Það
hvílir einhver ævintýrablær yfir nafninu Túle.
Dagbækur Knud Rasmussen, Peary, Hendersons, Malaurie og margra
annarra landkönnuða segja frá ævintýraferðum á þessum norðurhjara
og flest, sem þeir geta um, er óbreytt.
Íbúarnir á þessum slóðum lifa enn þá af veiðum (selir,
hvítabirnir, fuglar, náhveli og rostungar).
Þarna eru sex þorp, hið stærsta hefur u.þ.b. 600 íbúa.
Nyrzt er Siorapaluk, sem er jafnframt nyrzta byggða ból
heimsins. Þeir, sem hafa séð
dönsku kvikmyndina „Smilla’s Sense of Snow”, kannast við þetta
nafn.
Veiðiferðirnar
taka oft margar vikur. Nú
gilda strangar reglur um veiðarnar, s.s. hve mörg dýr má fella og
hvar. Náhveli má aðeins
veiða með skutlum. Bjarnarskinnsbuxur
og kamikkur eru hlýjasti búnaðurinn í löngum sleðaferðum.
Meðalhiti í febrúar og marz er u.þ.b. –30°C. Norður-Ameríka er steinsnar frá Norður-Grænlandi og þar
hafa leiðir inúíta legið í þúsundir ára og síðustu flutningar
fólks þaðan til Grænlands fóru fram í kringum 1870.
Reynsla kynslóðanna á þessum harðbýlu slóðum hefur gengið
í erfðir og aðlögunarhæfileikar íbúanna hafa haldið lífi í þessum
litlu samfélögum. Þegar
ísa leysir í ágúst eru stórir, opnir bátar með öflugum velum
dregnir fram til ferðalaga og veiðiferða.
Á þessum tíma er bjart allan sólarhringinn, allt til ágústloka.
Veiðin er nýtt til fullnustu, skinning í föt og kajaka, kjötið
og innyflin eru borðuð og étin, horn náhvala og tennur rostunga eru
notaðar til útskurðar, skartgripagerðar og veiðitækja og jafnvel
fjaðrir eru notaðar í listsköpun heimilanna.
Qaanaaqþorpið
varð til á sjötta áratugnum, þegar bandaríski herflugvöllurinn,
sem var upprunalega byggður í kalda stríðinu við Túle/Dundas, var
stækkaður. Þá var ekki
talið við hæfi, að almennir borgarar byggju svo nálægt herstöðinni.
Það varð til þess, að fólkið var flutt 100 km norðar, þar
sem Qaanaaq var byggt 1953. Tilvist
herstöðvarinnar, Pituffik, eins og Grænlendingar kalla hana, gerir
ferðir til Qaanaaq erfiðar. Ferðamenn
verða að fá ferðaleyfi þangað frá danska utanríkisráðuneytinu. Áætlanir eru uppi um byggingu flugbrautar nærri Qaanaaq,
þannig að beint flugsamband kemst á milli þorpanna í Norður-Grænlandi.
Það er lítið hotel í Qaanaaq og gönguferð þaðan upp að
jökli tekur ekki nema klukkutíma. |