Kulusuk Grænland,


KULUSUK
.

.

Utanríkisrnt.

Auk flugvallarins og radarstöðvarinnar er 350 manna byggð í þorpinu Kulusuk.  Fyrsta kirkjan var byggð þar árið 1908 en þá, sem stendur þar nú, byggðu skipreka sjómenn árið 1922.  Elzta kynslóð íbúanna var alin upp við steinaldaraðstæður.  Bandaríkjamenn komu með tæki sín og tól til eyjarinnar árið 1958 og hófu flugvallargerð og byggingu radarstöðvarinnar í grennd við frumstætt þorpið.  Þá fyrst fengu íbúarnir samanburð og áttuði sig á því, hvað fátækt var.  Þróun byggðarinnar í nútímaátt hefur verið hæg en veiðisamfélagið er smám saman að hverfa.

Athyglisvert er að gefa gaum gröfum meðfram stígnum milli flugvallarins og þorpsins.  Þær eru lítt niðurgrafnar vegna skorts á jarðvegi, heldur er grjóti hlaðið utan um hina látnu til að rándýr og fuglar komist ekki að líkunum.  Á tveimu þeirra, sem eru hlið við hlið, eru hvítir krossar. Fyrir  nokkrum árum voru þar fjögur börn að leik með riffil (algengt að 10 ára strákar fari að æfa sig í skotfimi) og voðaskot hljóp í litla stúlku, sem lézt og það var ákveðið að grafa hana á staðnum.  Gamall maður, að dauða kominn, óskaði eftir því að verða grafinn við hlið hennar, svo að hún yrði ekki ein.  Grafirnar í kirkjugarðinum í Kulusuk eru sams konar, vegna skorts á jarðvegi.

Ferð til Kulusuk á vegum Flugfélag Íslands hefst frá Reykjavíkurflugvelli kl. 10:00 og lent er á Kúlusuk eyju skammt frá þorpinu Cap Dan. Frá flugvellinum má sjá radarstöð Bandaríkjamanna, sem þeir yfirgáfu 1992 og buðu Dönum að taka við.  Danir vildu ekki taka við rekstrinum, þannig að nú er stöðin auð.  Ný flugstöð var í byggingu árið 1994, en hin gamla var enn þá í notkun.  Þar er málamyndatollafgreiðsla og seldar vídeóspólur.  Þar eru einnig einu klósettin, sem fólki er ráðlagt að nota í ferðinni.  Þaðan tekur við 40 mínútna ganga um stíg og oft yfir snjóskafla til þorpsins, þannig að bezt er að vera í góðum skóm.  Í þorpinu er gestum sýndur grænlenzkur dans og sungið með auk þess, að veiðimaður í kajak sýnir listir sínar.  Einnig er boðið upp á bátsferð.  Margir kíkja inn í kaupfélaið og verzla þar, þótt ekki sé um auðugan garð að gresja.

Það tekur níu mínútur að fljúga þyrlu frá Ammassalik til Kulusuk, þannig að þeir, sem vilja fara þangað gætu það.  Í Ammassalik er sjúkrahús, sem annast alvarleg tilfelli.  Í Kulusuk er heilsugæzlustöð, sem annast minni háttar slys og veikindi.


.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM