Abu Simbel Egyptaland,
Flag of Egypt


ABU SIMBEL
EGYPTALAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Approaching Abu Simbel by boatAbu Simbel er bæði í Núbíu og Aswanhéraði.  Með flugi frá Kaíró til Aswan tekur ferðin u.þ.b. 5 tíma með skoðunarferð.  Verðið var DM 200.- árið 1991, innifalinn aðgangur að skoðunarstöðum.  Ætli fólk að gista í Hótel Nefertari (32 rúm), þarf að panta gistingu fyrir brottför.

Abu Simbel er u.þ.b. 280 km sunnan Aswan og 40 km norðan landamæra Súdan, rétt hjá þeim stað, þar sem voru flúðir nr. 2 í Níl.  Hofin í Abu Simbel teljast til stórkostlegustu minja fornaldar.  Ramses II lét reisa þau (1290-1224) og þau áttu að vera tilbúin fyrir 30 ára veldisafmæli hans.

Stóra hofið var helgað Amun-Re frá Þebu og Re-Harakte frá Heliopolis en þeir voru aðalguðir Efra- og Neðra-Egyptalands.  Einnig voru hofin helguð Ptah frá Memfis og faraónum sjálfum, því að hann var í guðatölu.

Minna hofið (norðar) var helgað gyðjunni Hator og uppáhaldseiginkonu Ramses II, Nefertari drottningu.

Ekki er ljóst, hvers vegna Ramses II valdi svona miklum byggingaframkvæmdum þennan stað.  Líklega voru þarna fyrrum hellahof eins og víða í Núbíu.  Með því að reisa sjálfum sér hof, fékkst endanleg viðurkenning á guðdómi faraóanna.  Með þessu bragði tryggði Ramses II sér yfirráð yfir Núbíu og auðæfum landsins, gull- og koparnámum.  Fjársjóðir Ramses II, sem hann hafði aflað sér í stríðum og dregið til sín frá landsmönnum, voru álitnir vel geymdir í djúpum hellum, gröfnum í bergið.

Í aldanna rás skráðu herir, kaupmenn, úlfaldalestir o.fl. fræðandi sögu í hleðslusteina hofanna.  Sót á veggjum, gólfum og loftum bendir til búsetu fólks í þeim um tíma.  Hofin hurfu síðan smám saman í sand og gleymdust til fyrstu ára 19. aldar.  Hinn 22. marz 1813 fann svissneski Austurlandafarinn, Ludwig Bruckhardt (1784-1817), höfuð hinna stóru styttna af Ramses II, en gat hvorki staðfest, hvers konar styttum þau tilheyrðu, né komizt inn í hofin.  Það var ekki fyrr en 1817, að Ítalinn, Giambattísta Belzoni (1778-1823), hóf skipulagðan uppgröft, sem gerði Abu Simbel að merkilegasta stað Egyptalands
.

Árið 1960 ógnaði bygging Aswanstíflunnar þessum merku minjum, því að þau áttu að hverfa undir vatn.  UNESCO skarst í leikinn og eftir mikla áætlanagerð voru hofin hlutuð í sundur og steinunum komið fyrir endanlegt vatnsyfirborð áður en þau voru sett saman á ný.  Stungið hafði verið upp á glerhvolfi yfir hofin undir vatnsborðinu og farkostum að þeim úr gleri en sá kostur þótti ekki fýsilegur.  Kostnaðinn við flutning hofanna, 36 milljónir US$, greiddu að jöfnu Egyptaland, BNA og UNESCO.  Þar sem hofin voru endurreist, var auðnin tóm.  Vegir voru lagðir og hótel fyrir 2000 gesti voru reist auk annarrar nauðsynlegrar þjónustu.

Vorið 1964, þegar fyrst var hægt að taka til hendi við flutninginn og endurbygginguna, hafði vatnsborðið stigið svo hátt, að byggja þurfti varnargarða umhverfis gömlu hofstæðin.  Hofin voru söguð niður í 1042 blokkir, sem vógu mest 20 tonn.  Þess var gætt við sögunina, að sem minnst bæri á samskeytum á nýja staðnum.  Blokkirnar voru merktar nákvæmlega, svo að auðvelt væri að raða þeim saman á ný.  Þær voru fluttar 65 m hærra og 180 metra frá upprunalegum stað.  Hæðarmunur hofanna vr 3,8 metrar en er nú 1,8 metrar vegna skipulagsbreytinga við gerð Asvanstíflunnar.  Ytri veggir og þök voru gerð úr járnbentri steinsteypu til styrktar hleðslum, sem komið var fyrir innan þeirra.  Efni, sem tapaðist við sögun var bætt með sementi og eyðimerkursandi.  Byggðir voru kúplar yfir bæði hofin til að gera mætti umhverfi þeirra sem náttúrulegast með því að raða utan um þau steinblokkum og klöppum.  Undir þessum ytri kúplum eru líka veitinga- og kvikmyndahús.  Verkinu lauk sumarið 1968.

Stóra hofið er 63 m djúpt og snýr í vestur/austur.  Geislar sólar skinu á goðin við bakvegginn í gegnum gluggaop 20. febrúar og 20. oktober ár hvert (önnur hvor dagsetningin var e.t.v. krýningardagur Ramses II) en eftir endurbygginguna einum degi seinna vegna skekkju.  Framan við 33 m háa forhliðina sitja fjórar 20 m háar styttur af Ramses II.  Andlit syðstu styttunnar er bezt varðveitt. Næsta stytta skemmdist, þegar í fornöld og efri hlutinn liggur við fótskör hennar.  E.t.v. skemmdu íbúarnir hana við öflun byggingarefnis eða jarðskjálfti, nema hvorttveggja sé.

Litla hofið var helgað gyðjunni Hator og guðlegri drottningu Ramses II, Nefertari.  Þetta hof stendur í norðvestur/suðaustur stefnu.  Forhliðin, sem höggvin var í klettinn, er 28 m löng.  Við hana standa 6 styttur, sem eru rúmlega 10 m háar, af Ramses II og Nefertari með prinsana Meri Atum, Meri-Re, Amun-her-Kopsef og Re-her-Unemef og prinsessurnar Merit-Amun og Hent-taui.  Á milli styttnanna eru veggjastúfar með hýróglífursáletrunum, sem mynda skot fyrir stytturnar.  Vegna þess hve steinninn er laus í sér, varð að múrhúða alla forhliðina og mála hana.  Efst uppi er óskreyttur reitur, þar sem átti e.t.v. að höggva út haus Hatorkýrinnar.  Lágmyndirnar eru sléttari og litdaufari en í stóra hofinu en eru þó ekki síður listrænar.  Eins og algengt er í hofum víða meðfram Níl, eru ófullgerðir salir í Abu Simbel.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM