Gonder er borg í norðvesturhluta
Eþíópíu á blágrýtishrygg í 2300 m hæð yfir sjó. Undan hryggum spretta ár og lækir, sem streyma til
Tana-vatnsin 34 km sunnan borgarinnar.
Gonder var höfuðborg Eþíópíu á árunum 1632-1855 og þar
eru rústir kastala og höll frá tímum ýmissa keisara þessa tímabils
innan borgarmúra. Kastali Fasilides og höll Iyasu mikla (1682-1706) eru
merkastar þessara bygginga. Byggingarstíll
þeirra sýnir portúgölsk áhrif og ber einnig merki frá höllum
Aksum-keisaratímanum og moskum Suður-Arabíu.
Talið er, að 44 kirkjur hafi staðið í borginni á 18. öld
en aðeins fáar eru eftir, þótt borgin sé enn þá eitt höfuðvígja
Eþíópísku rétttrúnaðarkirkjunnar.
Fagurlega skreytt Debre Berhan Selassie-kirkjan er enn þá í
notkun. Borgin varð illa
úti í borgarastríðunum á árunum 1750-1890 en eftir að Bretar náðu
undirtökunum í Súdan 1899 hófust viðskipti við Bláu-Nílarsvæðið
á ný. Flestir íbúanna
eru kristnir.
Flestir bændur umhverfis borgina stunda sjálfsþurftarbúskap.
Samt sem áður er borgin miðstöð viðskipta með kornvöru,
olíufræ og nautgripi. Helztu
framleiðsluvörur Gonder eru vefnaðarvörur, skartgripir, kopar- og leðurvörur. Borgin er mikilvæg samgöngumiðstöð í þjóðvegakerfinu
og hefur eigin flugvöll. Þarna
er háskólasjúkrahús, sem annast m.a. þjálfun starfsfólks í
heilsugæzlustöðvum í sveitunum umhverfis.
Áætlaður íbúafjöldi 1994 var tæplega 167 þúsund. |