Angóla sagan,
Flag of Angola


ANGÓLA
SAGAN
.

.

Utanríkisrnt.

 

Landið var mjög strjálbýld á steinöld.  Á fyrstu teinöldinni e.Kr. fór fólkið að taka sér fasta búsetu, rækta jörðina og gera sér verkfæri úr járni en veiðimenn og safnarar voru í meirihluta um aldir.  Líklega kynntust landsmenn bantútungum í tengslum við aðferðirnar við járnvinnsluna en þær voru orðnar allsráðandi þegar á 15. öld.

Þrælaverzlun.  Portúgalskir sæfarar komu til konungsríkisins Kongó á níunda áratugi 15. aldar og kristnuðu konunginn og fjölda bakongómanna.  Orðrómur um auðugar silfurnámur inni í landinu og þrælaverzlunin juku á aðgangshörku Portúgala.  Paulo Dias de Novais fékk fékk yfirráð yfir rúmlega 230 km langri strandlengju og leyfi til frekari landvinninnga inni í landi.  Hann stofnaði nýlenduna Luanda með 400 landnemum árið 1575.  Landvinningastríð hans hélt áfram til ársins 1680.  Engar silfurnámur fundust en Portúgalar náðu ótryggri fótfestu við neðri hluta Kwanzaárinnar og á hlutum Malanjehálendisins og þeir lögðu Benguela undir sig árið 1617.  Hollendingar, Frakkar og Bretar fóru að keppa við þá í viðskiptum á þessum svæðum á 17. öld.  Hollendingar gerðust jafnvel svo djarfir að leggna Luanda og Benguela undir sig árið 1641 en Portúgalar sendu liðstyrk frá Brasilíu árið 1648 og ráku þá brott.

Þrælasalan var aðalundirstaða efnahagsins í Angóla, þótt nokkuð væri flutt út af vaxi, fílabeini og kopar.  Portúgalar notuðu fyrst þræla á sykurplantekrum í Sao Tomé og síðan í Barsilíu.  Þriðjungur þeirra var fluttur yfir Atlantshafið frá Angóla og Kongó.  Þar sem Angóla var strjálbýlt, urðu þrælafangarar að leita æ lengra inn í landið, þar til þeir voru komnir inn í Afríku miðja á 18. öld.  Portúgalar tóku sjálfir þátt í slíkum leiðöngrum en frá lokum 17. aldar keyptu þeir þræla af afrískum þrælaveiðurum, sem tóku einnig fólk upp í skuldir, með dómsúrskurði eða keyptu börn á tímum hungursneyða.  Portúgalar kenndu innfæddum að rækta maís og cassava, sem þeir fluttu frá Suður-Ameríku og komu á nokkurs konar jafnvægi, því að þessi matvæli drógu úr matarskorti og færri dóu úr hungri.

Aukning þrælasölunnar lagði heilu konungsríkin í eyði en önnur spruttu upp.  Kongó hnignaði mjög á 17. öld en Loango-konungríkið dafnaði norðan ósa Kongófljóts.  Ndongo konungsríkið á Malanje-hálendinu efnaðist af þrælasölunni en leið undir lok, þegar Portúgalar færðu sig inn í landið á 17. öld, og við tók annað konungsríki í Kwangodalnum.  Austar varð Lundaríkið voldugt vegna mansals á 18. öld.  Nokkur smáríki á Bié-sléttunni börðust um yfirráðin þar.  Suður-Angóla tók lítinn þátt í þrælaverzluninni, því þar voru íbúar fáir og lifðu aðallega á sölu nautgripa.

Verzlun með fólk var bönnuð í Angóla árið 1836 en henni lauk ekki fyrr en dró úr eftirspurn í Brasilíu á sjötta áratugi 19. aldar.  Þetta bann náði til allra yfirráðasvæða Portúgals árið 1875 en það var brotið allt til ársins 1911.  Þrælar voru notaðir á kaffi-, kakó- og sykurplantekrunum í Sao Tomé og við framleiðslu kaffis, baðmullar, sykurs og við fiskveiðar í Angóla fram á sjöunda áratug 19. aldar.  Eftir 1850 byggðist útflutningur aðallega á afurðum veiðimanna (fílabein) og safnara (vax, gúmmí) í Afríku.  Ovimbundu-ættbálkurinn hætti þrælaverzlun og snéri sér að verzlun og flutningum með úlfaldalestum, sem ferðuðust alla leið að Tanganyikavatni.  Chokwe-ættbálkurinn einbeitti sér að fílaveiðum og söfnun vaxs og gúmmís.  Þeir notuðu skotvopn, sem þeir komust yfir, til að steypa Lunda-konungsveldinu á níunda áratugi 19. aldar.  Kasanje-konungsríkið hrundi, þegar ólögleg þrælaverzlun gróf undan sams konar starfsemi konungsins sjálfs.

Innfæddir íbúar í strandhéruðum Angóla urðu mest fyrir barðinu á hægfara landnámi Portúgala vegna landmissis.  Baðmull og sykurreyr var ræktaður frá fimmta áratugi 19. aldar á hentugum svæðum á ströndinni og innflytjendur frá Algarve byggðu upp fiskveiðar og vinnslu.  Eftirspurn eftir kaffi leiddi til stofnunar plantekra á Malanje-hálendinu eftir 1830 og vinna við lagningu járnbrautar frá Luanda til Malanje hófst 1885 og Benguelabrautin var lögð eftir stuttar erjur við ovimbundu-fólkið til að þjóna Katanga (Shaba) námunum í Bengalska-Kongó. Portúgalskir smábændur komu sér fyrir á Huilahálendinu eftir 1880 til að vega á móti aðstreymi Bóa frá Suður-Afríku og lagning suðurbrautarinnar hófst árið 1905.  Kakórunnum og olíupálmum var plantað í Maiombeskógunum lengst í norðri á 20. öldinni.

Landamæri Angóla voru staðfest í samningaviðræðum í Evrópu árið 1891 en Portúgalar stjórnuðu aðeins plantekrusvæðum og járnbrautum og komu á skattlagningu árið 1906.  Angólskir kreólar, sem voru fullgildir, portúgalskir borgarar, voru skipaðir í mörg embætti.  Trúboðsstöðvar brezkra og bandarískra mótmælenda voru reistar víða og franskir katólíkar kepptu við þær.

Lýðveldisstofnun í Portúgal síðla árs 1910 var undanfari einveldisríkisins 1926 og mótaði nútímastefnu í nýlendumálum.  Yfirvöld útrýmdu þrælasölu og lögðu Angóla kerfisbundið undir sig.  Árið 1920 hafði Portúgölum tekizt að tryggja stjórn sína á landinu nema afskekktustu svæðunum í suðausturhlutanum.  Þeir lögðu niður konungsríkin í landinu og stjórnuðu í gegnum höfðingja, leiðtoga og angólsku lögregluna.  Kristnin breiddist út, aðallega katólskan, þannig að í kringum 1 miljón innfæddra játaði kristna trú á fimmta áratugnum (75% katólskir).  Innfæddir voru skattlagðir og urðu að beygja sig undir ræktunaráætlanir Portúgala og þegnskylduvinnu.  Portúgalskir innflytjendur tóku smám saman við opinberum stöðum og embættum af kreólum.

Efnahagsstjórn landsins var færð í nútímahorf og tengd hinni portúgölsku með verndartollum.  Vegakerfið var byggt upp og lokið var við Benguelajárnbrautina að landamærum Belgíska-Kongó árið 1928.  Vörubílar tóku við af úlfaldalestunum og verzlunarhús voru byggð á leið þeirra.  Kaffi, sykur, pálmaafurðir og sísal (hampur) var aðalframleiðsla stóru búgarðanna og maís og nautgripir frá smábændum.  Bændur voru neyddir til að rækta baðmull fyrir portúgalska vefnaðariðnaðinn.  Söfnun demanta í árfarvegum var aðalatvinnuvegurinn í norðausturhlutanum frá 1912.  Fiskveiðar og vinnsla jókst og tekinn var upp framleiðsla margs konar nauðsynjavöru í stað þess að flytja hana inn.

Eftir að Belgíska-Kongó fékk sjálfstæði og varð Kongó (Kinshasa) árið 1960 gerðu Norður-Angólar stóruppreisn 1961 og skæruhernaður kom í kjölfarið.  Upptaka lands og þegnskylduvinna leiddi til uppreisnar á kaffisvæðinu og bændur í Kwangodalnum gerðu uppreisn vegna baðmullarræktunarinnar.  Óánægðir kreólar gerðu árás á fangelsið í Luanda.  Portúgalar sendu mikinn fjölda hermanna til landsins og komu þeim fyrir í hernaðarlega mikilvægum þorpum, sem Angólar höfðu verið neyddir til að byggja, og hvöttu portúgalska bændur til að flytjast til Angóla.  Þessar aðgerðir fjölguðu hvítu íbúunum í 330 þúsund árið 1974.  Samtímis þessu reyndu portúgölsk yfirvöld að milda ínnfædda með því að afnema skylduræktun baðmullar, þegnskylduvinnuna og greiða aðgang að borgaralegum réttindum.  Þeir efldu einnig menntun, heilsugæzlu og velferðarkerfið og hættu að reka innfædda af löndum sínum.  Efnahagurinn batnaði vegna aukinnar iðnvæðingar og aukinnar olíuframleiðslu, sem leiddi til batnandi kjara og lífsskilyrða meðal verkamanna.

Hernaðarátök héldu áfram en bardagaþrek skæruliða minnkaði vegna liðhlaups úr röðum þeirra.  MPLA-hreyfingin (Movimento Popular de Libertacao de Angola) var stofnuð með aðstoð hins leynilega, portúgalska kommúnistaflokks árið 1956.  Leiðtogi hreyfingarinnar frá 1962 var Agostinho Neto .  Hún var vinsæl í Luanda og meðal mbundumanna í dreifbýlinu og fékk stuðning frá Sovétríkjunum.  Höfuðstöðvar MPLA var í Brazzaville í upphafi en voru fluttar til Zambíu árið 1965.  FNLA (Frente Nacional de Libertacao de Angola) var stofnuð árið 1957 undir öðru nafni og forystu Holden Roberto.  Þessi hreyfing byggðist á stuðningi bakongo og mbundumönnum í dreifbýlinu.  Höfuðstöðvar hennar voru í Kongó (Zaire frá 1971-97) og hún naut stuðnings BNA og Kína.  Árið 1966 stofnaði Jonas Savimbi þriðju hreyfinguna, UNITA (Uniao Nacional para a Independencia Total de Angola), sem var aðallega undir stjórn ovimbundumanna og naut stuðnings chokwe- og ovambomanna.  UNITA fékk lítinn stuðning erlendra ríkja (smávegis frá Kína) og átti ekki öruggt athvarf utan Angóla vegna stuðnings Zambíu við MPLA.  Innbyrðis átök í þessum samtökum og þeirra á milli gerði Portúgölum kleift að ná yfirhendinni snemma á áttunda áratugnum.  Portúgölum hafði tekizt að mestu að gera þessar frelsishreyfingar útlægar úr Angóla, þegar einræðisstjórninni í Portúgal var steypt í hallarbyltingu í apríl 1974.

Frelsishreyfingunum tókst ekki að vinna saman eftir byltinguna í Portúgal.  Stuðningur við FNLA innanlands dvínaði innanlands en átti trygg tengsl við yfirvöld í Zaire og var vel vopnum búin.  Í krafti þessa vopnabúnaðar gerði hún tilraun til að ná Luanda með valdi.  MPLA, sem naut síaukins stuðnings Portúgalska kommúnistaflokksins, Kúbu og Sovétríkjanna, hratt þessari árás FNLA og snérist síðan gegn UNITA og rak fulltrúa hennar frá Luanda.  UNITA var lakast búin vopnum og verst þjálfuð í hernaði en fagnaði mestu fylgi almennings (ovimbundu), þannig að kosningafylgi hennar var mest.  Portúgalski herinn var kallaður heim frá Angóla í nóvember 1975 og flestir hvítir landnemar flúðu úr landinu.

MPLA, sem réði höfuðborginni, lýsti yfir stofnun ríkisstjórnar sjálfstæðs Angóla og fékk viðurkenningu margra Afríkuríkja.  UNITA og FNLA mynduði eigin ríkisstjórn í Huambo og hétu á Suður-Afríkumenn að reka MPLA frá Luanda.  Kúbverjar sendu mikinn fjölda hermanna MPLA til stuðnings, hröktu hersveitir Suðurafríkumanna úr landi og lögðu undir sig héraðshöfuðborgir landsins.  Kúbuherinn (40-50 þúsund manns) var um kyrrt í landinu til að stuðla að friði og verja það gegn árásum Suðurafríkumanna.  Árið 1977 bældi MPLA niður byltingartilraun eins leiðtoga hreyfingarinnar og gerðist Marx-Lenínískur flokkur efir miklar innbyrðis hreinsanir.  MPLA hóf uppbyggingu kommúnísks efnahagskerfis með hroðalegum afleiðingum.  Eina undantekningin var olíuiðnaðurinn, sem var undir stjórn erlendra fyrirtækja.  Hann óx og dafnaði og kom í veg fyrir algert hrun efnahagslífsins og hers landsins.  Neto forseti dó árið 1979 og eftirmaður hans var fyrrum skipulagsráðherrann José Eduardo do Santos.

FNLA leystist upp í útlegð en UNITA var endurskipulögð með erlendri aðstoð og stundaði skæruhernað með góðum árangri.  Áframhaldandi árásir Suðurafríkumanna með aðstoð UNITA byggðust aðallega á stuðningi MPLA við SWAPO (South West Africa People’s Organization) skæruliða, sem börðust fyrir sjálfstæði Namibíu.  Árið 1985 hófu BNA hernarðarstuðning við UNITA í gegnum Zaire.  Bardagar mögnuðust um allt land.  Síðla árs 1988 lofuðu Suðurafríkumenn að veita Namibíu sjálfstæði og hætta stuðningi við UNITA gegn því að Kúbverjar flyttu her sinn heim um mitt ár 1991.  Fyrstu viðbrögð MPLA við brotthvarfi Suðurafríkumanna voru að gera árás á flugvöllinn við Mavinga.  Þaðan var hægt að gera árásir á höfuðstöðvar UNITA.  Þessi dýru áform MPLA mistókust og styrkur UNITA óx með árangursríkum árásum á olíustöðvar MPLA til að knýja fram sættir milli aðila.  Í júní 1989 var sögulegur atburður, þegar Santos og Savimbi tókust í hendur á sáttarfundi, sem yfirvöld í Zaire stóðu fyrir og leiddi til vopnahlés.  Það var rofið en hrun kommúnismans í Austur-Evrópu styrkti stöðu friðarafla innan MPLA.  Um mitt ár 1990 ákvað miðstjórn MPLA að láta Marx-Lenínismann sigla og stefna ekki lengur á eins flokks ríki.  Samningar við UNITA fóru á gott skrið og samkomulag um vopnahlé náðist í maí 1991, nýja stjórnarskrá, sem tryggði félagsleg- og pólistísk réttindi, sameiningu herja beggja fylkinga og fjölflokka kosningar í lok árs 1992.  MPLA fékk flest atkvæði í þessum kosningum en ekki nægilega mörg til að ná yfirhendinni yfir UNITA, sem varð í öðru sæti.  Savimbi hafnaði niðurstöðum kosninganna og borgarastyrjöldin hófst á ný.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM