Vestur Grænland,


VESTUR-GRÆNLAND
.

.

Utanríkisrnt.

Helmingur Grænlendinga, sem telja u.þ.b. 55.000, býr í stærri bæjum á Vesturströndinni, þ.m.t. í Nuuk, höfuðborginni.  Þessi landshluti einkennist af gríðarmiklum fjörðum, eyjum og skerjagarði, þar sem er hægt að skoða hvali og seli næstum allt árið.  Golfstraumurinn nær til þessa hluta landsins og kemur í veg fyrir að sjóinn leggi.  Reglulegt áætlunarflug er á milli Kanada, Íslands og Danmerkur og flugvallarins í Kangerlussuaq allt árið og þar er líka miðstöð innanlandsflugsins í vesturhlutanum.  Þó nokkuð vegakerfi malarvega er í nágrenni flugvallarins, þannig að ferðast um á reiðhjólum eða fjórhjóladrifnum farartækjum, jafnvel alla leið upp að jökli.  Í slíkum ferðum sjást oftast sauðnaut, sem talsvert er um á þessum slóðum. Þau voru upprunalega flutt frá Austurströndinni á sjöunda áratugnum.

Atvinnulífið í bæjunum byggist aðallega á veiðum og vinnslu rækju og grálúðu en margir gestanna hafa meiri áhuga á bleikjuveiðum í hinum fjöldamörgu góðu veiðiám.  Bleikjan heldur sig í stöðuvötnunum á veturna og rennur til sjávar á vorin til að safna vetrarforða og kemur aftur í ágúst og september.  Hákarlaveiðar eru líka stundaðar frá Maniitsoq og þar er hægt að krækja í risastór kvikindi.  Þar er líka upplagt að reyna sig í kajakferðum.  Þjóðminjasafnið er í Nuuk, sem er einhver minnsta höfuðborg í heimi.  Þar eru m.a. til sýnis velvarðveittar múmíur kvenna og barna, sem talið er að hafi látizt í kringum 1475, þegar bát þeirra hvolfdi.  Safnið er í gamla bæjarhlutanum, þar sem elztu húsin eru frá 1728, þegar norski trúboðinn Hans Egede bjó þar.  Fyrrum bústaður hans er nú opinbert móttökuhús ríkisstjórnarinnar.

Þessi blanda af gömlu og nýju heillar ferðamenn, sem koma til landsins.  Strætisvagnar eru á ferðinni og vefkaffistaðir eru komnir.  Fjöldinn allur af snjósleðum stendur meðfram vegum og í útjaðri Nuuk á veturna og vorin.  Í Sisimiut, sem er rétt norðan heimskautsbaugs, eru hundasleðar notaðir á hefðbundinn hátt og eigendur þeirra eru fúsir til að fara með ferðamenn í langar og skammar ferðir.

Vestur-Grænland hefur margt að bjóða ferðamönnum til afþreyingar á vorin.  Öll ævintýrin eru tengd snjó og ís.  Í Nuuk er haldin árleg keppni í gerð snjóstyttna með viðeigandi hátíðarhöldum.  Þátttakendur eru bæði reyndir og óreyndir, innlendir og erlendir.  Púðursnjórinn í Maniitsoq bíður eftir skíðafólki, sem er flutt upp á fjöllin í þyrlum.  Í Sisimiut er haldin lengsta gönguskíðakeppni í heimi, Heimskautsbaugskeppnin, á hverju ári.  Hún er 165 km löng og keppendur tjalda á leiðinni.  Í Kangerlussuaq er hægt að dvelja í íshóteli, þar sem drykkir eru framreiddir í glösum úr ís.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM