þeirra var að
aðskilja drengi og láta þá lifa saman. Stríðsmennirnir (luba) rændu og
rupluðu til að sanna manndóm sinn og á 16. öld fóru þeir í æ lengri
ránsferðir inn á Eþíópsku hásléttuna, sem varð stöðugt strjálbýlli um
þær mundir. Einu hindranirnar í vegi þessara voru annaðhvort
landfræðilegar eða öflugri andstæðingar. Um aldamótin 1600 höfðu
oromo-menn dreifzt svo inn í Eþíópíu, að Sarsa Dengel keisari (1563-97)
minnkaði yfirráðasvæði sitt við núverandi Eritreu, norðurhluta Tigray og
Gonder og hluta af Gojam, Shewa og Welo. Það var auðvelt að verja þessi
svæði og þjóðfélagslega voru þau lík, þar sem þau voru byggð kristnu
fólki, sem talaði semísk mál og stundaði landbúnað. Kirkjan hélt áfram
baráttunni gegn oromo-mönnum og hvatti sitt fólk til að ná undir sig
gömlum lendum Eþíópíu. Þá birtist annar vandi, rómverska katólskan, sem
varð að takast á við.
Skömmu eftir að
portúgölsku skytturnar 400 komu til landsins til að þjálfa eþíópska
herinn, fylgdu jesúítatrúboðar Ignasíusar frá Loyola og reyndu að snúa
landsmönnum til Vesturkirkjunnar. Pedro Páez náði mestum árangri á
þessu sviði. Honum tókst að telja Susenyos keisara (1607-32) á að
skírast og taka upp trú á heilaga þrenningu í stað eins guðs. Þessi
viðburður hafði þau áhrif, að margir höfðingjar og aðalsmenn létu snúa
sér til katólskunnar en almenningur og munkar sýndu þessari
hugarfarsbreytingu mikla andúð. Susenyos neyddist til að segja af sér
og láta syni sínum, Fasilides (1632-67), eftir völdin.
Fasilides stofnaði
nýja höfuðborg í Gonder, sem var verzlunarstaður norðan Tanavatns, sem
tengdi innlandið við ströndina. Þegar hún stóð í mestum blóma í kringum
1700, var hún miðstöð lista og mennta, trú- og félagsmála,
beta-ísraelskra handiðna, islamskra kaupmanna og fjölda fjölskyldna
oromo-manna, sem voru bændur, verkamenn og hermenn. Keisarinn snéri sér
til nýskapaðrar aðalsstéttar oromo-manna til að vernda
rétttrúnaðarkirkjuna gegn oromo-mönnum, sem voru á leiðinni inn í
suðurhluta Tigray- og suðausturhluta Gonder-héraða. Loks urðu
Gonder-keisararnir ekki annað en héraðshöfðingjar undir vernd
oromo-hershöfðingja. Búskaparþróunin í Gibe-árdalnum leiddi til
stofnana ríkja oromo-manna sunnan Shewa. Gonga-fólkið þróaði eigin ríki
á Kefa-hálendinu á vesturbakka Omo-árinnar og ættbálkur, sem kvaðst
kominn af Salómóni náði Norður-Shewa aftur undir Amhara-veldið. Í
valdatíð Tekle Haimanot I (1706-08) var lítið eftir af ríkisstjórn í
landinu. Öld prinsanna (Zamana Masafent), 150 ára stjórnleysi hófst.
Þessa hálfa aðra öld
var líf landsmanna erfitt. Allir áttu sér sitt horn í þjóðfélaginu,
fáir færðust til í stéttaskipulaginu og fátítt var, að nokkur gerði
athugasemdir við þjóðskipulagið. Herir fóru eyðandi hendi um hálöndin
og neyddu bændur út á vígvöllinn, þannig að efnahagur sveitanna var í
rústum. Völdin færðust suður eftir landinu til Shewa, sem blómstraði
vegna viðskipta við Gibe-ríkin. Sjálfkjörinn konungur Shewa, Sahle
Selassie (1813-47) og eftirmenn hans unnu lönd til suðurs, þannig að
þeir réðu mestum hluta Shewa að Awash-ánni og suður að Gurage.
Í norðurhlutanum
leið að lokum Aldar prinsanna með Kassa Hailu. Eftir að hafa starfað
sem málaliði í Gojam, snéri hann á heimaslóðir í Kwara á
vesturláglendinu, þar sem hann dafnaði sem ræningaforingi og kom sér upp
góðum, litlum her. Eftir 1847 hirti hann skatta af verzlun og smygli og
neyddi ráðamenn í Gonder til að koma sér fyrir í kerfinu. Í apríl 1853
sigraði hann Ras Ali prins, hinn síðasta af ormono-höfðingjunum, og
tryggði völd sín í Tigray. Hann var krýndur sem Tewodros II keisari 9.
febrúar 1855. Síðar sama ár náði hann Shewa undir sig með hervaldi.
Tewodros II,
Yohannes IV og Menilek II.
Þótt Tewodros II legði áherzlu á félagslegt réttlæti fyrstu árin, eyddi
hann svo miklum peningum í herstöðvar um allt land, að bændum blöskraði
skattheimtan og sveitaklerkar undu ekki þjóðnýtingu kirkjulands. Þetta
ýtti undir eflingu valda sveitaaðalsins, sem efldu samsæri gegn honum.
Keisarinn hélt Eþíópíu saman með valdi og árið 1861, þegar hann áttaði
sig loks á stöðunni, sauð hann saman djarfa stefnu til að endurheimta
almennan stuðning. Árið 1882 bauð hann Viktoríu Bretadrottningu
samstarf til að berjast gegn islam. Bretar hunzuðu áætlunina og
Tewodros fangelsaði brezku endinefndina og aðra Evrópumenn, þegar engine
svör bárust. Þessi viðbrögð leiddu til ensk-indverskrar herferðar árið
1868. Foringi hersins, Sir Robert Napier mútaði Kassa, höfðingja í
Tigray, með peingum og vopnum til að tryggja sér og her sínum ferðina
inn í land og 10. apríl sigraði hann lítinn her keisarans á sléttunum í
grennd við Amba Maryam (Mek’dela). Tewodros framdi sjálfsmorð tveimur
dögum síðar til að komast hjá handtöku.
Kassa í Tigray var
krýndur Yohannes IV keisari 21. janúar 1872. Eftir að hann rak tvo
egypzka heri brott af hálendi Eritreu 1875-76, fór hann suður á bóginn
og neyddi Menilek konung í Shewa til að láta af öllum kröfum til
keisarakrúnunnar. Þannig varð hann fyrsti keisarinn í 300 ár til að
hafa völdin frá Tigray suður að Gurage. Þá reyndi hann að reka Egypta
frá ströndum Eritreu, þar sem þeir urðu eftir, þegar mahdistar höfðu að
mestu náð Súdan undir sig en honum tókst ekki að koma í veg fyrir, að
Ítalar settu her á land við Mitsiwa (nú Massawa) í febrúar 1985. Ítalar
reyndu að veikja stöðu keisarans með því að múta Menilek með þúsundum
riffla en hann var Yohannes II trúr. Hann notaði samt tækifærið í
janúar 1887 til að innlima Harer í konungsríki sitt. Um svipað leyti
tókst Yohannes að standast árásir Ítala inni í landi og árið 1889 fór
hann inn í Súdan til að hefna fyrir árásir mahdista á Gonder. Hinn 9.
marz 1889 var hann skotinn til bana á sigurgöngu sinni við Metema.
Menilek lýsti sig
keisara Eþíópíu hinn 25. marz og undirritaði vináttu- og
viðskiptasamning við Ítala í Wichale 2. maí og veitti þeim stjórn yfir
Eritreu. Túlkun Ítala á 17. grein samningsins var, að þeir ættu að sjá
um utanríkismál Eþíópíu, en ekki var hægt að túlka amahríska textann á
þann hátt. Menilek leitaði fyrst diplómatískra leiða til að leiðrétta
þennan misskilning Ítala, sem þeir höfðu notað til að lýsa Eþíópíu
verndarsvæði sitt. Ár árunum 1891-93 sendi hann leiðangra suður og
austur í land til að safna fílabeini, gulli, ilmefnum, kaffi, húðum og
þrælum til að borga fyrir nútímavopn og skotfæri. Í desember 1895,
eftir tveggja ára góðæri í landinu, snéri Menilek her sínum inn í
Tigray.
Ítalar töldu, að
ekki þyrfti fleiri en 35.000 hermenn til að stjórna Eþíópíu, en þeir
komust að öðru í orrustunni við Adwa 1. marz 1896, þar sem Oreste
Baratieri, hershöfðingi, leiddi 14.500 manna her í illa undirbúna árás á
100.000 manna, velvopnaðan her Menileks. Ítalar urðu að hörfa og
keisarinn snéri aftur inn í Eþíópíu til að bíða eftir samningum milli
landanna. Hinn 26. október 1896 skrifaði hann undir Addis
Ababa-samninginn, sem kom í stað samningsins í Wichale.
Menilek efldi og
stækkaði ríki sitt meira en nokkurn tíma áður. Á árunum 1896 og 1906
stækkaði landið í núverandi stærð, náði yfir hálendið, aðalvatnakerfin
og láglendu þurrkasvæðin í hitabeltinu umhverfis. Fjármunum frá yztu
mörkum ríkisins var varið til að gera höfuðborgina, Addis Ababa,
nútímalega, opna skóla og sjúkrahús og byggja upp samgöngukerfi.
Menilek samdi við franskt fyrirtæki um byggingu járnbrautar milli Addis
Ababa og Djibouti og kom þannig í veg fyrir, að erlendir kaupmenn gætu
náð valdi yfir landsframleiðslunni í samvinnu við hástéttir landsins.
Valdaskeið Haile
Selassie I.
Þegar aldurinn færðist yfir Menilek, skipaði hann stjórn fyrir hönd
afabarns sins og erfingja, Iyasu, son oromo-höfðingjans í Welo. Þegar
hann dó árið 1913, tók Iyasu við stjórninni. Hann vildi stýra ríki án
trúar- og kynþáttafordóma, rak marga af landstjórum Menileks, skipaði
múslima og skapaði sér þannig óvild hinna kristnu, ráðandi stétta. Í
fyrri heimsstyrjöldinni hallaði hann sér nokkuð að íslam og miðveldunum
í von um að ná Eritreu aftur. Eftir að bandamenn mótmæltu opinberlega,
hittust aðalsmenn í Addis Ababa og ásökuðu Iyasu um trúvillu og landráð
og steyptu honum af stóli 27. sept. 1916.
Dóttir Menileks,
Zauditu, tók við af Iyasu. Það þótti óviðeigandi, að kona sæti í
keisarastól, svo að sonur Ras Makonnen, Ras Tafari, kom fram fyrir
hennar hönd og var tilnefndur sem erfingi að krúnunni. Prinsinn kom upp
nútíma skrifræði með því að ráða nýmenntað fólk í þjónustu ríkisins.
Hann kom Eritreu í Þjóðabandalagið 1923 á þeim forsendum, að samábyrgð
tryggði þetta óþróaða land gegn árásum. Til að bæta ímynd Eþíópíu réði
hann erlenda ráðgjafa í aðalráðuneytin og hóf undirbúning að afnámi
þrælahalds, sem gerðist greiðlega með því að skipta yfir í markaðskerfi.
Árið 1928, þegar
Zauditu, skipaði Tafari konung, var efnahagurinn í blóma, einkum vegna
aukins kaffiútflutnings. Samgöngur voru bættar í sveitunum, þannig að
kaupmenn og athafnamenn áttu greiðari leið. Tafari setti þau skilyrði,
að útlendingar með starfsemi í landinu yrðu að hafa innlenda
samstarfsmenn og gekk hart eftir til að halda stjórn efnahagslífsins í
höndum heimamanna.
Zauditu dó 1. apríl
1930 og Tafari lýsti sig keisara. Hann var krýndur sem Haile Selassie I
(Styrkur þríeiningarinnar) 1. nóvember. Í júlí 1931 samdi hann
stjórnarskrá, sem leyfði honum að fela skipuðu og óbeint kosnu, tveggja
deilda þingi og öðrum stofnunum þau völd, sem hann vildi. Á árunum
1931-34 stuðlaði hann að byggingu vega, skóla, sjúkrahúsa,
samgöngumannvirkja og skipulagi stjórnsýslu og félagslegrar þjónustu.
Samanlögð áhrif þessara aðgerða opnuðu landið meira fyrir heiminum.
Árið 1932 streymdi fjármagn til Addis Ababa vegna skatta, sem voru lagði
á kaffiútflutninginn.
Velgengni Haile
Selassie olli því, að einræðisherra Ítalíu, Benito Mussolini, ákvað að
gera árás á landið áður en það yrði nógu öflugt til að koma í veg fyrir
fyrirætlanir Ítala á Horni Afríku. Eftir að eftirlitssveit Eþíópa lenti
saman við ítalska hersveit við Welwel-vinina í Ogaden í
nóvember-desember 1934, fóru Ítalar að undirbúa stríðsrekstur í alvöru.
Haile Selassie trúði áfram á hið sameiginlega öryggi í aðild að
Þjóðabandalaginu og lét ekki kveðja menn í herinn fyrr en hann frétti,
að Ítalar væru komnir yfir landamærin 2. október 1935. Næstu sjö mánuði
notuðu Ítalar flugher og eiturgas til að dreifa illa vopnuðum herjum
Haile Selassie. Keisarinn fór í útlegð 2. maí 1936.
Eþíópía var sameinuð
Eritreu og Ítalska Sómalílandi næstu fimm árin og myndaði með þeim
Ítölsku Austur-Afríku. Ítalar einbeittu sér að uppbyggingu, einkum
hraðbrauta, og þróun landbúnaðar og iðnaðar. Eþíópar veittu
hernámsliðinu stöðuga andspyrnu. Ítalar höfðu sterk tök á borgum og
bæjum og aðalleiðum úlfaldalesta en föðurlandsvinirnir stunduðu skærur
og gerðu stundum árásir á stærstu herstöðvarnar. Þegar Ítalar urðu
aðilar að styrjöldinni í Evrópu í júní 1940, viðurkenndu Bretar Haile
Selassie sem fullgildan bandamann og keisarinn fór til Khartoum til að
aðstoða við þjálfun eþíópísks hers undir stjórn Breta. Herinn fór til
Gojam 20. janúar 1941 og Ítalar gáfust fljótlega upp. Hinn 5. maí kom
keisarinn sigurreifur til Addis Ababa og myndaði eigin stjórn í trássi
við hernnámsstjórn Breta.
Haile Selassie átti
fund með Franklin D. Roosevelt, Bandaríkjaforseta, í febrúar 1945. Þar
lagði hann mikla áherzlu á endurinnlimun Eritreu og þar með frjálsan
aðgang að hafi. Árið 1948 og aftur næsta ár fengust niðurstöður frá
nefndum bandamanna og Sameinuðu þjóðunum um Eritreu. Nefndirnar komust
að þeirri niðurstöðu, að Eritrea væri ekki þjóðfélagsheild og efnahagur
landsins gæti ekki náð sér á strik án utanaðkomandi aðstoðar.
Bandaríkjamenn, sem höfðu áhuga á aðstöðu fyrir fjarskiptamiðstöð í
Asmara og flota í Massawa, studdu bandalag Eritreu við Eþíópíu, sem var
staðfest í sept. 1952.
Eþíópar seldu mikið
kaffi á sjötta áratugnum og afraksturinn var notaður til að koma upp
miðstýrðu stjórnkerfi, efla samgöngur og til að nútímavæða borgir. Í
nóvember 1955 samdi keisarinn endurbætta stjórnarskrá, sem gerði þinginu
kleift að gera fjárlög um öflun tekna með sköttum og gjöld til ýmissa
málaflokka, til að yfirheyra ráðherra og andmæla keisaralegum
tilskipunum. Hún gerði einnig ráð fyrir þingkosningum til neðri
deildar, aðskildu dómskerfi, sjálfstæðu framkvæmdavaldi, ýmsum
mannréttindum og ábyrgð hins opinbera gagnvart almenningi. Keisarinn
hélt valdi sínu til tilskipana og skipunar ríkisstjórna. Hann kom á
andstæðum fylkingum í ráðherraliðinu, þannig að mikið skorti á samvinnu
innan ríkisstjórna og eðlilega efnahagsþróun og nýsköpun í
stjórnkerfinu.
Nokkrir menntaðir
embættismenn álitu, að framfarir yrðu hægar eða engar fyrr en
keisaraveldið yrði afnumið. Öryggissveitir og her landsins gerðu
misheppnaða tilraun til byltingar í desember 1960, þegar keisarinn var
erlendis. Smám saman leystis byltingin upp og hin félags- og
efnahagslegu vandamál komu upp á yfirborðið. Keisarinn hunzaði engu að
síður mikilvægi byltingarinnar. Í febrúar 1961 hófst hann handa við
myndun nýrrar stjórnar og leitaði til herforingja, sem áttu land,
aðalsins og höfðingjanna, þannig að allt benti til sömu stöðnunar
áfram. Haile Selassie tókst ekki að framfylgja skiptingu lands milli
bænda og framsóknarmenn og stúdentar sýndu keisaraveldinu andstöðu.
Smám saman missti keisarinn traust og trúnað, einkum eftir vaxandi átök
við skæruliða í Eritreu og við Sómala.
Sjálfstæði Sómalíu
árið 1960 olli uppreisn sómalskra þjóðernissinna í Ogaden í Eþíópíu í
febrúar 1963. Þegar Mogadishu bættist í hópinn, bældi eþíópíski herinn
og flugherinn uppreisnina niður. Í kjölfarið tók Mogadishu upp
hernaðarsamband við Sovétríkin og valdajafnvæginu í þessum heimshluta
var raskað. Eþíópar urðu að nota meira fé til hermála og BNA komu til
aðstoðar. Uppreisnir í Eritreu, sem hófust 1960, aðallega í hópum
islamskra hirðingja á Vesturláglendinu, vöktu athygli kristnu
hálendisbúana, sem höfðu ekki orðið mikið varir við afnám bandalagsins
við Eþíópíu 1962 eða upphaf kennslu á amharísku í skólum landsins.
Róttæk hreyfing stúdenta í Addis Ababa nefndi Haile Selassie handbendi
bandarískrar heimsveldastefnu og landeigendaaðalinn óvini fólksins.
Undir áróðursorðunum: Land fyrir þá, sem erja það, reyndu stúdentar að
takmarka stærð lands og eignarrétt. Þeir gerðu áróður Leníns um rétt
þjóða til að gera uppreisn hátt undir höfði og hann varð síðar að
hugmyndafræði eritesku byltingarinnar.
Snemma á áttunda
áratugnum var þriðjungur hinna 45.000 hermanna Eþíópíu í Eritreu og
hinir voru að bæla niður uppreisnir í Bale, Sidamo og Gojam. Í janúar
1974 hófst röð uppreisna innan hersins undir stjórn ungra liðsforgingja
og eldri foringja á eftirlaunum, sem kenndu keisaraaðlinum um bága stöðu
sína, bágt efnahagsástand í landinu og félagslegt ranglæti. Ekki bætti
úr skák fyrir stjórn landsins, að þurrkur og hungursneyð geisaði á
ofsettum svæðum í norðurhlutanum. Þegar upp komst um þetta ástand eftir
að stjórn landsins hafði haldið því leyndu á alþjóðavettvangi, olli það
mikilli hneykslan. Uppreisnarmenn komu á fót skipulagsnefnd (Derg)
hersins, lögreglunnar og þjóðvarðliðsins. Mengistu Haile Mariam, majór
þriðju herdeildar Harer-hersins, var kosinn formaður hennar. Nefndin
limaði sundur stjórnkerfi keisaraveldisins og lét handtaka handbendi
keisarans. Hún lét síðan til sín taka gegn hinum aldna og
elliæra keisara, sem var settur af 12. sept.
1974. Eftir bardaga milli nefndarmanna í nóvember, voru ekki færri en
60 leiðtogar gamla stjórnkerfisins líflátnir. Ný ríkisstjórn lýsti yfir
stofnun sósíalísks ríkis 20. desember 1974.
Sósíalísk Eþíópía.
Nefndin fékk hugmyndafræði sína frá marxískum keppinautum,
Byltingarflokki Eþíópíu (EPRP), sem var svo trúr borgaralegri stjórn, að
hann tók upp borgarskærur gegn herstjórninni. Í óreiðunni, sem fylgdi í
kjölfarið, hrifsaði Mengistu öll völd sem forseti. Hann hóf stéttastríð
gegn EPRP með þeim afleiðingum, að flest beztmenntaða- og hugsjónafólkið
var annaðhvort drepið eða gert útlægt. Þegar þannig stóð á í maí og
júní 1977, réðist her Sómalíu inn í Ogaden. Kremlverjar lýstu Mogadishu
árásaraðila og sendu vopn til Eþíópíu, til hermanna, sem Sovétmenn og
bandamenn höfðu þjálfað, sendu liðsauka og vopnuðu herinn á ný.
Sómalíustjórn tókst ekki að fá Bandaríkjamenn til að senda birgðir fyrir
her sinn, þannig að hún dró her landsins til baka árið 1978. Mengistu
beindi herjum sínum gegn Eritreu og hrakti aðskilnaðrsinna upp í
Nak’fa-fjöll fyrir áramótin.
Mengistu reyndi
að breyta Eþíópíu í fyrirmyndarríki trausts stjórnmálaflokkst, sem hefði
öll tögl og hagldir. Hann þjóðnýtti allt land með tilskipun árið 1975
og skipti því niður í 10 hektara spildur fyrir bændur, sem erjuðu
jörðina sjálfir. Þá þjóðnýtti hann mestan hluta iðnaðarins,
tryggingarfélaga, banka, stórfyrirtæki og aukahúsnæði og kippti þannig
efnahagsgrundvellinum undan gömlu valdastéttunum. Hann fól samtökum
bænda og borgarbúa framkvæmd umbótanna og að leysa deilumál, sem upp
kynnu að koma. Árið 1884 var Verkamannaflokkur Eþíópíu stofnaður og
Mengistu varð aðalritari hans. Árið 1987 lýsti nýtt þing yfir stofnun
Alþýðulýðveldisins Eþíópíu og Mengistu varð forseti.
Bændum tókst ekki að
framleiða eins mikið og vænzt var eftir skiptingu landsins, einkum vegna
þess, að bændasamtökin úthlutuðu minni spildum en þeim var ætlað. Þetta
leiddi til ofnýtingar, landeyðingar og minnkandi uppskeru. Stjórnin
reyndi að neyða bændur til að selja afurðir sínar undir markaðsverði til
að borgarbúar og hermenn fengju matvæli og kom þannig af stað hræðilegri
hungursneyð árið 1984. Sjötti hluti landsmanna var að dauða kominn
vegna hungurs, þegar vestrænum þjóðum tókst að binda enda á hana um mitt
ár 1985. Ekki fékkst nægileg aðstoð til að flytja fólkið í stórhópum
frá þurrkasvæðum ofsetts norðurhlutans til vestur- og suðurhlutanna, þar
sem var nægilegt landrými til sjálfsþurftarbúskapar. Mengistustjórnin
gat því ekki framkvæmt þessa flutninga áhættulaust, því hún gat ekki
útvegað húsnæði, verkfæri og heilsugæzlu eða matvæli fyrir 600.000
manns, sem voru fluttir engu að síður. Ekki tókst að fylgja áætlunum um
byggingu þorpa, þar sem nauðsynlega þjónustu væri að finna. Allt fram á
tíunda áratuginn var mikill skortur á öllum nauðsynjum vegna
kostnaðarsamra óeirða í norðurhlutanum. Á árunum 1985-6 barðist
stjórnarherinn í mestum hluta Eritreu og Tigray og Mengistu fjölgaði í
hernum og bað Sovétmenn um meiri vopn. Í desember 1987 brauzt
frelsisher Eritreu (EPLF) í gegnum víglínur Eþíópa nærri
Nak’fa-hálendinu og hélt áfram sigurgöngu með vopnum, sem hann hirti af
sigruðum hersveitum stjórnarinnar. Snemma árs 1988 byrjaði frelsisher
Eritreu að samræma aðgerðir sínar með frelsisher Tigray (TPLF), sem
hafði löngum barizt fyrir sjálfstjórn Tigray og marxískri stefnu
eþíópísku byltingarinnar. Sovétríkin neituðu að senda fleiri vopn og í
febrúar 1989 neyddist stjórnarherinn að hörfa frá Tigray. Þá skipulagði
TPLF Amhara lýðveldishreyfinguna og báðum fylkingum var steypt saman í
Lýðræðislega byltingarhreyfingu Eþíópa (EPRDF). Herir hennar mættu
lítilli andspyrnu, þegar þeir héldu inn í Gonder og Welo-héruðin. Næsta
ár lagði EPLF Massawa undir sig og losaði um kverkatakið, sem Eþíópía
hafði haft á innflutningi. Þá var lýst yfir, að Eþíópía réði ekki
lengur yfir Tigray og Eritreu. Skömmu síðar, þegar TPLF lokaði veginum
milli Addis Ababa og Gonder og ógnaði Gojam, lýsti Mengistu yfir
endalokum sósíalisma í landinu.
Bændur yfirgáfu
strax þorpin, sem stjórnin hafði látið reisa og héldu heim á leið,
leystu upp samvinnufélög og skiptu landinu og eignum á milli sín. Þeir
ráku eða hunzuðu flokksleppa og ríkisstarfsmenn og drápu þá, sem
þrjózkuðust við. Ríkisvaldið var lítt eða ekki virkt í suðurhlutanum,
þar sem frelsishreyfing oromo-manna leystist úr læðingi. Í maí 1991,
þegar herir EPRDF réðu Tigray, Welo, Gonder, Gojam og u.þ.b. helmingi
Shewa og það var augljóst að stjórnarherinn gat ekki haldið
byltingarmönnum frá Addis Ababa, flúði Mengistu land og EPRDF tók við
völdum 28. maí.
Nýja stjórnin með
Meles Zenawi (Tigray-maður og formaður EPRDF) í fararbroddi, lofaði að
stofnað skyldi lýðveldi byggt hinum mismunandi kynþáttum og samband
þeirra skyldi ekki tryggt með hervaldi eins og áður. Lýðveldið yrði að
byggja á sjálfviljugu bandalagi margra þjóðerna og kynþátta. Við þessar
aðstæður samþykktu EPRDF og aðrir stjórnmálaflokkar að mynda
bráðabirgðastjórn til að semja stjórnarskrá og undirbúa kosningar.
Meðal þess, sem stjórnarskráin átti að innihalda, var viðurkenning á
dreifingu valds milli þjóðfélagshópa og réttindi þjóðerna til að segja
skilið við bandalagið, ef þau óskuðu þess. Á þennan hátt var
aðskilnaður Eritreu undirbúinn löglega.
Fljótlega var
ljóst, að nýja stjórnin veikti miðstjórnarkerfi Eþíópíu á kostnað
sterkrar og dreifðrar stjórnar á svæðum þjóðernisflokka, sem yrðu að
vera stjórnmálalega og hugmyndafræðilega tengdir EPRDF. Nýtt landakort
með skiptingu landsins í héruð var gefið út 1992. Margir landsmenn
gagnrýndu þessa nýju, þjóðernislegu skiptingu, sem þeir líktu við
andþjóðernislega skiptingu landsins á tímum Ítala árið 1936.
Amhara-menn, sem EPRDF leit á sem nýlendusinna, voru mjög andsnúnir
þessari skiptingu landsins. Stjórnin hafnaði leiðtogum þeirra sem
andlýðræðissinnuðum skrumurum og stakk dúsu upp í fjölmiðla með því að
samþykkja lög, sem tryggði þeim frelsi í orði. Í héruðunum gerði
stjórnin ekki mikið til að sýna frelsisanda sinn. Þar voru andstæðingar
EPRDF kúgaðir, einkum frelsishreyfing oromo-manna, eins og alþjóðlegir
eftirlitsmenn með kosningunum urðu vitni að í júní 1992.
Á árunum 1992-93 vann
bráðabirgðastjórnin með ríkisstjórnum styrktarríkja og Alþjóðabankanum
að uppbyggingaráætlun. Samkvæmt henni var gjaldmiðill landsins felldur,
mikið var dregið úr áhrifum stjórnarinnar á efnahagsmálin og erlendum
fyrirtækjum var gert auðveldara að fjárfesta í landinu. Stjórnin vildi
ekki láta af þjóðnýtingu lands. Því hélt stöðnun áfram í efnahagslífinu
og ný hungursneyð reið yfir vegna þess, hve þjóðfélagið var ósamstætt,
og ofstjórnar á sviði viðskipta. Um mitt árið 1994 voru 10 miljónir
manna við hungurmörk, aðallega í norður- og austurhlutunum. Stjórnin
bað um erlenda aðstoð en hún dugði ekki til, því að hömlur voru of
miklar í efnahagslífinu. Landið var ófært um að leysa hungurvandann til
frambúðar vegna þessarar stöðnunar og gat ekki fjármagnað eigin þróun og
framleiðslu til að fæða landsmenn. Það var ekki ljóst, hvort
Meles-stjórninni tækist að stofna lýðveldi, sem byggðist
á réttindum þjóðernishópa. Rækjust hagsmunir ríkisins á hagsmuni stórra
þjóðfélagshópa eins og oromo-manna, var eins víst, að EPRDF leysti slíka
stjórnarkreppu á ólýðræðis- og einræðislegan hátt. Því fóru margir að
hallast að þeirri skoðun, að þjóðernisstjórn gæti ekki virkað fremur en
sósíalismi. |