Í norðurhluta
landsins hafa fundizt axir frá steinöld. Kynþættir bobo-, lobi- og
gurunsifólksins voru líklega fyrstu íbúar þessa svæðis. Á 15. öld komu
stríðsmenn á hestum úr suðri og réðust á konungsríkin Gurma og Mossi.
Mörg mismunandi stór konungsríki þróuðust í Mossi. Hið voldugasta var
Ouagadougou á miðju svæðinu. Því stjórnaði keisari, morho naba (mikli
höfðingi). Það sigraði innrásarheri nágrannaríkja múslima (songhai og
Fulani) og hélt uppi arðvænlegum viðskiptasamböndum við öflug
verzlunarveldi í Vestur-Afríku (dyula, hausa og asanti).
Landkönnun
Evrópumanna og nýlenduvæðing.
Þýzki landkönnuðurinn Gottlob Adolf Krause ferðaðist um Mossi árið 1886
og franski herforinginn Louis-Gustave Binger heimsótti morho naba árið
1888. Frakkar gerðu Yatenga að verndarsvæði árið 1895 og Paul Voulet og
Charles-Paul-Louis Chanoine sigraði keisarann Boukani-Koutou (Wobogo)
árið 1896 og hélt áfram herförinni inn í lönd gurunsi-manna. Gurma
féllst á að verða verndarsvæði 1897 og sama ár innlimuðu Frakkar lönd
bobo- og lobi-manna. Lobo-menn héldu skæruhernaði áfram gegn þeim með
eitruðum örvum til ársins 1903. Á Ensk-frönsku ráðstefnunni 1898 voru
mörkin milli yfirráðasvæða Frakka og Breta ákveðin.
Frakkar skiptu
yfirráðasvæði sínu í stjórnsýslueiningar en létu höfðingjana og
keisarann halda stöðum sínum. Í fyrstu var nýlendan annexía Súdan (Efra-Senegal-Niger
1904-20) en varð síðan sérnýlenda, Efra-Volta (Haute-Volta) 1919. Árið
1932 var henni skipt milli Fílabeinsstrandarinnar, Niger og
Franska-Súdan. Árið 1947 var Efra-Volta endurreist sem utanlandshérað
með eigið þing, sem fékk réttindi til að kjósa framkvæmdaráð. Í lok árs
1958 varð Burkina Faso heimastjórnarsvæði með eigið þing og stjórn.
Þegar landið fékk sjálfstæði 5. ágúst 1960, kvað stjórnarskrá þess á um
forseta með framkvæmdavald, sem skyldi kosinn í almennum kosningum til
fimm ára, og kjörið löggjafarþing.
Eftir að landið fékk
sjálfstæði hefur herinn orðið að hafa afskipti af innanlandsmálum. Árið
1966 setti herinn undir stjórn Sangoulé Lamizana, liðsforingja (síðar
hershöfðingi), löglega kosna stjórn Maurice Yaméogo af. Lamizana
hershöfðingi sat að völdum fram í nóvember 1980, þegar verkamenn,
kennarar og opinberir starfsmenn efndu til fjölda verkfalla, sem leiddu
til hallarbyltingar Save Zebo ofursta. Stjórn hans var skammvinn (til
nóvember 1982), því liðsforingjar gerðu uppreisn gegn honum og gerðu
Jean-Baptiste Ouedraogo, majór, að forseta. Stjórn hans klofnaði
fljótlega í íhaldsama og róttæka arma og róttæklingar hrifsuðu til sín
völdin 4. ágúst 1983. Þeir komu á fót byltingarráði (CNR) með og gerðu
Thomas Sankara, höfuðsmann, að forseta.
Ári eftir
valdatökuna skírði Sankara landið Burkina Faso (Land hinnar óspilltu
þjóðar) og skipaði embættismönnum að opna bankareikninga, sem
almenningur gæti fylgst með. Stjórn hans þraukaði til 1987 og tókst að
láta margt gott af sér leiða, s.s. bólusetningar, félagslegt íbúðakerfi,
gróðursetningu trjáa til að hindra landeyðingu (Sahel), aukin
kvenréttindi og takmörkun sóunar almannafjár. Í valdatíð hans jukust
deilur við Mali vegna auðæfa í jörðu á Agacher-ræmunni og þar var barizt
við landamærin um skamma hríð í desember 1985.
Stjórn Sankara
tapaði smám saman fylgi og völdin færðust til nokkurra herforingja (Sankara,
Blaise Compaaoré, höfuðsmaður, Jean-Baptiste Boukari Lingani, majór, og
Henri Zongo, höfuðsmaður). Borgarbúar mótmæltu slæmum lífskjörum og
hluti bænda illa grunduðum framfaraáætlunum. Vinstri menn sökuðu
stjórnina um undanlátsemi við heimsvaldasinna til að tryggja landinu
erlenda fjárhagsaðstoð. Þrátt fyrir stirð samskipti BNA og Burkina Faso
vegna náins sambands Sankara og Muammar al-Qaddafi, Líbýjuforseta, voru
Bandaríkjamenn orðnir mestu styrkveitendur landsins í lok valdaferils
Sankara. Stuðingur almennings og hersins við stjórnina, þar til herinn
velti henni úr sessi 15. október 1987 og tók Sankara og átta aðra af
lífi.
Compaoré tók við
völdum ásamt Zongo, höfuðsmanni, og Lingani, majór. Þeir kölluðu sig
Þjóðarfrontinn og lofuðu að uppfylla upprunaleg byltingarloforð Sankara.
Þeir lögðu sig fram um að gera landsmenn sjálfum sér nóga í framleiðslu
matvæla og bættu samskipti við íhaldsamari nágrannaríki, einkum Tógó og
Fílabeinsströndina. Vináttusamband hélzt við Líbýju. |