Mestur
hluti Japans er fjalllendur og aðalhálendið heitir *Chubufjöll
(Chubu-Sangaku) eða Japönsku Alparnir.
Þeir eru norðvestan Tókíó.
Þangað sækir helzt fjallgöngufólk og iðkendur skíðaíþróttarinnar
auk þeirra, sem vilja baða sig í heitum laugum.
Greiðustu samgöngutækin eru rútur og lestir.
Joetsulestirnar aka frá Uenostöðinni í Tókíó til skíðastaðarins
Naeba (2½ tími til Gokan + 1 tími með rútu), Yuzawa (2 klst. og 40
mín. með lest) og Iwappara (10 mín. rútuferð þaðan).
Rútur aka líka til skíðastaðanna við Akakura og í Shigafjöllum.
Það tekur 4½ tíma að komast til Akakura með
Myoko-kogenlestinni og rútu (20 mín. í viðbót).
Ekið er með lest til Nagano í Shigafjöllum (4 klst.) og síðan
með annarri lest til Yudanaka.Vetraríþróttir
eru stundaðar frá desemberlokum fram í apríl.
Gististaðir eru af öllum gerðum og hægt er að leigja allan
útbúnað. Það er ráðlegt
að panta gistingu með góðum fyrirvara um helgar.
Matsumoto
(3½ tími frá Tókíó; 3 tímar frá Nagoya; 200.000 íb.) er góð
miðstöð fyrir ferðir til nærliggjandi staða í Chubufjöllum.
Leiðin frá Tókíó (Chuolestir) liggur um einn fegursta hluta
Japans. Þessi fornlega
borg er í breiðu dalverpi. Það
er áhugavert að skoða listasafnið og
*Matsumoto-virkið (1504). Fjallgöngumenn
komast með lestum og rútum að helztu gönguleiðum en hinar beztu þeirra
með flestum fjallakofunum eru á Otenji-, Harinoki- og Tateyamasvæðunum.
Yarifjall (Yari=spjót) er hæst í norðurhlutanum og aðgengilegt
frá Matsumoto. Einnig aka
rútur (1½ tími) frá Matsumoto til Kamikochi-dals.
Þettar er fagur dalur í 1600 m hæð yfir sjó, 1,5 km breiður
og 15 km langur, og yfir honum gnæfa snævi þaktir tindar.
Áin Azusa rennur um hann. Hún,
ásamt heitum laugum, gefur fjölskrúðugri alpaflóru líf.
Loftslagið er mjög þægilegt á sumrin, þannig að dalurinn
er mjög eftirsóttur á sumarleyfistímanum (veiði, bátaleigur,
tjaldstæði).
Annað
fjalllendi, sem er vinsælt orlofssvæði, er í grennd borgarinnar
Karuizawa (3 tíma akstur frá Tokyo með Shin-etsulestunum).
Kanazawa
(430.000 íb.), fyrrum virkisborg Maeda-ættarinnar, er við Japanshaf
u.þ.b. 120 km norðvestan Matsumoto.
Þriggja alda velmegun þar varð undirstaða menningarþróunar,
sem leiddi m.a. af sér Noh-leikritin, tedrykkjusiði og blómastungulistina.
Í miðbænum er hinn frægi garður **Kenroku-en (gerður
1643), sem er einn hinn fegursti sinnar gerðar í landinu. |