Austurey er næststærsta
eyja Færeyja og næstþéttbyggðust. Þar er hæsti tindur eyjanna, Sléttaratindur (882m).
Þar eru líka lengstu bílagöngin, 2,5 km löng, og tveir dýpstu
firðirnir, Skálafjörður og Funningsfjörður.
Meðal margra iðnfyrirtækja þar er skipasmíðastöð og margar
fiskvinnslur. Norðurhluti
eyjarinnar býður upp á fjölbreyttar gönguferðir. Elduvík á norðausturströnd
Funningsfjarðar er fallegt þorp. Leiðin þangað liggur meðfram strönd fjarðarins eftir
tiltölulega nýjum og góðum vegi.
Áður en hann var lagður var byggðin einangruð og fólk varð að
ferðast með bátum eða ganga um fjallvegi.
Gamla höfnin skammt frá þorpinu gefur hugmynd um harðbýlið fyrrum. Oyndarfjörður á
austurströndinni er um margt merkilegt þorp. Þegar komið er þangað með bát sjást hinir svonefndu
Rinkusteinar nokkra metra frá ströndinni.
Þeir eru þeirrar náttúru, að rugga stöðugt fyrir hreyfingu
sjávar eins og þeir hafa gert öldum saman. Margir bæir á Austurey eru
skoðunarverðir vegna legu sinnar og fagurs umhverfis. Skammt norðvestan
Gjógv er sérstaklega fallegur dalur, Ambadalur, þaðan sem er
einkanlega fagurt útsýni til hæsta klettaröðuls í hafinu kringum Færeyjar,
Búgvins. Skammt norðan Eiðis er Eiðiskollur.
Þaðan er fagurt útsýni meðfram norðurströndum Straumeyjar og
Austureyjar og allt að yztu sjónarrönd. Safnið Blásastofa við Norðragötu
er í gömlu bændabýli.Umhverfis það eru fjögur
jafngömul hús, sem tilheyra bænum og rétt hjá þeim er gamla kirkjan.
Þessi hús gefa fólki þá tilfinningu, að það sé komið
nokkrar aldir aftur í tímann.
Tóftavatn á suðurenda eyjarinnar býr
yfir afarfögru og tímalausu umhverfi. Eyjan býður upp á marga möguleika
fyrir stangaveiðimenn, bæði í fersku vatni og með ströndum fram.
Ganga upp á Sléttaratind með rútuferð að rótum þess tekur u.þ.b.
5 klst.Ganga frá Gjógv í Ambadal og til baka tekur u.þ.b. 3 klst. Í
þorpinu Strendur eru spuna- og prjónaverksmiðja og minjagirpagerð úr
blágrýti (öskubakkar, lampar, glös o.fl.). Í Götu er hægt að heimsækja
Blásastofusafnið og njóta fagurs umhverfis í Norðragötu. |