Burkina Faso íbúarnir,
Flag of Burkina Faso


BURKINA FASO
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

 

Íbúarnir dreifast ójafnt um landið.  Mossi-svæðið í miðhluta landsins er þéttbýlt (u.þ.b. tveir þriðjungar íbúanna).  Annars staðar er mun strjálbýlla.  Flestir íbúanna (90%) búa í þéttbýli.  Fjöldi þorpa er í kringum 7700 og flest þeirra eru í hæðunum upp af Voltafljótinu.  Nokkurra km breitt svæði upp með fljótinu beggja vegna er að mestu óbyggt vegna hinnar banvænu tsetse-flugu, sem ber með sér svefnsýki, og simulium-flugunnar, sem veldur blindu (onchocerciasis).

Ouagadougou, stjórnsýslusetur landsins, er nútímaborg og aðalsetur margra fyrirtækja.  Borgin er einnig setur morho naba (hins mikla kóngs) og mikilvæg miðstöð alþjóðlegra hjálparstofnana.  Aðrar helztu borgir landsins eru Bobo Dioulasso, Koudougou, Ouahigouya, Kaya, Fada Ngourma og Banfora.  Bobo Dioulasso í vesturhlutanum varð miðstöð efnahagsmála og viðskipta, þegar hún tengdist járnbrautinni til Abidjan á Fílabeinsströndinni.  Eftir að brautin var lögð alla leið til Ougadougou árið 1955, hafa þessi hlutföll breytzt, þótt viðskiptalegt mikilvægi hennar hafi haldizt.

Íbúarnir skiptast aðallega í tvo meginþjóðflokka, Volta (Gur; 5 undirættflokkar: Mossi (Guma og Yarse, Gurunsi, Senufo, Bobo og Lobi) og Mande, sem skiptist í Samo, Marka, Busansi og Dyula.  Auk þeirra búa þarna Hausa (kaupmenn), Fulani (hjarðmenn) og Tuareg (Bella), þjónar þeirra.  Hver þessara ættkvísla talar eigin tungu, þótt Moré-málið, sem Mossifólkið talar sé útbreiddast, og Dyula- og Hausamálin eru mikið notuð í viðskiptum.  Franska er opinbert tungumál landsmanna og er notuð í öllum milliríkjaviðskiptum.

Næstum helmingur íbúanna er andatrúar og byggir trú sína mikið á öndum forfeðranna.  Næstum fimmtungur íbúanna játar islam, sem hefur sívaxandi áhrif á siði og hefðir landsmanna.  Setur rómversks-katólsks erkibiskups er í Ouagadougou og landinu er skipt í 8 biskupsdæmi.  Mótmælendur eru fáir í landinu.  Síðla á 20. öldinni nam mannfjölgunin rúmlega 2% og næstum helmingur íbúanna var yngri en 15 ára.  Meðallífslíkur kvenna er 47 ár og karla 44 ár.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM