Bezt
er að aka að henni frá El-Alamein-brautarstöðinni 60 km í suður
um litla en óbyggða vin, El-Mefara.
Sérstakt leyfi frá yfirvöldum þarf til að fara þangað.
Kattara
er stærst vinjalægðanna í Egyptalandi.
Hún liggur í þríhyrningnum milli El-Alamein, Mersa mathruh og
Siwavinjarinnar. Hún er djúpur
og breiður dalur í mjúkhæðóttu landslagi Lýbísku eyðimerkurinnar.
Giljóttir og snarbrattir klettaveggir í norðri og norðvestri
gerðu hana að ósigrandi náttúrulegri hindrun, sem m.a. lék afgerandi
hlutverk í síðari heimsstyrjöldinni.
Lægðin er u.þ.b. 280 km löng, allt að 140 km breið og er u.þ.b.
18.000 km². Í henni eru lífshættuleg
saltfen (sebsa).
Lægsti
hluti hennar er 134 m undir sjávarmáli.
Hún varð að mestu til fyrir vindveðrun, sem nær að hluta
til niður að grunnvatnsborði. Eina
byggða vinin þar er Kara í vesturhlutanum.
Byggðin stendur á kletti, þar sem búa 150 manns.
döðlurækt er aðalatvinnuvegur fólksins.
Alexander mikli hafði þar viðdvöl á leið sinni frá
Siwavininni og er getið í fornum heimildum, sem áningarstaðar hans.
Áberandi dökkt yfirbragð íbúanna minnir á, að Kara var
mikilvæg miðstöð þrælasölu á miðöldum.
Undanfarna áratugi hafa
miklar athuganir og rannsóknir farið fram í Kara í tenglsum við
hagnýtingu svæðisins á viðskiptalegum grunni.
Olíuleit fór þar fram í lok 6. áratugarins á vegum Sovétmanna en síðan 1979 á vegum Konunglega hollenzka Shell olíufélagsins.
Engin olía hefur fundizt enn þá.
Boranir fyrir vatni hafa hins vegar gefið góða raun, t.d. á
fyrsta borsvæðinu, Kifar, hefur myndast stórt stöðuvatn á síðustu
áratugum eða svo vegna sjálfrennandi vatns úr borholunni.
Sef hefur vaxið með bökkum fram og vað- og sundfuglar hafa
sezt þar að.
Síðan
1916 hefur hið svokallaða Kara-verkefni stöðugt kallað á nýjar
rannsóknir. Samkvæmt áætlunum
er gert ráð fyrir 60 km löngum skurði frá Miðjarðarhafi.
Um hann á að streyma sjór og virkja á hina 54 m fallhæð og
möguleikar til saltvinnslu eru fyrir hendi.
Innhafið, sem myndaðist, yrði 12.000 km².
Það hefði líklega í för með sér loftslagsbreytingu, sem
leiddi til aukinnar úrkomu á svæðinu.
Til þess að opna sjónum leið frá Miðjarðarhafinu yrði að
beita kjarnorkusprengjum. Þótt hægt sé að hrinda öllu þessu í framkvæmd tæknilega
séð, virðist framkvæmdin ómarkviss og vandasöm, enda hefur henni
stöðugt verið slegið á frest. |