Chad sagan,
Flag of Chad


CHAD
SAGAN
.

.

Utanríkisrnt.

 

Svæðið í Austur-Sahara og Súdan frá Fezzan, Bilma og Chad í vestri að Nílardalnum í austri var nokkuð þéttbýlt á steinöld samkvæmt fornleifum, sem hafa fundizt.  Talið er, að fyrstu íbúarnir hafi verið svartir hellisbúar, sem bjuggu sunnan Fezzan, ef marka má frásögn Heródusar.  Mannfræðingar álíta, að síðar hafi hirðingjar og hvítir arabar komið til skjalanna að norðan um Fezzan og Tibesti og eftir 1400 frá Nílardalnum um Darfur.  Þjóðsagan segir, að svertingjar af sao-kyni hafi búið við Chad-vatn.  Þessi horfni kynstofn á sér líklega afkomendur í kotoko-fólkinu.  Miðaldaminjar, brenndar leir- og bronsminjar, um það fundust á bökkum Logone og Chari árið 1950.

Tiltölulega stór og stjórnmálalega þróuð konungsríki í Mið-Súdan má rekja til Saharaberba, sem fluttust suður á bóginn í stöðugri leit að bithögum.  Svertingjar á þeim slóðum stunduðu landbúnað og viðurkenndu fljótlega yfirráð berbanna.  Eftir að islam fór að breiðast út, urðu þessi áhrif meira áberandi.  Merki hafa fundizt um mikið aðstreymi heiðinna berba í Suður-Súdan snemma á 8. öld.

16. -19. öld.  Voldugasta konungsríkið á þessum slóðum, Kanem-Bornu, sem reis hæst síðla á 16. öld, átti verzlunarleiðinni yfir Sahara til Tripoli velmegun sína að þakka.  Islömsk menning leiddi til dreifingar hóps fólks fra Kanem og stofnunar konungsríkjanna Bagirmi og
Ouaddaï á 17. öld.  Á 18. öld brauzt höfðingjaættin í Ouaddaï undan yfirráðum Darfur og vinna land í Austur-Kanem.  Þrælaverzlun á kostnað heiðins andatrúarfólks í suðri var ein meginstoða velmegunar þessara múslimaríkja.  Á 19. öld hnignaði þeim ört í stríðum og innbyrðis valdaátökum.  Á árunum 1883-93 féllu þau fyrir súdanska ævintýramanninum Rabih az-Zubayr.

20. öldin.  Skipting Afríku milli evrópsku nýlenduveldanna var á lokastigi.  Rabih var velt úr sessi árið 1900 og Frakkar komu fyrri höfðingjaætt aftur til valda.  Chad varð hluti Frönsku Miðbaugs-Afríku árið 1910.  Frökkum tókst ekki að koma á fullum friði á þessu svæði fyrr en 1914 og milli heimsstyrjaldanna urðu framfarir litlar.  Frakkar sömdu um, að Ítalar fengju Aozou-svæðið en samningurinn var ekki staðfestur í franska þinginu.  Þá sáu Líbýjumenn sér leik á borði og lögðu það undir sig 1973.  Í síðari heimsstyrjöldinni studdi Chad Frjálsa Frakka.  Að henni lokinni (1945) fékk Chad sömu réttindi og Franska Miðbaugs-Afríka.  Árið 1946 varð landið að utanlandshéraði Frakklands.

Sjálfstæði.  Árið 1957 fengu Chadbúar aukið frelsi samkvæmt stjórnarskrárlögum.  Þá var fyrsta ríkisstjórnin stofnuð undir forystu Gabriel Lisetta, sem var frá Vestur-Indíum og formaður Framsóknarflokks Chad (PPT).  Í nóvember 1960 fékk landið fulla heimastjórn og 11. ágúst 1960 fékk það fullt sjálfstæði.  Spenna milli svartra, sumpart kristinna, í stöndugri suðvesturhlutanum og hvítra, íhaldsamra múslimaleiðtoga í norðurhlutanum ógnuðu stöðugleikanum og ekki bættu afskipti Líbýjumanna úr skák.

N’Garta (François) Tombalbaye, verkalýðsleiðtogi frá suðurhlutanum, sem hugnaðist stjórnarandstæðingum betur, tók við af Lisette og varð fyrsti forseti lýðveldisins.  Í marz 1961 stuðlaði hann að sameiningu Framsóknarflokksins og Afríska þjóðarflokksins (PNA), helzta flokks stjórnarandstöðunnar, um framfarir í Chad.  Talið er, að samsæri múslima hafi leitt til upplausnar þjóðþingsins 1963 og handtöku helztu ráðherra tengdum PNA.  Í kosningum sama ár voru einungis stjórnarsinnar í framboði og eins flokks kerfi tók við.

Borgarastríð.  Um miðjan sjöunda áratuginn fóru skæruliðasamtök að láta til sín taka.  „Frolinat” (Front for the National Liberation) voru stofnuð 1966 og herjuðu aðallega á norðurhluta landsins frá aðalstöðvum sínum í al-Kufrah-vininni í Líbýju en FNT- samtökin um miðbik austurhlutans.  Bæði samtökin stefndu að því að steypa stjórninni, draga úr frönskum áhrifum og nánara sambandi við arabaríkin í Norður-Afríku.  Mikilir bardagar urðu árin 1969 og 1970 og franskar hersveitir voru fluttar til landsins til að bæla uppreisnirnar niður.

Í lok áttunda áratugarins voru þessi átök ekki lengur á milli múslima í norðurhlutanum og svartra íbúa suðurhlutans, fremur milli pólitískra hreyfinga í norðurhlutanum.  Lýbýskar hersveitir komu til skjalanna að beiðni Goukouni Queddei forseta í desember 1980 en aðgerðir þeirra voru stöðvaðar í nóvember 1981 í trássi við fyrirmæli hans.  Hersveitir Norðurhlutans (FAN; Hissen Habré), sem höfðu hörfað inn í Súdan í desember 1980, notuðu tækifærið og hernámu á ný mikilvægar borgir í Austur-Chad í nóvember 1981.  Friðargæzlusveitir Afríska bandalagsins hurfu á braut árið 1982 og Habré myndaði nýja stjórn í október sama ár.  Samtímis stofnaði Goukouni andspyrnuhreyfingu í Bardai í norðurhlutanum með stuðningi Líbýjuhers.  Eftir mikla bardaga árin 1983-84 hélt Habré velli með stuðningi franskra hersveita.  Frakkar kölluðu hersveitir sínar heim 1984 en Líbýjustjórn neitaði að gera hið sama og beindi herjum sínum lengra inn í Chad árið 1986.  Her Chad fékk aðstoð BNA og Frakka til að hrekja Líbýjuher brott
.

Snemma næsta ár náði her Habrés svæðum í norðurhlutanum úr höndum Líbýjumanna og vininni Aozou eftir nokkurra vikna bardaga.  Þegar líbýski herinn náði henni á sitt vald undir stjórn Muammar al-Qaddafis, hefndi Habré með ránum í Maaten es Sarra, langt inni í Líbýju.  Samið var um vopnahle í september 1987.  Stjórn Habrés varð stöðugt að verja stjórn sína.  Í apríl 1989 var gerð misheppnuð hallarbylting undir forystu innanríkisráðherrans Brahim Mahamot Itno og tveggja hernaðarráðgjafa, Hassan Djamouss og Idriss Déby.  Itno var handtekinn og Djamouss var drepinn en Déby slap og hóf skæruhernað ári síðar.  Seint á tíunda áratugnum réði her hans Abéché og 1. desember flúðu Habré til Kamerún.  Déby afnam stjórnarskrána, myndaði nýja stjórn og gerðist forseti.  Hann neitaði að hafa fengið vopn frá Líbýju og lofaði að koma fjölflokkalýðræði á fót í landinu.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM