Kaíró skoðunarvert Egyptaland,
Flag of Egypt


KAÍRÓ
SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR
EGYPTALAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

**Egypzka safnið var byggt 1897-1902.  Það stendur við Tahrirtorg.  Þar eru til sýnis egypzkir, grískir og rómverskir forngripir.  Auguste Mariette, franskur Egyptalandsfræðingur, stofnaði það árið 1857.  Það tekur marga daga að skoða allt safnið, sem sýnir samt ekki nema brot af öllu, sem til þess hefur safnazt.  Í stuttri heimsókn borgar sig að skoða grafarfjársjóði Tutanshamuns og nokkur minnismerki fornríkisins.

Á jarðhæð eru munir frá fornegypzkum- til grísk-rómverskra tíma.  Í innganginum eru skiptisýningar.
Í stóra salnum, til beggja hliða hans, eru munir frá tímum gamla ríkisins (3-6 ættar) og þar inn af er fjöldi minni sala með númerunum 1-45 með munum frá miðríkinu, nýja ríkinu og síðari tímum

Á efri hæð, í sölum 1-56, eru **munir úr gröf Tutanchamuns, *líkkista hans og múmía, **skartgripasafn, sem sýnir þróun gullsmíði frá 3200 f.Kr. til býsantískra tíma (395-650 e.Kr.), *múmíur faraóa í tímaröð.

*Corniche el-Nil.  Skammt vestan Tahrirtorgs, þar sem flest nýju hótelin eru og móttökuhúsin standa við aðalgötuna meðfram fljótinu.

**Islamska listasafnið.  Franz Pascha (†1915; þýzkur arkitekt) stofnaði safnið.  Þetta er mesta og bezta safn sinnar tegundar í heiminum.

*Virkið (Citadelle).  Saladin hóf byggingu þess 1176 við rætur Mokattamhæðar.  Líklega voru notaðir litlir steinar úr pýramídum í Giza til verksins.  Leifar frá þessum tíma eru veggjabrot ytri múra að austanverðu og nokkrir turnar í innri hlutanum.  Virkið var notað sem hernaðarmannvirki til skamms tíma og því lokað almenningi.  Endurbætur fara fram á mannvirkjum þess.  Þegar gengið er um aðalinngang virkisins, Bab el-Gedid (Nýjahlið), er komið inn í garð.  Síðan er farið um hliðið Bab el-Vastani inn á aðaltorgið.  Sunnan þess er *moska Muhammed-Ali, sem er oft nefnd alabastursmoskan.  Yfir henni gnæfa mjóar og háar mínarettur, sem eru kennileiti borgarinnar.  Muhammed Ali lét hefja byggingu þeirra árið 1824 og eftirmaður hans, Said, lauk verkinu 1857.  Grískur byggingameistari, Jusuf Boschna frá Istambul, sá um verkið og hafði Juru-Osmaniye-moskuna þar til fyrirmyndar.  Vestan moskunnar er mjög gott útsýni yfir borgina, turna, kúpla, háhýsi og til pýramýdanna í Giza.  El-Nasirmoskan stendur norðaustan Muhammed Alimoskunnar.  Hún var byggð á árunum 1318-1335 (Muhammed el-Nasir).  Mínaressur hennar (tvær) eru með laukkúplum og skreyttar í persneskum stíl.  Skammt sunnan El-Nasirmoskunnar er Jósefsbrunnurinn (Bir Jusuf), 88 m djúpur, frá tímum Saladins.  Tröppur niður í þennan ferkantaða brunn.  Norðaustan brunnsins er suðurhlið virkisins, Bab el-Mokattam.  Þaðan liggur vegur til suðausturs, upp á Mokattamhæðina til Mohammed Ali-virkisins.  Í norðurhluta virkisins er hersafn.

**Moska Hassan soldáns var byggð 1356-63.  Þetta er eitt mesta byggingarverk egypzkrar byggingarlistar.  Hassan el-Nasir var soldán mamelukka.  Talið er, að sýrlenzkur byggingarmeistari hafi annazt verkið.  Þetta mikla mannvirki er neðan við virki Saladins.  Ytra líkist moskan helzt fornu egypzku hofi, prýddu fallegum múrbrúnum og bogagluggum.  Yfir frístandandi grafhýsinu við suðausturhliðina gnæfir 55 m hár kúpull frá 18. öld.  Hið risastóra *aðalhlið við norðurhornið er u.þ.b. 26 m hátt og mínarettan við suðurhornið er 81,5 m há, hin hæsta í Kaíró.  Grunnur mannvirkisins er óreglulegur fimmhyrningur, 7900 m² að flatarmáli.

Sunnan moskunnar er langt svæði, Midan Salah el-Din, sem var fyrrum upphafsstaður pílagrímaferða til Mekka.  Austan þess er virkið

Bab el-Asab með stóra turnhliðinu, sem var aðalinngangur þess.  Í þröngum götunum að baki þess lét Muhammed Ali brytja Mamelúkaforingjana niður árið 1811.  Virkið blasir víða við við rætur Mokattamhæðar.  Saladin hóf byggingu þess árið 1176.  Byggingarefnið var líklega sótt í litlu pýramídana í Giza.  Lítið er eftir af upphaflegu hlutum þess, aðallega ytri austurmúrarnir og nokkrir innri turnar.  Tvær konungshallir frá tímum Selims I eru að mestu horfnar.  Virkið var löngum lokað almenningi vegna hernaðarlegs hlutverks síns.

**Basarinn.  Austan fyrrum borgarsíkis, þar sem heitir nú Scaria Port Said, er Fatimidaborg, sem Gohar stofnaði.  Varðveitzt hafa síðari borgarmúrar frá 1074 með norðurhliðunum Bab el-Futuh og Bab el-Nasr og suðurhliðið Bab Suweila.  Við gatnamót Scharia Gohar el-Kait og götu, sem liggur á milli norðurhliðanna er Aschraf-Barsbaimoskan (1425).  Þarna er basarhverfið (suk), iðandi af mannlífi, líkast ormagryfju.

Bezt er að kynna sér gangverð á mununum, sem eru í boði, áður en farið er að prútta.  Uppsett verð er nægilega hátt til að gefa kaupmanninum svigrúm til að lækka það hæfilega.  Þótt gaman sé að prútta, ber að hafa í huga, að vöruverðið er lágt vegna lágra launa í landinu.  Kaupmennirnir verða fyrir hálfgerðum vonbrigðum sé ekki prúttað, en við ættum að gæta þess að hætta prúttinu áður en komið er niður að kostnaðarverði.  Uppsett verð er miklu lægra en við eigum að venjast að greiða fyrir sambærilega muni víðast annars staðar í heiminum.

**Koptíska kirkjan St. Sergius (Abu Sarga) er í *gömlu Kaíró (Misr el-Kadima) á hægri bakka Nílar andspænis suðurhluta eyjarinnar 'Roda'.  Suðurhluti gömlu Kaíró, Kasr el-Schama, er að mestu byggður kristnu fólki, sem býr líka innan hinna gömlu múra rómverska kalstalans 'Babylon'.  Farið er á milli tveggja stórra, rómverskra turna inn á kastalasvæðið.  Abu Sarga, sem stofnuð var á 4./5. öld er í þéttri húsaþyrpingu.  Hún var endurbyggð á 10./11.öld.  Þjóðsagan segir, að María með Jesúbarnið hafi falið sig þar í mánaðartíma á flótta sínum til Egyptalands.

Kirkjan er lík öðrum egypzk-býzantískum kirkjum, sem kristnir koptar nota, með þrjú kirkjuskip.  Núverandi inngangur er í suðvesturhorni kirkjunnar, því búið er að múra upp í gömlu inngangana á vesturhliðinni.  Úr syðri hliðarkapellunni liggja tvær tröppur niður í grafhýsið, sem er frá 5. öld og þar með elzti hluti kirkjunnar.

Á kastalasvæðinu eru fleiri koptískar kirkjur, t.d. Sitt Barbara frá 5. öld (endurnýjuð á 10./11. öld), Mari Girgis frá 7. öld og El-Adra frá 9. öld (endurbyggð á 18.öld).  Aðalguðshús gyðinga (synagóga) var kristin kirkja fram á 8. öld.

**Koptíska safnið er tengt kirkjunni El-Moallaka (hin svífandi; Sitt Miriam; frá 4.öld en oft endurbyggð).  Safnið stofnaði Morkos Pascha Simaika árið 1910 og þar er að finna merkasta safn þessarar gerðar, sem til er.  Safnhúsið var reist í gamalkoptískum stíl í byrjun 20. aldar og síðar stækkað.  Auk kirkjulistar eru til sýnis almennir listmunir og áhöld, sem notuð voru allt frá 3. öld fram á hina 18., einkum þó frá snemmmiðöldum.

**GIZA
Giza er á vinstri bakka Nílar og samnefnd úthverfi í Kaíró.  Pýramídastrætið 'Saria el-Haram' með háhýsum sínum liggur í suðvestur að norðausturjaðri Lýbísku eyðimerkurinnar, þar sem hinir stórkostlegu pýramídar standa á sléttum kalkbrúnum hennar.  Þar eru sex hvirfingar pýramída á 40 km kafla.

Fjórða höfðingjaættin lét reisa pýramídana á árunum 2.750-2550 f.Kr.  Þeir eru meðal elztu mannvirkja, sem enn þá standa, í heiminum.  Grikkir og Rómverjar töldu þá meðal sjö undra veraldar og enn þá er dáðst að tækniafrekinu við byggingu þeirra og valdi faraóanna, sem höfðu tugþúsundir þræla og þegna í vinnu við gerð þeirra.  Ekki er ljóst, hvort stærð þeirra er í hlutfalli við völd hvers faraóanna, sem létu reisa sér svona vegleg grafhýsi.  Líklega hafa fjárráð, völd og smekkur hvers og eins ráðið mestu um stærðina.  Ekki hefur verið hægt að staðfesta að lengd valdatíma hafi ráðið þar um.

Pýramídarnir eru byggðir úr kalksteini frá vesturhluta Nílardalsins, lagðir með fínslípuðum, hvítum kalksteini eða graníti.  Yngri pýramídarnir eru plássminni að innan en hinir eldri.  Inni í þeim eru grafhýsi, dýrkunarklefi (hinn látni var í guðatölu) og klefar fyrir dýrgripi, sem grafnir voru með faraóunum.  Allir þessir klefar voru neðanjarðar í eldri pýramídunum og allir inngangar eru úr norðri.  Helgidómur hvers þeirra er í austurhlutunum.  Súlnagöng (fyrst opin, síðar lokuð) tengdu dalhof niðri í dalnum við pýramídana.

**Keopspýramídinn er hinn stærsti.  Keops (Kúfu) lét reisa hann og Fornegyptar nefndu hann 'Echet Chufu', sjóndeildarhring Kúfus.  Samkvæmt Heródusi II (124-125) unnu við hann 100.000 manna vaktir allt árið, hver í þrjá mánuði í senn.  Rúmmál Keopspýramídans er 2,3 millj. m³ (2,5 í upphafi).  Í honum eru 2,3 milljónir steina sem vega 2,5 tonn hver.  Hver hlið er 225,7 m (var 230,38 m) löng, hæðin er 137,2 m (var 146,5 m) og hornið á lóðlínu 52°51'.  Það er hættulegt að príla upp á pýramídann og reyndar bannað með lögum, því að steinarnir eru hærri en 1 m og bratt upp.  Það telst til undantekninga, að til þess séu gefin leyfi, og þá aðeins í fylgd leiðsögumanns.  Útsýni af efri palli er tignarlegt yfir svingsinn, hina pýramídana og grænt akurlendi Nílardalsins og Kaíró.

Hægt er að skoða Keopspýramídann að innan en það er mjög erfitt, því að skortur er á fersku lofti auk þess sem það er ekki erfiðisins virði.  Inngangurinn er um göng, sem grafarræningjar gerðu að norðanverðu, gegnum þröng stoðagöng inn í sal (8,5 m háan, 47 m langan og 1-2,5 m breiðan), sem gefur til kynna góða þekkingu á byggingarlist.  Því næst er komið inn í grafhýsið (5,75 m hátt, 10,5 m langt og 5,25 m breitt), þar sem aðeins stendur tóm opin granítkista.  Múmían hefur aldrei fundizt.

Austan Keopspýramídans er þrír drottningapýramídar, m.a. fyrir eina dóttur faraós auk grafreita annarra skyldmenna Keops.  Að sunnanverðu hvíla æðstu virðingarmenn ríkisins.  Við suður- og austurhlið Keopspýramídans fór fram fornleifauppgröftur árið 1954.  Þar komu í ljós fimm langar grafir, þar sem sólarskipið fannst í 1000 hlutum.  Það er nú í nýja safninu í Kaíró.

Vestan Keopspýramídans eru konungagrafirnar, þar sem hirðmenn og embættismenn 4.-6. höfðingjaættanna hvíldu.

**Kafrapýramídinn, sem Fornegyptar kölluðu Uer-Chefre (Kafra er mikill), er 160 m frá suðvesturhorni Keopspýramídans. Kafrap. stendur hærra og virðist því hærri.  Hann er 136,5 m hár (var 143,5 m), hliðar eru 210,5 m langar (voru 215,25 m) og horn á lóðlínu 52°20'.  Rúmmál hans er 1,65 milljónir m³ (var 1,86).  Efst uppi hefur hin gamla klæðning haldið sér, eins og greinilega sést.

**Svingsinn, sem höggvinn var úr kalkklöppinni á staðnum í líki ljónsskrokks með höfuð faraós (e.t.v. Kafra), er beint norðvestur af dalhofi Kafrapýramídans.  Hann er annað merkasta undur Egyptalands.  Veðrun hefur eyðilegt svingsinn verulega en stöðugt er unnið að viðgerðum.  Lengd hans er 73,5 m og hæðin 20 m.

Mykerinospýramídinn, 62 m hár, hliðar 108 m langar og horn 51°, er 200 m suðvestan Kafrapýramídans.  Þrír minni pýramídar syðst fyrir ættingja faraós voru aldrei fullbyggðir.

Nýlega (1990) fundust fyrir tilviljun a.m.k. 150 grafhýsi verkamanna, sem unnu við gerð pýramídanna.  Þeir fengu greinilega leyfi til að byggja þau yfir sig og sína.  Ýmsar minjar (styttur o.fl.) hafa fundizt þar.

Pýramídarnir í Giza eru flóðlýstir á kvöldin.  Suðvestan svingsins eru ljósa- og tónaflóðslýsingar á kvöldin.  Lítið eitt austan svingsins, i Keops papírussýningarhöllinni, er sýnd gerð papírus, sem er seldur þar, annaðhvort málaður eða auður.

Stöðugt er unnið að uppgreftri og æ fleiri grafir eru uppgötvaðar.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM