Búrúndí sagan,
Flag of Burundi


BÚRÚNDÍ
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

 

Konungsdæmið Búrúndí er hulið móðu þjóðsagna.  Ein þeirra segir Ntare Rushatsi, forföður upprunalegu höfðingjaættarinnar, hafi komið frá Rwanda á 17. öld.  Líklegra þykir, að hann megi rekja til Buha og hafi lagt grunn að konungsdæminu í Nkoma.

Tengslin við fortíðina voru rofin árið 1966, þegar konungsdæmið var afnumið.  Einveldið, sem kom í kjölfar sjálfstæðisins frá Belgum 1962, var ólíkt beinstýrðu konungsdæminu á dögum þýzkra yfirráða eftir 1903.

Belgar gátu lítið gert til að draga úr spennunni milli höfðingjaættanna tveggja, Bezi og Batare.  Í kosningunum 1961 unnu fulltrúar hinnar ráðandi Bezi-ættar stórsigur.  Fremstur í flokki hennar, UPRONA, var þá Rwagasore, elzti sonur Mwambutsa konungs.  Morð hans 13. október 1961, olli mikilli stjórnarkreppu, sem þjóðin var lengi að jafna sig á.

Mestu breytingar þjóðfélagsins urðu, þegar hópur liðsforingja af hutu-kyni gerði misheppnaða tilraun til að steypa konungnum, sem varð samt svo hræddur, að hann flúði land.  Þá var þegar ljóst, að honum var ofvaxið að miðla málum í deilum hutu- og tutsi-manna.  Tutsimaður myrti Pierre Ngedeandumwe, forsætisráðherra hutumanna, 15. janúar 1965.  Aðalástæðan til misheppnaðrar hallarbyltingar var ákvörðun Mwambutsa að hunza niðurstöður kosninganna 1965, þar sem hutumenn fengu 23 af 33 þingmönnum kjörna.  Hann skipaði einkaritara sinn, Léopold Biha, forsætisráðherra og gaf þar með greinilega til kynna, að völdin yrðu áfram í höndum konungs.

Þessari misheppnuðu tilraun til valdaráns fylgdi flókið atburðaferli og 34 hutuliðsforingjar voru líflátnir í fyrstu lotu aðgerða tutsimanna til að ná yfirburðastöðu í stjórn landsins.  Næsta lota fylgdi skipun Michel Micombero í forsætisráðherraembættið í júlí 1965.  Hann var tutsi-hima frá Bururi-héraði og hafði leikið aðalhlutverkið í því að aftýra byltingunni 1965 auk þess að skipuleggja aðgerðir gegn hutumönnum á landsbyggðinni.  Þriðja lotan tendist formlegu afnámi konungsveldisins í nóvember 1966, tæplega þremur mánuðum eftir að Charles Ndizeye, prins og sonur Mwambutsa, tók við völdum af föður sínum.  Eftir að þessum síðasta þröskuldi hafði verið rutt úr leið tutsimanna til forystu í landinu, var lýst yfir stofnun fyrsta lýðveldisins.

Stærsti skugginn, sem hvílir yfir fyrsta lýðveldinu, er þjóðarmorð tutsimanna á hutumönnum í apríl og maí 1972.  Blóðbaðið kostaði u.þ.b. 5% íbúa landsins lífið og langflestir menntamenn meðal hutumanna voru drepnir.  Talið er, að 100.000-150.000 hutumenn hafi verið drepnir í uppreisnar, sem þeir efndu til vegna kúgunar tutsimanna.  Auk þess að breikka hyldýpisgjá haturs á báða bóga, ollu þessir atburðir mikilli spennu meðal minnihluta tutsimanna og valdasviptingu Micombera árið 1976, sem leiddi til stofnunar annars lýðveldisins með Jean-Baptiste Bagaza í embætti forseta.  Hann var tutsimaður frá sama héraði og Micombero og einbeitti sér að eflingu UPRONA.  Samtímis gerðu stjórnvöld allt, sem þau gátu, til að ná stjórn á katólsku kirkjunni í landinu.

Kreppan í samskiptum ríkis og kirkju var afgerandi þáttur í ákvörðun Pierre Buyoya majórs að afnema lýðræðið í sept. 1987 og lýsa yfir stofnun þriðja lýðveldisins.  Undir stjórn hans sem forseta var 30 manna herstjórn.  Hinn ráðandi stjórnarflokkur, UPRONA, byggðist að langmestu leyti á félögum úr röðum tutsimanna.  Þessi hallarbylting gerði lítið annað en að einn hópur tutsimanna var rekinn úr valdastöðum og annar kom í staðinn.  Nýju valdhafarnir lýstu yfir stefnubreytingu í samskiptum ríkis og kirkju og þóttust ætla að taka á deilumálum tutsi- og hutumanna.  Efndirnar komu ekki í kjölfar loforðanna, þótt hutumenn hefðu fyllzt bjartsýni, og tutsimenn héldu embættum sínum um land allt.  Þessi svik ollu blóðbaðinu í ágúst 1988.

Áreiðanlegar áætlanir um mannfall í þessum vígaferlum voru í kringum 20.000 í Ntega og Marangara í norðurhlutanum, langflestir af hutukyni.  Líkt og í blóðbaðinu 1972 risu hutumenn upp gegn kúgun og ögrunum embættismanna tutsimanna.  Hið óvænta gerðist, að Buyoya, forseti, reyndi að bera klæði á sverðin.  Yfirvöld í Bujumbura gerðu sér loks grein fyrir þessu gríðarlega vandamáli og nauðsyn þess að finna lausn á því.  Tilraunir höfðu verið gerðar til að koma á jöfnuði í úthlutun embætta til beggja kynþáttanna og nefnd var sett á fót til að finna leiðir til að efla einingu þjóðarinnar.

Þessi framfarasinnaða stefna Buyoya leiddi til lögleiðingar nýrrar stjórnarskrár í marz 1992.  Hún bannaði stjórnmálahreyfingar, sem byggðust á skiptingu kynþátta eða ofbeldi og tiltók, að þær yrðu að byggjast á aðild tutsi- og hutumanna, sem hefðu jafnan rétt til framboðs og embætta.  Fyrstu frjálsu og lýðræðislegu kosningarnar komu í kjölfarið og Merchior Ndadaye, hutumaður, var kjörinn forseti.  Hann tilkynnti uppgjöf saka fjölda fanga, sem sátu í fangelsi af stjórnmálaástæðum, og skipaði ríkisstjórn á jafnræðisgrundvelli og hutukonu, Sylvie Kinigi, sem forsætisráðherra.

Ndadaye var drepinn í tilraun til hallarbyltingar í október 1993 og blóðug átök milli tutsi- og hutumanna hófust á ný.  Talið er, að 200.000 tutsimenn hafi verið drepnir í þessum hefndaraðgerðum.  Á meðan á þessum vígum stóð, kepptu stjórnarliðar Ndadaye og byltingarmenn um völdin.  Stærstu stjórnmálaflokkarnir völdu loks hutumanninn Cyprien Ntaryamira í embætti forseta.  Hann tók við völdum í febrúar 1994 en fórst tveimur mánuðum síðar í flugslysi í grennd við flugvöllinn í Kigali í Rwanda (Juvélnal Habyarimana, forseti Rwanda var einnig í flugvélinni).  Bardagar í landinu mögnuðust og hundruð létu lífið í viðbót.  Áskoranir frá Sameinuðu þjóðunum urðu til þess, að útgöngubanni var beitt um nætur.  Í sept. 1994 var komizt að málamiðlun um blandaða ríkisstjórn með hutumanninn Sylvestre Ntibantunganya í fararbroddi.  Á tveggja ára valdaferli þessarar stjórnar linnti bardögum ekki um allt land.

Í júlí 1996 kom herinn Pierre Buyoya aftur til valda.  Þessi bylting olli miklum mótmælum innanlands sem utan og viðskiptaþvingunum.  Fjöldi ríkja hafði ekki viðurkennt stjórn Buyoya í lok áratugarins.  Viðskiptaþvingununum linnti árið 1997 og hafnbanni árið 1999.  Friðarviðræður milli deiluaðila, sem hófust 1995 að frumkvæði Julius Nyerere, forseta Tansaníu, héldu áfram.  Að honum látnum í lok árs 1999, tók Sir Ketumile Masire, forseti Botswana, við milligöngu.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM