Á 5. til 6. öld, og
líklega fyrr, bjó fólk af malæ-pólýnesískum uppruna á Kómoroseyjum.
Fólk af öðrum uppruna kom frá Afríku og Madagaskar og arabar gerðu sig
gildandi. Eyjarnar komust ekki á kort Evrópumanna fyrr en 1527, þegar
portúgalski kortagerðarmaðurinn Diego Ribero kom auga á þær. Fyrstu
Evrópumaðurinn, sem heimsótti þær var Englendingurinn James Lancaster
(1591) en arabar höfðu yfirráðin fram á 19. öld.
Árið 1843 lýstu
Frakkar yfir yfirráðum sínum á Mayotte og árið 1886 voru hinar þrjár
eyjarnar gerðar að verndarsvæði. Árið 1912 féllu eyjarnar undir
stjórnsýslu Madagaskar og þær urðu utanlandshérað Frakklands árið 1961
með fulltrúa á franska þinginu. Árið 1961, ári eftir sjálfstæði
Madagaskar, fengu Kómoroseyjar heimastjórn. Árið 1974 greiddu íbúar
þriggja eyjanna sjálfstæði þeirra allra atkvæði sín en meirihluti íbúa
Mayotte var hlynntur áframhaldandi, franskri stjórn. Þegar franska
þingið ákvað, að hver einstök eyja skyldi ákveða stöðu sína, lýsti Ahmed
Abdallah, forseti Kómoroseyja, þær sjálfstæðar 6. júlí 1975 (honum var
steypt af stóli ári síðar). Kómoroseyjar urðu aðili að Sameinuðu
þjóðunum, sem viðurkenndu íbúa allra eyjanna sem eina þjóð. Frakkar
viðurkenndu aðeins sjálfstæði þriggja eyjanna og héldu áfram að stjórna
Mayotte. Þeir losuðu takið á Mayotte árið 1976 en skildu ástandið eftir
í lausu lofti. Samband Kómoroseyja og Frakka versnaði og Frakkar hættu
allri þróunar- og tækniaðstoð. Ali Soilih varð forseti og reyndi að
gera ríkið að trúlausu, sósíalísku lýðveldi. Evrópskir málaliðar gerðu
hallarbyltingu í maí 1978 og komu Abdallah, fyrrum forseta í útlegð, til
valda.
Stjórnmálasamband
við Frakka var tekið upp að nýju, ný stjórnarskrá var samin og Abdallah
var endurkjörinn forseti síðla árs 1978 og var sjálfkjörinn 1984. Hann
stóð af sér þrjár hallarbyltingar en evrópskir málaliðar myrtu hann í
nóvember 1989. Franskar hersveitir ráku evrópsku málaliðana brott og
komu á fjölflokka forsetakosningum árið 1990. Said Mohamed Djohar var
kosinn forseti en var myrtur í hallarbyltingu sömu málaliðanna og myrtu
Abdallah. Frakkar komu aftur til skjalanna og kosningar voru haldnar
árið 1966.
Mohamed Abdoulkarim
Taki varð forseti, ný stjórnarskrá var staðfest og reynt var að draga úr
útgjöldum ríkisins og auka tekjur. Í ágúst 1997 voru aðskilnaðarsinnar
orðnir svo öflugir á eyjunum Nzwani og Mwali, að leiðtogar þeirra lýstu
þær sjálfstæðar og óhálðar lýðveldinu Kómoros. Næsta mánuðinn voru
gerðar tilraunir til að bæla hreyfingu aðskilnaðarsinna niður en
herdeildir, sem voru sendar til eyjarinnar Nzwani biðu algeran ósigur.
Sjálfstæði eyjanna tveggja var ekki skipulagt annars staðar en á
ópólitískan hátt á eyjunum sjálfum og frekari tilraunir alþjóðasamtaka
til að miðla málum báru ekki árangur.
Mohamed Taki forseti dó skyndilega í nóvember 1998 og Tadjiddine Ben
Said Massounde var settur bráðabirgðaforseti. Stjórnarskráin gerði ráð
fyrir nýjum kosningum en áður en þær voru haldnar, var
bráðabirgðaforsetanum steypt af stóli í apríl 1999 í hallarbyltingu
hersins undir stjórn formanns herráðsins, Assoumani Azzali, sem tók
völdin. Nýja ríkisstjórnin fékk ekki alþjóðlega viðurkenningu en í júlí
tókst Azzali að komast að málamiðlun við aðskilnaðarsinna á Nzwani.
Þeir undirrituðu samning, sem Afríkusambandið hafði stungið upp á og
fyrri stjórn Kómoros og fulltrúar Mwali höfðu undirritað. Samkomulagið
gerði ráð fyrir forsetar landsins skyldu kosnir til þriggja ára í senn
og embættið skyldi deilast milli eyjanna. |