Benín sagan,
Flag of Benin


BENÍN
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

 

Benín varð til sem pólitísk eining, þegar Frakkar gerðu þetta landsvæði að nýlendu í lok 19. aldar.  Fyrir nýlendutímann náði það yfir fjölda sjálfstæðra eininga með mismunandi menningu og tungu.  Í suðurhlutanum bjó aðallega ewe-mælandi fólk, sem rakti ættir sínar til Tado-borgar (Togo).  Á 16. og 17. öld var konungsríkið Allada voldugast en á 18. og 19. öld varð það á valdi Dahomey.  Í norðurhlutanum var  baribafólkið fjölmennast og konungsríkið Nikki voldugast.  Það var í bandalagi við fleiri ríki bariba í núverandi Nígeríu.  Sombafólkið í norðvesturhlutanum kom sér ekki upp konungsríki.

Þrælaverzlunin.  Portúgalar voru fyrstir til að kynna sér strönd Benín árið 1472 en hófu ekki verzlun þar fyrr en 1553.  Á 17. öld komu hollenzkir, enskir, franskir og aðrir evrópskir kaupmenn til skjalanna.  Aðalútflutningsvaran til miðrar 19. aldar var þrælar.  Þrælaverzlunin byrjaði í litlum mæli en jókst hratt á síðari hluta 17. aldar, þegar þessi heimshluti fékk nafnið „Þrælaströndin”, allt fram á fimmta áratug 19. aldar.  Aðalmiðstöð þessarar verzlunar var strandkonungsríkið Quidah (Whydah), sem var upprunalega sambandsríki Allada en varð sjálfstætt upp úr 1680.  Þrælarnir voru í langflestum tilfellum stríðsfangar frá öllum hornum núverandi Benín.  Þrælaflutningarnir yfir Atlantahafið höfðu mjög skaðvænleg áhrif í Benín, mikla fækkun íbúa á ákveðnum svæðum og vígbúnað þeirra, sem eftir voru.  Enn þá finnast merki hefða og siða fólksins frá þessum slóðum í nýja heiminum handan hafsins, einkum vúdúmenningin á Haítí, sem felur í sér marga andatrúarhópa og guði ewe-mælandi Benínbúa.

Konungsríkið Dahomey (einnig Abomey eftir höfuðborginni) var ríki fonfólksins.  Upprunalega var það hluti af Allada en á 17. öld lýsti einn höfðingjanna, Wegbaja, sig konung og Dahomey sjálfstætt ríki.  Í valdatíð Agaja konungs (1708?-40) náðu Dahomeybúar undir sig strandhéruðunum, Allada árið 1724 og verzlunarstaðinn Quidah árið 1727 og urðu voldugastir á Benínsvæðinu.  Hluti konungsfjölskyldunnar í Allada stofnaði nýtt konungsríki, Porto-Novo, á austurströndinni.  Íbúar þess gátu varizt atgangi Dahomey og kepptu við Quidah um yfirráðin yfir Atlantshafsverzluninni.  Konungsríkið Oyo í norðaustri (nú Nígería) réðist á Dahomey og gerði það að skattlandi eftir 1730.  Veldi Dahomey var mest í tímum Gezo konungs (1818-58) og Glélé (1858-89).  Gezo brauzt undan yfirráðum Oyo með sigri í stríði 1823.  Tilraunir til landvinninga í austurátt strönduðu á hinu volduga ríki Abeokuta (í Nígeríu), sem stóðst árásir Dahomeybúa 1851 og 1864.

Dahomey var herveldi harðstjóra.  Veldi þess byggðist á velþjálfuðum fastaher með herdeild eiginkvenna konungsins, sem Evrópumenn kölluðu „Amasónur”.  Veldi konunganna byggðist á andatrúarklíku, sem dýrkaði látna konunga og iðkaði mannfórnir einu sinni á ári.  Konungunum tókst að gera ólík samfélög, sem þeir lögðu undir sig, að þjóðarheild fonfólksins.  Á 18. og 19. öld var Dahomey aðaluppspretta þrælaframboðsins en um miðja 19. öld dró úr því.  Árið 1852 neyddi brezk flotadeild Gezo til undirrita samning um afnám þrælaverzlunarinnar, sem hélt engu að síður áfram.  Á fimmta áratugi 19. aldar lét hann þræla á plantekrum sínum framleiða pálmaolíu til útflutnings til að vega á móti minnkandi þrælasölu.

Franski nýlendutíminn
.  Á sautjándu öldinni tóku allmörg Evrópuríki þátt í þrælaverzluninni og höfðu miðstöðvar í Dahomey.  Á 18. öldinni byggðu Bretar, Frakkar og Portúgalar varnarvirki í Quidah.  Frakkar voru fyrstir til að koma sér upp aðstöðu í Allada árið 1670 en fluttust þaðan til Quidah næsta ár og árið 1704 byggðu þeir virkið Saint Louis þar.  Evrópsku virkin í Quidah voru yfirgefin í lok 18. aldar (Frakkar fóru 1797).

Árið 1842 komu Frakkar aftur til Quidah og notuðu virkið sem miðstöð viðskipta með pálmaolíu og árið 1851 undirritaði franska stjórnin viðskiptasamning við Gezo, konung Dahomey.  Ótti Frakka við frumkvæði Breta í nýlendumálum leiddi til aukinna áhrifa þeirra á þessu svæði.  Konungsríkið Porto-Novo var gert að verndarsvæði um skeið (1863-65) og síðan ótímabundið frá 1882.  Samningar milli Quidah og Porto-Novo um afsal hafnarinnar í Cotonou voru gerðir við yfirvöld í Dahomey árið 1868 og 1878, þótt yfirráð yfir Cotonou væru ekki tryggð fyrr en 1690.  Behanzin konungur, sem tók við völdum í Dahomey 1889, féllst ekki á kröfu Frakka til Cotonou.  Þessi afstaða leiddi til innrásar Frakka og sigurs yfir Dahomey á árunum 1892-94.  Behanzin var velt úr sessi og sendur í útlegð og Dahomey varð að frönsku verndarsvæði.

Tilraunir Frakka til frekari landvinninga inni í landi leiddu til árekstra við Breta á svæðum, sem eru núverandi Nígería, og samninga milli þjóðanna um vernd konungsríkisins Nikki árið 1894.  Á ensk-frönsku ráðstefnunni árið 1898 voru landamærin milli yfirráðasvæða þjóðanna dregin og Frakkar fengu Nikki.  Landamærin að þýzku nýlendunni Tógó í vestri voru dregin á fransk-þýzku ráðstefnunum árin 1885- og 1899.  Núverandi landamæri Benin voru ákveðin árið 1909, þegar mörkin milli Benin, Efri-Volta og Níger voru aflögð, enda undir yfirráðum Frakka.  Í fyrstu var nýlendan kölluð Benin eftir Beninflóa en ekki fyrrum konungsríkinu Benin, sem er í núverandi Nígeríu, en árið 1894 fékk hún nafnið Dahomey.  Hún var hluti af bandalagi Frönsku Vestur-Afríku, sem var undir stjórn aðallandstjórans í Senegal.  Afkomendur portúgalskra landnema, frelsingjar frá portúgölsku nýlendunum í Suður-Ameríku og trúboðar flýttu fyrir framgangi kristninnar og vestrænnar menntunar í suðurhlutanum en ekki í islömskum norðurhlutanum.  Í kringum 1950 var Dahomey kallað Latneska hverfið í Frönsku Vestur-Afríku.

Leiðin til sjálfstæðis.  Árið 1946 varð Dahomey að utanlandshéraði í Frakklandi og árið 1959 fékk landið heimastjórn.  Hinn 1. ágúst 1960 fékk landið fullt sjálfstæði.  Á þessari 16 ára leið til sjálfstæðis klofnaði frelsishreyfing þjóðernissinna í Dahomey og þrír svæðisbundnir stjórnmálaflokkar mynduðust undir forystu Sourou-Migan Apithy (forseti 1964-65), Justin Ahomadégbé (1972) og Hubert Maga (1960-63 og 1970-72).  Þessir flokkar byggðust á stuðningi frá Porto-Novo, Abomey og norðurhlutanum.  Eftir að sjálfstæði var fengið leiddi efnahagavandinn, sem var mestur pólitískra vandamála þess tíma, til óeirða meðal stúdenta og verkamanna.  Þessi óstöðugleiki leiddi til sex hallarbyltinga hersins á árunum 1963-72 og herstjórn 1965-68 og 1969-70.  Í síðustu byltingunni 26. október 1972 tók Mathieu Kérékou, major (síðar hershöfðingi), völdin.  Eftir 1974 tók hann upp marz-leníníska stefnu í efnahagsmálum með þjóðnýtingu fyrirtækja o.þ.h.

Síðla á níunda áratugnum og fyrri part hins tíunda var ófriðlegt í landinu.  Árið 1989 lýsti Kérékou því yfir, að marz-lenínismi skyldi afnuminn og stefnan var tekin á lýðræði.  Kérékou féll í almennum, fjölflokka kosningum árið 1991 og við tók Nicéphore Soglo forseti.  Eins og efnahagsmálum var háttað og hve ríkisstjórnir stóðu höllum fæti í landinu, var ekki líklegt, að ný stjórnarskrá og ný ríkisstjórn yrðu langlífar.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM