Norður-Grænland
er land hundasleða og miðnætursólar.
Mörk þess eru í suðri við Kangaatsiaq og Upernavik í norðri.
Á sumrin sezt sólin ekki allan sólarhringinn og því norðar,
sem ferðast er, þeim mun lengur er hún á lofti.
Á veturna snýst dæmið rækilega við með jafnlöngum sólarlausum
tímabilum.
Í Ilulissat sést sólin á ný hinn 13. janúar ár hvert og
haldið er upp á það.
Það eru flugvellir við bæina Aasiaat, Ilulissat, á
Nuussuaqskaganum við Uummannaq og við
Upernavik.
Þrátt fyrir það, kjósa margir að ferðast með skipum eða
bátum með ströndum fram, enda kemst fólk þá betur í snertingu við
hina óviðjafnanlegu náttúru landsins.
Á leiðinni ber fyrir augu eyjar og sker, lág fjöll í suðurhlutanum,
tignarlega blágrýtisfjöll Diskóeyju, hæstu fjöll
vesturstrandarinnar við Uummannaq, iðandi fuglabjörg við Upernavik,
skriðjökla og jökulhvel.
Einhverjir hraðskreiðustu skriðjöklar heims eru í grennd við
Uummannaq og Ilulissat.
Selaveiðar
voru aðaltekjulind meirihluta íbúanna, þess vegna eru byggðir þeirra
ólíkar öðrum byggðum í landinu.
Þarna eru mörg þorp, sem gefa gestum allt aðra tilfinningu
fyrir landinu en nútímaaðstæðurnar í suðvesturhluta landsins.
Á veturna, þegar firðirnir eru ísi lagðir, er hundasleðinn
ómissandi farkostur veiði- og fiskimanna, sem leggja langar línur niður
um göt í ísinn, allt að 600 m dýpi, til að veiða grálúðu.
Mikilvægi hundasleðanna sést bezt á því, að víða eru
fleiri hundar í þorpunum en fólk.
Söguþyrstir gestir finna líka eitthvað fyrir sig, s.s. elzta
timburhús landsins (1734) í Qasigiannguit, þar sem er safn ýmissa
minja og forngripa forsögulegra menningarskeiða.
Byggðin
Sermermiut í grennd við Ilulissat er mannlaus.
Þar er hægt að kynna sér draugaþorp, gamalt vöruhús og önnur
hús frá nýlendutímanum.
Þau og kirkjurnar gefa innsýn í mikilvægt skeið í sögu
landsins.
Víða í bæjum landsins eru söfn, sem leiða gestina í gegnum
söguna og fortíðina.
Það er tæpast hægt að vænta þess að sjá mörg landspendýr,
einna helzt refi eða héra, en öðru máli gegnir um hafið, sem iðar
af lífi.
Fjöldi mávategunda og fýlar eru í sjónmáli.
Rækja, sem er meðal aðalútflutningsafurða landsins, er veidd
fyrir ströndum norðurhlutans.
Trillukarlar stunda líka grálúðuveiðar og það er algengt,
að 50 tonnum af þessum fiski sé landað í litlum þorpum í viku
hverri á vertíðinni.
Á þessum slóðum eru yfirgnæfandi líkur á að sjá næststærstu
hvalategundina, langreyði, einkum úti fyrir þorpunum Qeqertarsuaq,
Aasiaat og Qasigiannguit.
Hollenzkir hvalafangarar voru tíðir gestir á þessum hvalamiðum
á 18. öld. |