Dreifbýlingar Angóla
búa fremur þétt á hálendinu og meðfram árfarvegum þaðan. Uppi á
Biè-hásléttunni býr u.þ.b. helmingur þeirra. Í norður- og miðhlutunum
býr fólkið í þorpum en sunnanlands búa nautgripahirðar í dreifðum
byggðum og flækjast um í leit að beitilandi. Nokkrir ikungmenn lifa þar
algeru hirðingjalífi á afskekktum slóðum. Áratugir blóðugra átaka hafa
víðast þjappað fólkinu saman í stórum þorpum.
Í lok nýlendutímans bjuggu u.þ.b. 15% íbúanna í borgum eða
þéttbýli. Nú á dögum býr rúmelga miljón manns í
Luanda, aðalhafnarborginni og einni elztu borg sunnan
Sahara. Á
ströndinni sunnar er sögulega borgin Benguela og höfn og iðnaðarsvæði
keppinautarins, Lobito-borgar. Aðalhöfn suðurhluta landsins er
Namibe, sem er einnig mesti fiskibær landsins. Í norðurhlutanum
eru m.a. Malanje við austurenda Luandajárnbrautarinnar og
olíuborgirnar Cabinda og Soyo á ströndinni. Huambo
(Nýja-Lissabon) er héraðshöfuðborg Biê-hásléttunnar, umkringd fjölda
bæja. Lubango (Sá da Bandeira) er á Huíla-hálendinu.
Þjóðerni og tungumál.
Utan fárra Evrópumanna og einangraðra Ikungmanna í afskekktum
suðausturhluta landsins, tala allir Angólar bantumál eins og aðrir í
miðaustur- og suðurhlutum Afríku. Oyimbundumenn eru stærsti hópurinn,
nærri 40% þjóðarinnar, sem talar umbundu. Þeir búa á Biè-hásléttunni og
hafa líka komið sér fyrir í Benguela, Lobito, á svæðum meðfram
Benguelajárnbrautinni og fjöldi þeirra býr í Luanda. Næststærsti
hópurinn, 25% þjóðarinnar, er mbundu (akwambundu), sem tala kimbundu.
Þeir eru fjölmennastir í höfuðborginni og Malanje-hálendinu auk minni
hópa í flestum borgum á ströndinni. Kikongomælandi bakongomenn lengst í
norðri er þriðji hópurinn. Þeir eru u.þ.b. 15% þjóðarinnar og margir
þeirra búa líka í Luanda. Margir þeirra búa líka handan landamæranna að
Kongó (Kinshasa) og Kongó (Brazzaville). Lunda- chokwe- ogngangelamenn
búa dreift í strjálbýlum austurhluta landsins og handan landamæranna að
Kongó (Kinshasa) og Sambíu. Ovambo- og hereromenn í suðvesturhlutanum
búa einnig í Namibíu en nánir ættingjar þeirra, nyaneka-nkhumbimenn, búa
einungis í Angóla.
Opinbert tungumál landsins er portúgalska, sem hefur breiðzt meira út
eftir að landið varð sjálfstætt og tekið við af hinni almennu tungu
kimbundu. Enska og afrikans eru stundum töluð í suður- og austurhlutnum,
einkum í hópi verka- eða flóttafólks, sem hefur flutzt frá Namibíu og
Sambíu, en bankongomenn í norðurhlutanum skilja og tala frönsku og
lingala.
Trúarbrögð.
Hinn gríðarlegi
fjöldi andatrúarbragða í landinu er smám saman að láta undan síga fyrir
kristninni og kristniblönduðum Afríkutrúarbrögðum. Á fyrstu nýlenduöld
Portúgala tókst ekki að snúa mörgum til kristni, nema í fyrrum
konungsríkinu Kongó. Eftir að mótmælenda- og katólskir trúboðar komu
sér vel fyrir í landinu á 20. öld, fór að bera á árangri. Rúmlega tveir
þriðjuhlutar kristinna eru katólskir og katólska kirkjan á sér flesta
fylgjendur meðal ovimbundumanna. Fjöldi trúarhópa mótmælenda eru
tengdir trúbræðrum og systrum í Bretlandi og BNA. Baptistar hafa unnið
meðal bakongomanna, meþódistar meðal mbundu og fríkirkjumenn meðal
ovimbundumanna. Kristnu Afríkutrúarbrögðin, einkum Jesúskirkjan (Tocoist-kirkjan),
hafa breiðzt út frá Kongó (Kinshasa). Mótmælendur og fylgjendur
Jesúskirkjunnar voru álitnir hættulegir á nýlendutímanum og urðu fyrir
nokkrum ofsóknum.
Kommúnistastjórnirnar í Luanda litu trúarbrögð hornauga eftir 1975 og
lögðu niður ýmsar stofnanir þeirra, s.s. skóla, dagblöð, útvarpsstöðvar,
og lögðu undir sig eignir þeirra, þótt trúfrelsi ætti að vera tryggt að
lögum. Meþódistar fóru bezt út úr þessum aðgerðum, því flestir
stjórnmálaleiðtogar landsins höfðu gengið í skóla þeirra. Aðrir
kristnir söfnuðir voru undir ströngu eftirliti og urðu stundum fyrir
áreiti. Starfsemi votta jehóva var bönnuð 1978. Þegar stjórnvöld snéru
frá kommúnismanum, náðu trúfélögin aftur talsverðum áhrifum, einkum
katólska kirkjan, sem lék stórt sáttarhlutverk meðal þjóðarinnar á bak
við tjöldin. Angóla hefur sérstöðu í Afríku að því leyti, að þar eru
engir múslimar.
Lýðfræði.
Um aldamótin 2000 var íbúafjöldi landsins í kringum 10 miljónir (8 manns
á hvern km²), þannig að það er fremur strjálbýlt. Stór
hálfeyðimerkursvæði meðfram ströndinni og tveir þriðjuhlutar landsins í
austri eru nánast óbyggðir. Stríð og hungursneyðir hafa fellt rúmlega
hálfa miljón manna eftir 1975 en íbúafjölgunin er á háu stigi.
Fæðingatíðnin er nálægt meðaltali ríkja í suðurhluta Afríku en há
dánartíðni hefur dregið verulega úr náttúrulegri fjölgun. Lífslíkur
karla var 43 ár og kvenna 46 ár og þjóðin er ung að árum. Áratugir
blóðugra átaka hafa leitt til þess, að næstum 10% þjóðarinnar búa sem
flóttamenn í borgum landsins. Talið er, að hálf miljón manna hafi flúið
land í nýlendustríðinu, einkum bakongomenn, sem flúðu til Kongó
(Kinshasa) og margir chokwe-, lunda- og ngangeramenn flúðu til Sambíu.
Árið 1975 kom ný bylgja flóttamanna, þegar rúmlega 300.000 Portúgalar og
fjöldi svartra fór úr landi. Margir bakongomenn hafa þegar snúið heim
og kongóskir bakongomenn hafa flutzt til landsins til að fá störf í
olíuiðnaðinum. |