Á
Periklesartímanum, fyrir rúmum 2300 árum, sköpuðu Grikkir fegurstu
hof og styttur gamla heimsins úr hvítum marmara.
Perlur þessara listaverka stóðu á Akropolishæðinni í
hjarta Aþenuborgar. Þessi
hæð er ílöng og líkist einna helzt stórum fótpalli styttu.
Hún rís bratt upp úr borginni, er flöt að ofan og þeskur tæplega
þrjá hektara. Marmarinn
var sóttur til Pentelikusfjalls, 16 km norðaustar.
Fyrstu íbúar Aþenu (u.þ.b. 2000 f.Kr.) víggirtu borgina og
fyrstu konungar þeirra réðu ríkjum.
Fyrir rúmum 2500 árum var farið að reisa musteri gyðjunnar.
Aðeins 90 árum síðar, þegar Lacedaemonar unnu borgina, eyddu
þeir öllum híbýlum Aþeninga en stóðu steini lostnir fyrir framan
glæsileg mannvirkin á Akropolis og létu þau í friði.
Árið
480 f.Kr. eyðilögðu Persar listaverkin á Akropolis og drápu
verjendurna en Þemistokles og Símon ruddu rústirnar og endurbyggðu
varnarmúrana innan 13 ára. Árið
447 f.Kr. réði öldungurinn Perikles myndhöggvarann Fídias til að
stjórna enduruppbyggingu Akroposis.
Nokkrum árum áður hafði Fídias reist stóra bronsstyttu af Aþenu
Promachos á hæðinni. og árið 447 f.Kr. hóf hann byggingu Aþenuhofsins.
Þetta dóríska musteri, Parþenon (Meyjahofið), var opnað árið
438 f.Kr. Það var 70 m langt, 31 m breitt og 20 m hátt.
Á vesturgafli voru styttur af Aþenu og Póseidon.
Ytri hliðin var skreytt 92 veggmyndum.
Meðfram súlnagöngunum innanverðum var loftrönd all um kring
12 m ofan þeirra, 160 m löng og 1 m á breidd.
Þar eru lágmyndir af 350 mannverum og 125 hestum.
Þessi hersing er tákn um panaþensku skrúðgönguna, sem
flutti Aþenu nýja yfirhöfn á hverju ári.
Inni í hofinu var 12 m há fílabeinsstytta af Aþenu Partenos.
Fatnaðurinn var úr gulli.
Í hægri hendi hélt hún á gyðju sigursins, Níke, og hin
vinstri hvíldi á stórum skildi.
Á árabilinu 437-432 f.Kr. var hið mikilfenglega Propyleuhlið
byggt á vesturenda Akropolishæðar.
Hof Aþenu Níke var fullbúið árið 410 f.Kr.
Erechteum, byggt 421-407 f.Kr., var reist til heiðurs
Erechteusar, fóstursonar Aþenu og konungs borgarinnar.
Sex marmarastyttur, 2 m háar, stóðu í fordyri þess,
„Fordyri meyjanna”. Á 5. öld e.Kr. höfðu Býsantínumenn flutt styttur Aþenu
Promachos og Aþenu Partenos til Konstantínopel og breytt Parþenon í
kristna kirkju. Tíu öldum
síðar breyttu Tyrkir því í mosku.
Árið 1687 réðust Feneyingar á Tyrkina, sem höfðu púðurgeymslu
í hofinu. Fallbyssukúla hæfði
hofið og allt sprakk í loft upp.
Þakið, veggir og 16 súlur lágu í haugum og 300 manns fórust.
Árið
1801 fékk Lord Elgin, sendiherra Breta í Tyrklandi, leyfi til að
fjarlægja nokkrar steinblokkir með áletrunum og mannamyndum.
Hann fjarlægði í rauninni alla loftröndina, fordyrið,
styttur og lágmyndir. Hann
tók líka loftrönd úr Aþena Níke hofinu, sem Tyrkir höfðu brotið
niður 1687. Úr Erechteum
tók hann marmarastyttu og súlu úr eystra fordyrinu.
Árið 1816 voru þessir illa fengnu gripir fluttir í Brezka
safnið í London.
Þegar
Grikkir losnuðu undan yfirráðum Tyrkja árið 1829 var hafizt handa
við endurreisn úr rústum Akropolis.
Aþena Níke hofið var endurbyggt 1835 -36.
Akropolissafnið (1878) var byggt norðan Parþenon.
Á 20. öldinni lét American School of Classical Studies
endurbyggja hluta af Erechteum, sem stríð og veður höfðu lagt í rústir.
Propylea, sem var búið að vera í rústum síðan 1645, er að
hluta endurreist. Nokkrar fallnar súlur voru endurreistar í Parþenon, en það
er samt enn þá þaklaust og tómt.
Það skemmdist enn frekar í síðari heimsstyrjöldinni. |