Aswan
er 260.000 (2005) manna borg í samnefndu héraði í Efra-Egyptalandi á 24°05'N
neðan fyrstu flúða Nílar. Heilsubótarstaður
á veturna. Iðnaður: Stál,
köfnunarefni, rafmagn. Í
Aswan kvíslast Níl milli graníteyja og kletta, sem heita Elephantines á ensku en
Fílaeyjar á íslenzku, og gróðurlendi
er takmarkað. Þar eru ræktaðar
beztu döðlur í landinu. Svæðið hét áður Jebu, Fílaland.
Líklega sáu Egyptar þar fyrstu fílana eða líktu graníteyjunum
við bök fílahjarðar. Úr
grjótnámum Fílalands fékkst frá alda öðli fram á daga Rómverja
byggingarefni (granít með kvarts, glimmer og feldspati), sem kallað
var syenít. Þetta nafn á
nú frekar við aðra tegund graníts, sem inniheldur meira hornblendi.
Fílaland var hernaðarlega mikilvægt. Það var
á mótum samgönguleiða milli Egyptalands, Namibíu og Súdan, bæði á
landi og á fljótinu.
Egyptar notuðu þessar leiðir í verzlunar- og hernaðarskyni.Gamla samnefnda höfuðborgin stóð á suðurhluta stærstu eyjarinnar,
Elephantine. Þar var á 6.
og 5. öldum f.Kr. hernýlenda gyðinga með Javehofi, þar sem fundust
fjölmargir forngripir árin 1906-08, m.a. papýrusstrangar á armenskri
tungu, sem eru nú í Egypzka safninu í Kaíró og Bodesafninu í Berlín.
Fimm km sunnan Aswan er eldri Aswanstíflan (El-Chassan eða El-Sadd),
byggð 1898-1912. Hún var
stærsta dalstífla heims til 1971.
Hún gerði bændum kleift að nota áveitukerfi allt árið og að ná 2-3
uppskerum á ári. Brezki
verkfræðingurinn Sir William Willcock og verktakarnir John Aird og Co.
sáu um verkið. Stíflan er 1960 m löng, 40 m há, 30 m breið neðst og 7 m
efst. Bætt var við hana
1907-12 og 1929-34 og hún er nú 2140 m löng og 51 m há.
Vatnshæð lónsins er stjórnað með 180 gáttum, 140 neðri, sem eru
aðalmiðlunargáttir, og 40 efri, sem leiða flóðvatn brott.
Vestan stíflu er skipaskurður fyrir stóra fljótabáta.
Þar eru fjögur 70 m löng og 9,5 m breið flæðihólf fyrir 23 m
hæðarmun.
Nasser forseti, sem komst til valda 1952 með aðstoð hersins, stóð
fyrir gerð áætlana um og teikningar af stórkostlegri stíflugerð
tengdri orkuveri 7 km norðan eldri stíflu.
Þýzku stórfyrirtækin Hochtief í Essen og Union-Brueckenbau í
Dortmund lögðu fram fyrstu drög árið 1955.
Bandaríkin, Bretland og Alþjóðabankinn buðu fram fé til
framkvæmda. Þessi tilboð
voru afturkölluð árið 1956, þegar Nasser tilkynnti hlutleysisstefnu
sína. Hann tók þá
ákvörðun að þjóðnýta Suezskurðinn til að afla fjár til verksins.
Sovjetríkin tóku að sér framkvæmdir á grunni hinna þýzku áætlana
og sendu 2000 tæknimenn og verkfræðinga til Egyptalands. Byggingin hófst 9. janúar 1960 með lagningu hornsteins.
Hinn 14. maí 1964 var opnaður skurður austan stíflunnar, sem var
vígð 15. janúar 1971.
Nærri 35.000 manns unnu að verkinu, 451 dóu af slysförum á meðan á
verkinu stóð. Vegna
miðlunarlónsins, sem til varð við stíflugerðina urðu 60.000 Núbíumenn
að flytjast búferlum og mesta björgunaraðgerð fornminja (hofa,
grafhýsa, kirkna og klaustra) mannkynssögunnar átti sér stað.
**Sadd el-Ali,
hástíflan.
Í stífluna fóru 42,7 milljarðar tonna af jarðvegi (17 sinnum
rúmmál Keopspýramídans).
Hún er 3,6 km löng þvert yfir Níl, þar sem fljótið var 500 m breitt.
Þykkt stíflunnar neðst er 980 m en efst 40 m.
Hæðin er 111 m og hæsti punktur er 196 m yfir sjó.
Meðalvatnsmagn lónsins er 135 milljarðar rúmmetra, hámark 157
milljarðar. 84 milljarðar
rúm-metra eru notaðir til áveitna (samsvarar meðalársúrkomu) í
Egyptalandi (56) og í Súdan (18).
Á næstu 500 árum setjast til 30 milljarðar tonna af framburði í
botn lónsins og 6 milljarðar m³ vatns gufa upp á ári.
Á stíflunni er heiðursbogi og minnismerki um samvinnu Eygypta og
Sovétmanna.
Vatn rennur úr
lóninu um 1600 m löng aðfærslugöng, sem kvíslast í 6 göng, 282 m löng
hvert um sig, að hverflum orkuversins, sem framleiða árlega 10.000 mw.
Þetta orkuver hefur haft úrslitaþýðingu fyrir iðnþróun í Nílardalnum.
Nasservatn
(miðlunarlónið) er 5.250 km², 510 km langt (þar af 1/3 á súdönsku
landi) og 5-35 km breitt.
Það er því stærsta miðlunarlón í heimi á eftir Karíbabatni í
Sambesifljóti. Meðalvatns-hæð er 182 m yfir sjávarmáli.
Áætlanir eru um fleiri byggðir við vatnið.
Enn þá gera menn sér ekki fulla grein fyrir
kostum og göllum lónsins.
Jákvæðu hliðarnar eru m.a.:
Landbúnaðarsvæði hafa stækkað um 30% (500-800 þús. ha) auk þess
sem uppskera er meiri og öruggari.
Orkuvinnsla hefur aukizt.
Dregið hefur úr óvæntum flóðum og áhrifum þurrka.
Níl er skipgeng allt árið.
Mikil fiskveiði er í Nasservatni.
Neikvæðu hliðarnar eru m.a.:
Nú þarf að nota dýran tilbúinn áburð í stað þess, að fljótið bar
fram frjósaman jarðveg í flóðum. Grunnvatnsyfirborð hefur lækkað neðan stíflu.
Saltmagn jarðvegs í Nílardalnum hefur aukizt, þar eð saltið
skolast ekki lengur brott með flóðvatni.
Leitað hefur verið lausnar á vandanum og helzt kemur til greina að
reisa fleiri stíflur á milli Asvan og Kaíró til að bæta úr.
Í óshólmunum hefur dregið stórlega úr uppbyggingu lands.
Vegna skorts á náttúrulegum næringarefnum í árvatninu hafa
fiskveiðar í austanverðu Miðjarðarhafi minnkað.
Óstöðugt stjórnmálaástand fyrir botni Miðjarðarhafs er einnig
stöðugt áhyggjuefni.
Verði stíflan fyrir sprengjuárás, þurrkast menningarsvæði Egyptalands
út og þar með 98% þjóðarinnar.
Mynd: Agha Khan-grafhýsið.
Skoðunarverðir staðir:
**Abu Simbel, *Amada, *Kalabscha, *Kom Ombo, *Níl, **Philae og *Wadi
el-Sebua. |