Níl Egyptaland,
Flag of Egypt

Vatnakerfi Nílar      

NÍL


.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Níl eða Bahr el-Nil er u.þ.b.6.690 km löng, lengsta fljót heims. Amasonfljót er u.þ.b. 6.400 km langt.  Níl kemur upp á eþíópíska hálendinu í hinu úrkomusama hitabelti og streymir fram um eyðimerkur Norðaustur-Afríku.  Fljótið hefur grafið sér farveg í gegnum gul- og rauðleit jarðlög og grænir árbakkarnir mynda mikla andstöðu við eyðimerkurumhverfið.  Á jöðrum eyðisléttnanna standa hof og pýramídar, minnisvarðar eldri menningarskeiða.

Upptök Nílar eru í grennd við Rutana í Búrúndí, þar sem áin ber nafnið Kagera (bergvatnsá).  Sú fellur í Viktoríuvatnið í Úganda.  Viktoríuníl streymir úr norðurhluta vatnsins.  Eftir 389 km rennur hún um Albertsvatn.  Þaðan hefur hún grafið sig í gegnum austurafríska fjallagarðinn til Súdan og rennur um mýrlendið Sudd (756 km) og heitir þar Fjallaníl (Bahr el-Dschebel).  Þegar þverárnar Bahr el-Ghasal, Bahr el-Sarafa og Sobat hafa bætzt við, heitir áin Hvíta-Níl (El-Nil el-Abjad).  Á khartumhæðum sameinast Níl hinni Bláu-Níl (Bahr el-Asrak), sem kemur úr Tanavatni í Eþíópíu og dregur nafn af gruggugu vatninu.  Síðasta þveráin er Arbara.

Áður en Aswanstíflan var reist voru 6 flúðir í ánni.  Flestar þeirra eru horfnar undir uppistöðulón, sem hafa myndazt síðan.  Héreftir liðast áin 500-900 m breið um Nílardalinn, sums staðar í 100-350 m djúpum farvegi niður á óshólmana (23.300 km²), þar sem hún kvíslast milli sandeyra og rifja út í Miðjarðarhaf.  Á hinni löngu leið gufar meira en helmingur árvatnsins upp, mest á fenjasvæðinu Sudd.  Þrátt fyrir það, er nægt vatn (92 milljarðar tonna á ári) til að gera Nílardalinn grænan.

Þegar monsúnrigningar hefjast í Eþíópíu (júní-sept.), bólgna Bláa-Níl og Arbara og bera með sér ógrynni af framburði, sem settist til í Nílardalnum og stækkaði óshólmana.  Þetta var frjósamur jarðvegur, sem gerði áburðarnotkun óþarfa þar til Asvanstíflan var byggð.  Síðan berst minna fram og hægt hefur á uppbyggingu flæðilands í óshólmunum.  Einnig hefur dregið verulega úr flóðum í dalnum eftir að miðlunarlón stíflunnar varð til.  Flóðhæðin réðist af magni úrkomunnar í Eþíópíu og réði uppskerunni hverju sinni.  Flóðunum var fagnað árlega með miklum hátíðum.  Á okkar dögum er rennsli fljótsins jafnt og nægilegt til áveitna allt árið og hægt að uppskera tvisvar til þrisvar sinnum.

Fyrsta stóra stíflan, sem reist var við neðri hluta Nílar, var Asvanstíflan 1898-1912.  Sjö km sunnar lét Nasser forseti reisa hástífluna árin 1960-68.  Miðlunarlónið ofan stíflu heitir Nasservatn.  Við Esna, Nag Hammadi og Assijut eru skipaskurðir (gáttastíflur).  U.þ.b. 25 km norðan Kaíró voru gerðir varnargarðar um miðja 19. öld og neðar við ána Muhammed Ali-garðarnir árin 1936-39.  Þar að auki eru garðar meðfram Rosettu og Damiettu, neðstu kvíslum Nílar í óshólmunum.  Áveitukerfi Nílar frá miðlunarlóninu er nálega 20.000 km langt.  Vegalengdin milli Kaíró og Asvan er 882 km með lest, 944 km með bíl og 960 km með skipi.

Óshólmasvæðið er 23.300 km² og þar búa rúmlega 30 milljónir manna í 13 sýslum.  Farvegur Nílar hefur haldizt tiltölulega lítt breyttur á sögulegum tíma, allt að 20 km sunnan Kaíró en óshólmarnir hafa breytzt mjög.  Í fornöld streymdu þar fram 7 kvíslar en nú aðeins tvær, sem renna um þriðjung miðsvæðisins.

Þótt fornminjar og byggingar, sem hafa verið grafnar upp í óshólmunum, séu ekki sambærilegar við minjar í Mið- og Efra-Egyptalandi, eru þær staðfesting þess, að svæðið var byggt löngu fyrir sameiningu landsins.  Óshólmarnir voru erfiðir yfirferðar vegna mýra, sandhóla og papýrusflóa.  Þar þróuðust furstadæmi, sem áttu oftast friðsamleg samskipti við íbúa Nílardalsins.  Þegar fyrsta höfðingjaættin sameinaði landið, héldu furstadæmin hluta af sjálfstjórn sinni.  Ræktun óshólmanna krafðist mikilla fórna.  Þar voru ræktunarskilyrði betri en í Nílardalnum og smám saman (á 2000 árum) óx íbúunum þar fiskur um hrygg.

Ramsesættin komst þar á legg og til valda í öllu landinu.  Á síðastliðnum 1500 árum uxu þar upp margar höfðingjaættir, sem létu reisa sér veglega bústaði (Pi-Ramesse, Tanis).  Þar sem skortur er og var á byggingarefni (grjótnámum), létu höfðingjarnir rífa niður aðrar hallir og helgidóma til að reisa sér bústaði.  Engin skýring hefur fundizt á því, hvers vegna þessar skrauthallir hurfu og sjást ekki lengur.  Helzt hallast menn að því, að grjótið úr þeim hafi verið notað í Sebbachgrafir.  Óshólmarnir eru enn þá mesta landbúnaðarsvæði Egyptalands.  Þar eru framleidd matvæli, neyzluvörur, vefnaðarvörur o.fl.  Aðalhafnarborgin er Alexandría.  Aðalverzlunar- og samgöngumiðstöðin er borgin Tanta í miðjum óshólmunum.  Aðrar mikilvægar borgir eru:  Marsura, Damankur, El-Sagasig, Henha, Port Said, Ismailija og Suez.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM