Angóla menning,
Flag of Angola


ANGÓLA
MENNING

.

.

Utanríkisrnt.

 

Menning Angóla er eins og raðmynd aragrúa mjög staðbundinna hluta en almennan uppruna hennar má þó rekja til hefða bantu-manna í Mið-Afríku líkt og í nágrannaríkjunum.  Angólska þjóðin rekur rætur sínar aðallega í móðurætt og ættartengsl og fjölskyldur eru mikilvægar félagslegar einingar.  Víða vottar fólk gömlum konungs- og höfðingjaættum hollustu sína, þótt þær hafi ekki verið virkar á stjórnmálasviðinu um langan aldur og séu víða utan ramma stjórnmálasviðs nútímans.  Enn þá er talsvert um þrælahald að hætti fornýlendumanna, sem nýlenduyfirvöld voru ekki að flýta sér að afnema.  Fjölkvæni, forfeðradýrkun og galdrar eru víða daglegt brauð, jafnvel meðal þeirra, sem hafa snúizt til kristni.

Timbur, leir, kopar, sef, fílabein, skeljar og mannslíkaminn eru aðaltjáningarform skrautlistar.  Tréstyttur chokwe-fólksins, fílabeinsútskurður cabinda-fólksins og hárbúnaður nyaneka- og nkhumbi-fólksins eru víðfrægar.  Tónlist og dans eru þungamiðjan í menningarlífinu.  Trommur eru aðalhljóðfærið.  Munnleg söguarfleifð er rík og fjölbreytt.  Reynt hefur verið að varðveita þessa sögulegu arfleifð utan opinberra menningarstofnana en óreiða í stjórnmálum og spilling eftir 1975 leiddi til glötunar fjölda þjóðlegra safna.

Hefðbundinn menning hefur orðið fyrir miklum vestrænum áhrifum, sem virðast ríkjandi í borgum landsins.  Á 19. öld kom fram á sjónarsviðið kraftmikill hópur menntaðra kreóla í líkingu við þróunina í Sierra Leone, sem skrifaði í blöð, sögubækur, skáldsögur og ljóð á portúgölsku.  Hægri einræðisstjórnin í Portúgal reyndi að stemma stigu við starfsemi þessa ritglaða fólks en það hélt starfseminni áfram í felum eftir 1926.  Leiðtogi MPLA, Agostinho Neto (1922-79), var kunnur fyrir ljóð sín í öllum portúgalskmælandi löndum.  Stjórn MPLA viðhafði stranga ritskoðun og afrek hinna opinberu samtaka rithöfunda, sem stjórnin styrkti, ollu vonbrigðum.  Ritskoðun reyndis erfiðari, þegar ríkissjónvarpið tók til starfa og kvikmyndaiðnaður hófst í landinu.  Metnaðarfull áætlun um eflingu safna, bóka- og skjalasafna varð að engu.  Þvert á móti var fjöldi safna, sem þróuðust á nýlendutímanum, eyðilagður, dreift eða gerður óaðgengilegur fyrir almenning.

Knattspyrna gnæfir yfir allar aðrar íþróttagreinar.  Nokkrir Angólar hafa náð langt á knattspyrnubrautinni og leika helzt með liðum í Portúgal eða öðrum löndum Evrópu, þar sem afkoma þeirra er betri en heima.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM