Benín land og þjóð,
Flag of Benin


BENÍN
LAND og ÞJÓÐ
.

.

Utanríkisrnt.

 

Suðurhéruð landsins ná yfir u.þ.b. fjórðung þess en þar búa rúmlega tveir þriðjungar landsmanna.  Margir búa í þéttbýlinu kringum höfnina í Cotonou, sem er aðalviðskiptaborgin og miðstöð stjórnsýslu, og Porto-Novo, sem er opinber höfuðborg landsins.  Fólkið stundar aðalleg sjálfsþurftarbúskap og ræktar m.a. maís, kassava og kartöflur (yams) í útjaðri borganna.  Olíupálmar eru ræktaðir á Barre-svæðinu og á Benínsléttunum og afurðir þeirra eru fluttar út en þar er einnig stundaður sjálfsþurftarbúskapur.  Norðar í landinu tekur steppugróður við og þar er mun strjálbýlla og sums staðar búa aðeins Fulanihirðingjar.  Langt er á milli hinna fáu þorpa ólíkt suðurhlutanum.  Parakou er mikilvæg markaðsborg í norðurhlutanum.  Hún byggðist á nýlendutímanum.

Yfirbragð borganna er blandað afrískum hefðum og evrópskum nýlenduáhrifum og nútímalegt að hluta.  Víðast í smærri þéttbýlisstöðum ægir saman hefðbundnum leirkofum, mörkuðum, helgidómum og styttum en minna er um slíkt í Cotonou og á Somba-svæðinu í norðausturhlutanum eru turnhús með stráþökum.  Byggingarstíll nýlendutímans er ríkjandi í flestum borgum, einkum í Cotonou.  Sum nýlenduhúsanna eru jafnvel frá 18. öld (brautarstöðvar, stjórnsýslubyggingar og íbúðarhús auk porúgalska virkisins í Ouidah, sem var notað á tímum þrælasölunnar.  Nútímaáhrifa gætir aðallega í nýjustu íbúðarhúsum, hafnarmannvirkjum og hótelum.

Allt frá árinu 1960 hefur verið unnið ljóst og leynt að því að efla þjóðareiningu landsmanna en það er hægara sagt en gert.  Hinir mismunandi ættbálkar landsins byggjast á aldalöngum hefðum og erfitt er að jafna ágreining á milli þeirra.  Fon-fólkið er nærri 40% landsmanna og býr í ýmsum landshlutum, þó einna flestir í Cotonou.  Yoruba-flókið, sem er skylt samnefndum, nígerískum ættbálki, býr aðallega í suðausturhlutanum og rúmlega 12% landsmanna.  Í umhverfi Porto-Novo eru Goun- og Yoruba-fólkið svo blandað, að tæpast ber lengur á séreinkennum hvors fyrir sig.  Meðal annarra ættbálka í suðurhlutanum eru margar ættkvíslir Adja-fólksins (Aizo, Holi og Mina).

Bariba-ættbálkurinn er hinn fjórði stærsti.  Hann skiptist í nokkrar ættkvíslir og telur 7-8% landsmanna.  Þetta fólk býr í norðausturhlutanum, aðallega í borgum eins og Nikki og Kandi, sem voru fyrrum konungsríki Bariba.  Sombafólkið (Ditamari) býr helzt í Natitingou og í þorpum í norðvesturhlutanum.  Meðal annarra ættbálka má nefna Dendi, Djougou, Pila og Fulanihirðingjana.  Í Benín búa nokkrar þúsundir Frakka, Líbana og annarra þjóðerna, aðallega í Cotonou og Porto-Novo.

Franska er opinber tunga og notuð til kennslu en hver ættbálkur talar eigið tungumál, sem menntað fólk talar líka.  Flestir fullorðnir, sem búa í hinum mismunandi ættbálkasamfélögum, tala einnig sameinginlega tungu hvers svæðis.  Útbreiddustu tungumálin eru Fon, Ge (Mina), Bariba, Yourba og Dendi.

Kristilegar trúboðsstöðvar hafa verið starfræktar á strandsvæðúnum síðan á 16. öld en einungis fimmtungur landsmanna er kristinn.  Fimmtungur hinna kristnu er rómversk-katólskur.  Islam á fylgjendur í norður- og suðausturhlutunum (16-17% landsmanna).  Flestir íbúanna aðhyllast trú forfeðranna, s.s. í suðurhlutanum, þar sem andatrú ríkir (skurðgoð og töfralæknar).

Íbúafjölgun er í hærri kantinum miðað við önnur ríki í Vestur-Afríku og næstum helmingur íbúanna er yngri en 15 ára (1997).  Lífslíkur karla eru 49 ár og kvenna 52 ár.  Næstum fimmtungur íbúanna býr í þéttbýli, aðallega í Cotonou og Porto-Novo.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM