Eþíópía íbúarnir,
Flag of Ethiopia


EÞÍÓPÍA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Árið 1999 bjuggu innan við 12% íbúa landsins í borgum.  Flestir Eþíópíumenn búa í smáþorpum eða á jörðum sínum vítt og breitt um landið.  Bústaðirnir eru venjulega kringlóttir eða ferhyrndir og byggingarefnið er það, sem hendi er næst, og oftast eru þeir með stráþökum.  Þeir, sem betur mega sín, nota bárujárn.  Nútímalegustu borgir landsins eru Addis Ababa, Dire Dawa, Jima, Nekernte, Dese, Gonder og Mekele.  Menilek II, keisari, hóf byggingu varanlegrar höfuðborgar, Addis Ababa, árið 1886.  Fyrri valdhafar færðu sig reglulega milli staða og þá var höfuðborgin þar sem þeir sátu hverju sinni.  Eftir síðari heimsstyrjöldina var mest fjárfest í iðnaði, félagslegri þjónustu og annarri uppbyggingu í Addis Ababa.

Eþíópía er deigla þjóðflokka en það er ekki auðvelt að greina á milli þeirra eftir útliti fólksins einu saman.  Munurinn kemur aðallega fram í mismunandi menningu, tungumálum og trúarbrögðum.  Tungumálin eru í kringum 100 og þeim má skipta í fjóra flokka, semitísk-, kússatísk-, ormot- og nílarmál.  Semitísku tungumálin eru aðallega töluð í norður- og miðhlutum landsins (ge’ez, tigrinya, amhari, gurage og hareri).  Ge’ez, hin forna tunga Aksum-keisaraveldisins, er einungis notuð í helgiritum og við athafnir rétttrúnaðarkirkjunnar.  Tigrinya er talað í norðurhéraðinu Tigrey.  Amhari er eitt útbreiddasta tungumál landsins og mikið notað í mið- og norðvesturhéruðunum.  Gurage og Hareri eru notuð í fámennum hópum í suður- og austurhlutunum.

Mikilvægustu kússítamálin eru oromo, Somali og afar.  Oromo og amhari eru algengustu tungumálin í landinu, mest þó í vestur-, suðvestur-, suður- og austurhlutunum.  Somali er ríkjandi meðal íbúa Ogaden og Hawd en afar er algengast á Denakil-sléttunni.  Omoti-tungumálin, aðallega walaita, eru lítt útbreidd og heyrast mest í þéttbýlisstöðum allrasuðvestast í landinu.  Nílarmálin eru töluð á Vesturláglendinu og kunama er þeirra algengast.

Íbúarnir kynntust kristni á 4. öld og rétttrúnaðarkirkjan (Tewahdo) er meðal elztu kirkjudeilda í heimi.  Kirkjan hefur löngum ráðið lögum og lofum í menningar- og stjórnmálalífinu, enda játar rúmlega helmingur íbúa landsins hana.  Kristnin var ríkjandi trú meðal ráðamanna þjóðarinnar til 1974.  Hún hefur líka verið undirstaða bókmennta og sjónlistar um aldir.  Kristnin á sér dýpstar rætur á Norðurhálendinu en hún á sér fylgjendur um allt landið.

Islam kom fram á sjónarsviðið á 7. öld og nú aðhyllast rúmlega 25% landsmanna þessa trú.  Hún er útbreiddust á jaðarsvæðum landsins, einkum á Austurláglendinu.  Í aldanna rás hefur islam verið í skugga kristninnar.  Haile Selassie, keisari, breytti ýmsu í umbótaátt fyrir múslima og á valdatíma Derg komst á meira jafnræði milli þessara trúarbragða, þótt enn þá sé litið á Eþíópíu sem kristna eyju í „Hafi islam”.  Víða á hálendissvæðum landsins hafa kristnir leiðtogar áhyggjur af vaxandi áhrifum múslimskra öfgamanna.

Næstum 10% landsmanna eru andatrúar og dýrka fjölda guða.  Flestir áhangendur andatrúar búa á Vesturláglendinu og tala margs konar nílarmál, s.s. kunama.

Gyðingatrú á djúpar rætur í grennd við fornborgina Gonder.  Flestir eþíópísku gyðinganna, sem kalla sig Beta Israel eða Falasha, hafa flutzt til Ísrael.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM