El Alamein Egyptaland,
Flag of Egypt


EL ALAMEIN
EGYPTALAND
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

El-Alamein er 110 km vestan Alexandríu.  Þangað liggur góður malbikaður vegur og járnbraut.  Meðal gististaða þar er Hótel Sidi Abd el-Rahman, 64 herbergi og hús.  El-Alamain á frægð sína að þakka falli Rommels og skriðdrekasveita hans í stórorrustu við bandamenn árið 1942.  Þar féllu og særðust u.þ.b. 80.000 hermenn og þar eru geysistórir stríðsgrafreitir og minnismerki.

Erwin Rommel (1891-1944) kom sem sigurvegari alla leið frá Tobruk í fararbroddi þýzk-ítölsku skriðdrekasóknarinnar 10. júlí 1942 og tókst að styrkja stöðu sína við El-Alamein með því að ná hæð nr. 26 undir sig.  Bretar stöðvuðu frekari framrás Rommels til Kaíró og vörðust á víglínu milli El-Alamein og Kattaralægðarinnar. Áttunda herdeild brezka hersins undir stjórn Montgomerys og Alexanders hershöfðingja hóf stórgagnsókn 23. oktober (önnur orrustan), sem knúði Rommel til að hörfa 4. nóvember, þvert ofan í skipanir Hitlers.  Þar með tryggðu Bretar sér hernaðarlega yfirburði í Norður-Afríku og möguleika til innrásar í Ítalíu sunnanverðri.

Í brezka kirkjugarðinum liggja 7500 hermenn.  Þar er stór steinkross.  Handan vegar er gistihús.  U.þ.b. hálfan km frá kirkjugarðinum er stríðsminjasafn með vopnum, skjölum og skýringum á atburðum.  Í safnsgarðinum eru farartæki, skriðdrekar og brynvagnar auk þungavopna.

Þegar lengra er haldið, birtast sandfylltar skotgrafir og byrgi auk annarra ummerkja frá 1942 báðum megin vegarins til Mersa Matruh.  Tíu km vestar, á hæð skammt frá sjó, er þýzka minnismerkið frá 1959, átthyrnd bygging, sem reist var með ítalska kastalann Castelk del Monte í Puglia á Suðaustur-Ítalíu að fyrirmynd.  Umhverfis garðinn inni í minnismerkinu eru 7 veggjaskot með minningargröfum og nöfnum þýzkra landsvæða.  Þar fyrir ofan eru bronstöflur með nöfnum hinna föllnu.  Undir veggjaskotunum eru jarðneskar leifar 4280 af hinum 4500, sem féllu.  Í miðju garðsins er 11,5 m hár einsteinungur úr þýzku blágrýti.

Fjórum km vestar er ítalska minnismerkið, sem er grafhýsi með háum miðturni úr hvítum marmara.  Þar hvíla hinir föllnu í merktum gröfum að hluta og víða má sjá eftirmæli vandamanna þeirra.

Árið 1966 fannst mikil olíu í grennd við El-Alamein og farið var að nýta hana árið 1968.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM