Bobo Dioulasso Burkina Faso,
Flag of Burkina Faso


BOBO DIOULASSO
BURKINA FASO

.

.

Utanríkisrnt.

 

Bobo Dioulasso er borg í suðvesturhluta Burkina Faso (fyrrum Efri-Volta).  Borgin er talin rekja sögu sína allt til 15. aldar, þegar íbúarnir elduðu grátt silfur við Kong-fólkið í suðri, sem lagði hana undir sig á 18. öld (Famara Wattara prins) og gerði hana að höfuðborg Gwiriko.  Á 19. öld leystist veldi Kong upp, uppreisnir og óeirðir geisuðu og Bobo Dioulasso féll Frökkum í hendur 1897.  Hún er næststærsta borg landsins og aðalmiðstöð iðnaðar (reiðhjólaverksmiðja, vindlingar, baðmullarvinnsla og matvælaframleiðsla).  Verzlun með handunna muni úr fílabeini, bronsi og járni og hefðbundna skartgripi er efnahagslega mikilvæg.  Mikil verzlun fer fram á stórum ávaxta- og grænmetismarkaði.  Borgin er miðstöð samgangna.  Frá henni liggja vegir til allra átta og hún er áfangi á járnbrautarleiðinni milli Abidjan, höfuðborgar Fílabeinsstrandarinnar, og Ouagadougou, höfuðborgar Burkina Faso.  Lítið eitt vestan borgarinnar er millilandaflugvöllurinn Borgo.  Bobo Dioulasso er miðstöð islam og þar er mikil moska úr leir og tréstaurum.  Þarna er háskóli, sem leggur áherzlu á hagfræði og félagsfræði, og rannsóknarstofur tengdar jarðfræði og námugreftri og baðmullarvefnaði.  Áætlaður íbúafjöldi 1985 var tæplega 229 þúsund.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM